Tíu nýjar myndir á Frönsku kvikmyndahátíðinni

franska-kvikmyndahátíðin-2016Alliance française í Reykjavík, sendiráð Frakklands á Íslandi og Græna ljósið standa fyrir hinni árlegu Frönsku kvikmyndahátíð í 16. sinn dagana 15.-27. janúar næstkomandi í Háskólabíói og 17.-24. janúar í Borgarbíói á Akureyri.

Á hátíðinni verða sýndar tíu myndir, flestar frá Frakklandi, ein frá Kanada og ein frönsk-máritanísk. Allar hafa myndirnar hlotið viðurkenningar af einhverju tagi og viðfangsefnin eru margvísleg.

Opnunarmyndin er gamanmyndin Út og suður (Babysitting 2). Myndin er glæný, var frumsýnd í París 2. desember sl. og eru áhorfendur þegar orðnir hátt á þriðju miljón. Vinahópur fer til Brasilíu, þar sem faðir stúlku í hópnum er hótelstjóri. Hópurinn hverfur í skoðunarferð og einu ummerkin eru vídeóvél. Til að komast að því hvað gerðist þarf að skoða myndbandi Tveir leikarar í myndinni verða viðstaddir frumsýninguna.

Minning Sólveigar Anspach verður heiðruð með sýningu myndarinnar Drottningin í Montreuil (Queen of Montreuil). Ung kona, nýbúin að missa manninn sinn, veit ekki hvað hún á til bragðs að taka. Íslensk mæðgin, sæljón og einn nágrannanna koma inn í líf hennar og kannski nær hún áttum á ný.

Meðal annarra mynda má nefna Timbúktú. Ástandið í Austurlöndum nær og Norður-Afríku hefur ekki farið fram hjá neinum síðustu mánuði. Myndin segir frá því þegar íslamistar taka völd í höfuðborginni og nærsveitum og hvernig nýjum siðum er þröngvað upp á fólk sem fær ekki rönd við reist. Myndin vann til sjö César-verðlauna í Frakklandi og var tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Sýningartíma kvikmynda og nánari upplýsingar má finna á vefsíðu hátíðarinnar, www.fff.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR