Hér er mat Kvikmyndaráðs á Samkomulaginu 2012-2015

island_flatarmal_stor_090712Í þriðja og síðasta hluta umfjöllunar Klapptrés um tillögur Kvikmyndaráðs er birt mat ráðsins á Samkomulaginu 2012-2015.

Fyrsta hluta, tillögur ráðsins um breytingar á úthlutunarfyrirkomulagi, má skoða hér.

Annan hluta, tillögur ráðsins sem snúa að innviðum kvikmyndagreinarinnar, má skoða hér.

Eftirfarandi kemur fram í greinargerð Kvikmyndaráðs um Samkomulagið 2012-2015:

Áherslur  – 2. grein

Erfitt er að leggja mat á hvort tekist hafi að viðhalda framboði á kvikmynduðu íslensku efni í öllum helstu miðlum sem sýna íslensk verk. Helsti milðillinn RÚV hefur bæði framleitt efni og keypt tilbúið efni. Nauðsynlegt er að skoða þennan lið betur í nýju samkomulagi, hvernig fjármunir RÚV til dæmis nýtast og hvort annars konar tilhögun gæti stutt enn fremur við framleiðslu á kvikmynduðu efni. Aðgengi og gegnsæi þarf að hafa í fyrirrúmi.

Vinna hófst við aðgerðaráætlun um kvikmyndalæsi í samvinnu við Kvikmyndamiðstöð, Kvikmyndasafn og Námsgagnastofnun en henni lauk án niðurstöðu vorið 2013 og hefur ekki verið tekin upp að nýju.

Undanþágur frá reglum EES-samningsins um hámark opinbers fjárstuðnings var komið í gegn með endurnýjun laga um tímabundnar endurgreiðslur í kvikmyndagerð.

Þrátt fyrir að vera í farvegi samkvæmt menntamálaráðuneytinu hefur dregist úr hófi fram að gefa út skýrar línur með greiðslu miðastyrkja og greiðslur aftur í tímann. Kvikmyndaráð hefur óskað eftir nánari upplýsingum en þær hafa ekki borist.

Alþjóðleg markaðssetning á íslenskri kvikmyndagerð hefur verið sinnt af Kvikmyndamiðstöð íslands og Íslandsstofa hefur einnig komið að því. Hjá KMÍ er lögð áhersla á að kynna myndir til leiks á kvikmyndahátíðum, hafa og halda sambandi við fagblaðamenn. Nauðsynlegt er að auka stuðning við aðstandendur kvikmynda til að fylgja eftir verkum sínum. Einnig þarf að huga að nýjum leiðum í markaðssetningu þegar dreifileiðir eru að breytast og nauðsynlegt er að komast inn á stafræna markaði.

Undanþága frá greiðslu vsk af sölu aðgöngumiða á sýningar á íslenskum kvikmyndum var afnuminn eins og til stóð.

Kvikmyndamiðstöð/Framleiðsla – 3. grein

Samkvæmt samkomulaginu stefnir KMÍ að viðhalda og þróa framsækna og fjölbreytta kvikmyndamenningu á Íslandi. Sérstaklega var lögð áhersla á barna- og fjölskyldumyndir í fullri lengd með væntingar um að myndir í þeim flokki verði framleiddar annað hvert ár.

Í samkomulaginu var lögð fram áætlun um ríkisframlög í milljónum kr. með fyrirvara um samþykkt Alþingis á fjárlögum ár hvert. Í stuttu máli má segja að samkomulagið hafi staðist og gott betur. Í kvikmyndasjóð runnu 600 m.kr. meira en samkomulagið gerði ráð fyrir á tímabilinu (upphæðir á verðlagi hvers árs). Fjárframlög voru jafnframt aukin vegna annarra skilgreindra verkefna. Hagræðingakrafa árið 2014 leiddi til 15 milljóna króna niðurskurðar.

Úr kvikmyndasjóði var einnig samið um að úthlutað yrði úr sjóðnum á eftirfarandi hátt (sjá töflu) og hefur það staðist.

Hlutfallsleg skipting úthlutana úr Kvikmyndasjóði 2012-2014 milli tegunda mynd

Samkomulag Raun (2012-2014)
Leiknar myndir (langar, stuttar og samframleiðsla)65% 66%
Heimildarmyndasjóður17%15%
Leikið sjónvarpsefni18%19%

Ríkisútvarpið  – 4. grein

Gert var ráð fyrir að með nýjum lögum um RÚV yrði samningur um útvarpsþjónustu í almannaþágu endurskoðaður. Markmiðið var að efla RÚV sem þátttakanda í íslenskri kvikmyndagerð, stuðla að nýsköpun og að aukið hlutfall þjónustutekna RÚV yrði varið í að kaupa efni frá sjálfstæðum íslenskum kvikmyndaframleiðendum. Enn þarf að vinna og forma betur samvinnu RÚV og hagsmunaaðila.

Stafrænar kvikmyndir – 5. grein

Í samkomulaginu 2012 þótti fyrirsjáanlegt að innan fárra missera yrðu kvikmyndir einungis sýndar og þeim dreift með stafrænum hætti. Það gekk eftir og kvikmyndahúsin sjálf fjárfestu í þeim breytingum að innleiða stafrænan sýningarbúnað.

Kvikmyndaarfurinn – 6. grein

Ekki varð að því að stofnaður yrði starfshópur sem fjallaði um stafræna yfirfærslu kvikmyndaarfsins, endurnýjun eldri kvikmynda og ráðstafanir til að vernda nýjar myndir. Hjá KMÍ hefur verið unnið að því að bjarga frumeintökum íslenskra kvikmynda á vegum KMÍ og kvikmyndasafns og gera þær aðgengilegar fræðimönnum. Unnið hefur verið að því að finna og flytja heim efni sem var geymt og jafnvel fast vegna skulda í kvikmyndageymslum erlendis. Hjá RÚV er einnig unnið að því að varðveita safnagrunninn. Mál þessi eru nokkuð flókin og mikilvægt er að sinna þessu enn betur á næstu árum, koma í veg fyrir tvíverknað, gæta samræmingar í skráningum, skoða aðkomu framleiðanda að skráningum. Vinna ætti út frá því að framvegis yrðu öll verk skráð jafnóðum og samhliða yrði unnið í sérstöku átaki við að sinna eldra efni.

Kvikmyndamenntun – 7. grein

Stefnumótun um kvikmyndamenntun á Íslandi liggur fyrir frá árinu 2012. Samkvæmt því þarf að vinna að kvikmynda- og fjölmiðlalæsi á grunnskólastigi, almennu kvikmyndanámi á framhaldsskólastigi, sérhæfingu í stoðgreinum á framhaldsskólastigi og sérhæfingu í kvikmyndagerð á BA-stigi. Ekki varð að stofnun starfhóps og nauðsynlegt er að sinna þessum lið mun betur en gert hefur verið. Þekking og hæfni er undirstaða áframhaldandi sóknar og uppbyggingar í íslenskri kvikmyndagerð. (athuga)

Endurskoðun – 8. grein

Ástæða er til að skilgreina betur þá mælikvarða sem notast á við þegar meta á næsta samkomulag.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR