Vinnuþrælarnir í frelsisverksmiðjunni, spjall við Måns Månsson og Anders Mossling, leikstjóra og aðalleikara Yarden

Anders Mossling í Yarden.
Anders Mossling í Yarden.

Ásgeir H. Ingólfsson, sérlegur útsendari Klapptrés á nýafstaðinni Berlínarhátíð, hitti þá Måns Månsson og Anders Mossling, leikstjóra og aðalleikara sænsku myndarinnar Yarden á hátíðinni, en þessi áleitna kvikmynd hefur vakið mikla athygli.

Tvær myndir, tvær senur: Ljóðskáld burðast með kassa fullan af óseldum bókum. Tónlistarmaður hittir annan tónlistarmann á stigagangi, þeir halda báðir á kassa fullum af óseldum plötum. „Ég á ennþá þúsundir kynningarpóstkorta út af öllum litlu stuttmyndunum sem ég gerði þegar ég var að byrja í kvikmyndagerð, flakkandi á milli kvikmyndahátíða og í barnalegri bjartsýni að dreifa kortunum á borð og aðra lausa staði, bílskúrar heimsins eru fullir af svona dóti,“ segir Måns Månsson mér, en fyrri senan er úr mynd hans Yarden. Seinni senan er úr mynd Coen-bræðra, Inside Llewyn Davis, þar sem aðalpersónan er nærri því búinn að gefast upp á listaharkinu og ráða sig á skip. En bara næstum því, á endanum heldur hann harkinu áfram. Yarden er hin hliðin á þeim pening, hún fjallar um ljóðskáldið sem lætur sig hafa það að taka eina skítadjobbið sem býðst þegar öll sund virðast lokuð.

„Þetta eru algjörar vinnubúðir, þrælabúðir, svo sannarlega. Þetta er fangelsi í raun,“ segir Månsson mér og finnst kaldhæðið að þetta gerist þar sem vélað er um bíla. „Bílar, þetta nánast klisjutengda frelsistákn, bíllinn sem þú getur stokkið í og farið hvert á land sem er, næsta þjóðveg, vindurinn í hárinu – þetta frelsi er í boði þeirra lægst settu á vinnumarkaðnum, sem vinna við skelfilegar aðstæður. Það var það sem heillaði mig, þessar andstæður, frelsisverksmiðjan sem er í raun hálfgerð þrælakista.“

En hvaða staður er þetta eiginlega? Yarden er risastór bílagarður í Malmö, þangað sem risastór skip koma og afferma bíla, af því skipin eru of stór til þess að sigla í gegnum Eystrasaltið. Þannig að það þarf að færa bílana yfir í minni skip. „En þessum mönnum eru ekki hleypt inn í skipið, það eru aðrir sem sjá um það. Hvert bílastæði er númerað, þannig að þeir færa bara bíla frá einu númeri yfir á annað, bílarnir eru líka með númer, þannig að þeir eru bara hluti af færibandi, að lokum enda svo bílarnir á öðru skipi og sigla í burtu. En þessir menn hafa ekki hugmynd um hvar bílarnir enda. Þeir fá bara númer, færa bílana þangað, búið, næsti bíll,“ segir aðalleikarinn Anders Mossling mér, en hann leikur einmitt númer – persóna hans er sjaldnast ávörpuð með nafni – fyrir flestum er hann aðeins 11811.

Menn í vélrænni vinnu

En hversu lengi mun þetta endast, hvenær taka vélarnar við þessum hluta ferlisins líka? „Maður hugsar um það þegar maður er á þessum stað, þetta er eina skrefið þar sem enn þarf manneskjur,“ svarar Månsson. „Það eru vélar sem búa til þessa hluti, en einhver þarf að færa þá á milli staða, aka þeim á bílasölurnar – en þá er mjög mikilvægt að þeir snerti ekkert eða eyðileggi sérsmíðaða stýrið þitt eða græjurnar þínar. Þetta eru lúxusbílar, rándýrir, þetta er eins og rammgert virki, hundruðir milljónir dollara í hálfgerðum bílakirkjugarði.“

Måns Månsson leikstjóri Yarden.
Måns Månsson leikstjóri Yarden.

Vinna sem helvíti á jörðu er þó ekki nýtt stef í kvikmyndum. „Ef þú ert að fjalla um vinnuþrælkun í kvikmyndum þá koma Metropolis og Modern Times alltaf upp í hugann, þær eru hluti af hefðinni, þessi nafnlausu númer. En þetta takmarkast ekki bara við vinnustaði, þjóðfélagið í heild sinni er að verða sífellt dystópískara, þetta lítur ekki vel út í augnablikinu, en hvað getum við gert til að breyta þessu? Kannski þurfum við að breyta lífsháttum okkur og breyta einhverju fyrir alvöru, ekki takast bara á við  neysluhyggjuna heldur líka eigið siðferði, samfélagssáttmálann; ég vona að myndin nái að kjarna spurninguna hverju fólk er tilbúið til að fórna til að hjálpa öðrum,“ segir Månsson og áréttar að það verði sífellt mikilvægara. „Hvað kostar samheldnin? Það eru hlutir að gerast í Svíþjóð og Evrópu og heiminum öllum þessa dagana sem erfitt er að horfa fram hjá, jafnvel bara síðustu sex mánuði á meðan við vorum að klára myndina … ég er ekki viss um að ég þekki Svíþjóð lengur, þetta er ekki sama land og það var síðasta sumar, það er verið að loka landamærum og þjóðernishreyfingar eru að verða stærri og stærri …“ segir hann og tengir það myndinni á ný: „Anders leikur persónu í karakterdrama, en vonandi speglar hann líka spurningarnar sem þjóðfélagið í heild þarf að kljást við. Kannski er auðveldara að tengja við þær spurningar í gegnum hann.“

Þessar fallegu líkkistur

Månsson hefur unnið sem kvikmyndatökumaður og ekki aðeins tekið upp eigin myndir heldur líka leikstjórnarverkefni annara, eins og til dæmis Blowfly Park með Sverri Guðnasyni. Þetta er fyrsta myndin sem hann vinnur svo með öðrum kvikmyndatökumanni, hinni pólsku Ita Zbroniec-Zajt, sem vinnur til skiptis í Svíþjóð og í heimalandinu.

„Það var yndislegt!“ segir hann um þessa nýju reynslu. „Loksins, ég tók mínar eigin myndir bara upp sjálfur af praktískum ástæðum, af peningaskorti eða vegna takmarkaðs aðgangs, þegar maður gerir heimildamyndir verðurðu að gera eitthvað sjálfur á tökustað, annað hvort taka upp hljóð eða halda á myndavélinni – og ég ákvað að halda á myndavélinni og fannst frábært að mynda, en þegar myndirnar urðu stærri og flóknari, með fleiri persónum, þá fór að verða of erfitt að halda fókus bak við myndavélina. Ég áttaði mig á að það var ekki fyrr en eftir 3-4 tökur sem ég byrjaði að hlusta á hvað leikararnir voru að segja, þú ert of upptekinn við  að taka upp myndina. Þannig að ég varð að fá einhvern annan í þetta, og ég var stálheppinn, Ita er algjörlega frábær tökumaður.“

En hvernig nálguðust þau myndina sjónrænt? „Ég hafði hugboð um að ef við reyndum að gera þennan stað ofboðslega fallegan yrði hann ennþá meira ógnvekjandi. Frekar en að gera hann skítugan og ruslaralegan. Bílar eru fallegir, þeir eru hannaðir til að vera fallegir og sexí og við erum öll skilyrt til að vilja sitja í þeim, en þetta eru í raun líkkistur, í alvöru, þú gengur um þarna og veltir fyrir þér hversu margir munu hreinlega deyja í þessum drekum, þetta eru bara líkkistur að bíða eftir árekstri.“

Þögla skáldið

Það er mikið deilt um kvikmyndaaðlaganir á bókmenntum í Svíþjóð að sögn Månsson, þar sem framleiðendur eru sagðir áhættufælnir og vilji frekar kvikmynda bækur því fólk þekki þær fyrir, sem geri þeim auðveldara að fjármagna myndirnar. Yarden er ein þessara kvikmyndaaðlagana, en myndin er byggð á skáldsögu eftir Kristian Lundberg, sem sjálfur vann á staðnum.

En þrátt fyrir að vera byggð á bók um ljóðskáld þá er þetta mynd hinna fáu orða. „Það er vissulega þversögn,“ samþykkir aðalleikarinn Mossling og bætir við: „Í tökum spurði ég Måns hvort myndin væri ekki of lágstemmd, en hann svaraði á móti að ég skyldi vera enn lágstemmdari – og um leið og það var talað of mikið eða einhver sena var of vel skrifuð þá hætti þetta að virka, þannig að við tókum það í burtu og á endanum voru nánast engin orð eftir. En myndin er um ljóðskáld í krísu. Orð hans eru einskis virði lengur, hann reynir að lesa ljóðin sín og hann man þau ekki einu sinni, hann les þau vitlaust, hann hefur tapað málinu, orðin hans skipta ekki máli lengur.“

Månsson segir mér svo að þessar deilur um ofríki bókmenntaaðlaganna hafi raunar verið honum innblástur til að byrja með. „Venjulega eru bækur með mjög ákveðið plott, á yfirborðinu í hið minnsta, eitthvað sem er auðvelt að aðlaga fyrir kvikmynd, en ég hugsaði með mér, hvað ef við aðlögum bókina sem er ómögulegt að aðlaga? Ef þetta er leikurinn sem allir eru að leika, látum okkur hafa það, en það verður að vera einhver áskorun, og það var mjög erfitt og flókið að finna út hvernig hægt væri að kvikmynda þessa bók. Þessi hefðbundna, klassíska saga – það er ekki þessi bók, þetta er miklu frekar fljótandi, ljóðrænt tungumál. En Sara Nameth, handritshöfundurinn okkar, gerði mjög vel í að finna þó þetta sögulíki, þetta sem þó drífur söguna áfram einhvern veginn, og svo er þessi myndræni vinkill bókarinnar – þú lest þessi orð og áttar þig á að þetta er eitthvað sem þú hefur aldrei séð áður, það eru svo margar myndir sem koma upp í hugann þegar þú lest bókina.“

Sænski leikarinn í útlegð

Anders Mossling er í nánast hverri senu – en af hverju valdi Månsson hann í aðalhlutverkið? „Hann er frábær leikari, en ég hafði ekki hugmynd um að hann væri til. Hann hefur alveg flogið undir radarinn í Svíþjóð, hann býr í Kaupmannahöfn og vinnur þar og í Ósló, hann hafði aldrei leikið í sænskum kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum áður. Svo var ég við tökur í Malmö og sá að hann var að leika í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn og hugsaði með mér; þetta hljómar eins og Svíi, af hverju hef ég aldrei heyrt um hann? Þannig við hittum hann og hann reyndist vera frábær leikari, sem einhver þurfti að þjóðnýta í bíómynd.“

Það hjálpaði líka að Mossling var ekki þekktur í Svíþjóð. „99 prósent leikaranna eru óreyndir, hafa aldrei leikið áður eða verið fyrir framan myndavél, þannig að fyrir sænska áhorfendur, þessi blanda, þrautreyndur fagmaður sem er samt nýtt andlit fyrir þeim, og allir þessir óreyndu leikarar, það þýddi að við þurftum ekki að brjóta samninginn við áhorfendur með að setja einhverja stjörnu í aðalhlutverkið.“ Hinir leikararnir voru svo flestir innflytjendur sem hann hitti bæði í opnum prufum í Malmö og í gegnum atvinnumiðlanir, „og margir þeirra höfðu unnið í Yarden á einhverjum tímapunkti.“

Mossling var þó ekki hugsaður fyrir aðalhlutverkið til að byrja með. „Mér var sent handritið út af öðru hlutverki, litlu hlutverki, en svo las ég allt handritið og ég varð mjög áhugasamur um aðalpersónuna, af því hann var svo líkur mér, ég sá fyrir mér að ég gæti auðveldlega leikið þetta, ég man ekki hvort ég sagði Måns nákvæmlega það samt. En ég hugsaði; af hverju get ég ekki leikið þetta hlutverk frekar? Það yrði ævintýri. Ég þyrfti ekki að finna karakterinn í raun, ég þurfti bara að setja sjálfan mig inní aðstæðurnar, karakterinn er á mínum aldri, þeir lánuðu honum nafnið mitt, ef ég myndi missa vinnuna og neyðast til að vinna þarna, þá myndi ég örugglega bregðast eins við. Þetta erfiða samband sem hann á við táningsson sinn er meira að segja ansi kunnuglegt, því miður!“

En hefur hann einhvern tímann þurft að taka álíka ákvarðanir og aðalpersónan í myndinni – að taka vinnu sem hann hatar, til þess eins að lifa af? „Nei, það hef ég ekki þurft að gera. Ég vann alls konar störf þegar ég var ungur, áður en ég varð leikari, en þá var ég með það bak við eyrað að ég hefði gott af þessu, þetta væri að skila mér áfram í lífinu einhvern veginn. En þessi skelfilega staða, að hætta að fá vinnu við að leika – ég er ekki með neitt varaplan, ég á hálfkláraða mannfræðigráðu sem myndi gagnast mér lítið, þannig að þetta er martröð sem eltir mann alltaf.“

Mannfræðimenntunin reyndist þó merkilega notadrjúg fyrir þessa mynd. Handritshöfundurinn Sara Nameth kláraði MA í félagslegri mannfræði frá Oxford og Mossling tekur undir að nálgun hennar í handritinu sé mjög mannfræðileg – og sama gildi stundum um nálgun hans á leiklistina. „Ég man að við lærðum í mannfræði að þegar þú gerir vettvangsrannsókn þá kemurðu bara á staðinn og lítur í kringum þig og ert opinn. Þú þarft svo einhvern heimildamann, einhvern sem segir þér hvernig hlutirnir virka. En sá fyrsti sem þú hittir er líklegast brjálæðingurinn, þú verður að vera varkár gagnvart honum, þú þarft á honum að halda, en þegar á líður þarftu líka öruggari upplýsingar. Og þannig nálgaðist ég þessa mynd sem leikari. Fara þarna út og vera hluti af þessu, finna fyrir þessu á líkama og sál.“

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR