Suffragette, Meryl og rotnu tómatarnir

Carey Mulligan í Suffragette eftir Sarah Gavron.
Carey Mulligan í Suffragette eftir Sarah Gavron.

Kvikmyndin Suffragette opnaði kvikmyndahátíðina í Lundúnum sl. miðvikudagskvöld. Undanfarin ár hef ég fylgst með gerð myndarinnar og varla getað beðið eftir að sjá hana. Myndin fjallar um baráttu breskra kvenna fyrir kosningarétti í upphafi síðustu aldar. Ég vissi lítið meira um súfragetturnar en að baráttan hefði verið hörð, þær hefðu brotið rúður, sprengt upp póstkassa og verið barðar af lögreglu. Ég vissi líka að Emily Wilding Davison hefði látist þegar hún fleygði sér fyrir veðhlaupahest konungs á Derby veðreiðum 1913, til að vekja athygli á málstaðnum.

Ég gerði mér hins vegar ekki grein fyrir að rúmlega þúsund konur hefðu setið í fangelsi, margar orðið fyrir ofbeldi af hendi lögreglu og sumar farið í hungurverkfall. Ég hafði heldur ekki gert mér grein fyrir algjöru réttleysi giftra kvenna, t.d. þegar kom að ákvörðunum sem snertu börn þeirra. Nú er Suffragette ekki heimildamynd og fátt fer meira í taugarnar á mér en þegar áhorfendur gera þær kröfur til leikinna mynda að þær endurspegli söguna og sannleikann. Þá má líka spyrja, hvaða sannleika? Söguna sem einhverjir útvaldir skrifuðu? Er hún endilega sönn?

Suffragette reynir það heldur ekki. Einfalt hefði verið að taka þekktustu söguna og búa til mynd um Emily og aðdraganda láts hennar. Handritshöfundurinn Abi Morgan og leikstjórinn Sarah Gavron fara aðra leið, þó vissulega fjalli myndin um baráttuna og aðdraganda þess að Emily lést. Aðalpersónan er hins vegar skálduð, verkakonan Maud Watts sem dregst upphaflega inn í báráttuna fyrir hálfgerða slysni en fórnar á endanum öllu fyrir málstaðinn.

Myndin er vel úr garði gerð, einkar fallega tekin og leikmynd og búningar listaverk. Leikurinn eins og hann gerist bestur, Helena Bonham Carter, Anne-Marie Duff og Ben Whishaw eru afbragðs góð en Carey Mulligan ber þó af í hlutverki Maud Watts. Meryl Streep hefur verið áberandi í kynningarherferð myndarinnar en er samt í agnarlitlu hlutverki sem Emmeline Pankhurst.

Frá því myndin var frumsýnd hafa dómarnir verið blendnir og það verið gagnrýnt að ekki sé dregin upp rétt mynd af atburðarásinni og að aðrar raddir en femínískar heyrist ekki. Sumir karlmenn sem hafa skrifað um myndina segja söguþráðinn hljóta að vera gallaðan þar sem þeir tengi bara alls ekki við myndina.

Mín reynsla var hins vegar sú að ég tengdi svo sannarlega, táraðist oftar en einu sinni og var djúpt snortin. Eftir sýninguna ræddi ég við konur frá Ástralíu, Bretlandi og Ítalíu og myndin hafði snert þær á sama hátt.

Orð Meryl Streep á blaðamannafundi í kjölfar sýningarinnar um vöntun á kvenkyns gagnrýnendum hittu því beint í mark og þau fara nú sem eldur í sinu um internetið.

Meryl sagðist hafa kafað djúpt í iður kvikmyndavefsins vinsæla Rotten Tomatoes til þess að komast að því hverjir leggðu til efni, skrifuðu gagnrýnina sem þar er að finna. Hún komst að því að 168 konur skrifuðu og fannst það algjörlega frábært. „Ef það væru nú líka 168 karlar sem skrifuðu væri það jafnræði, ef þeir væru 268 væri það ósanngjarnt en kæmi ekki á óvart og maður myndi venjast því. Ef þeir væru 368… 468… 568… nei, þeir eru 760 karlmennirnir sem leggja sín lóð á vogarskálar hinna rotnu tómata,“ sagði Meryl.

Hún fór einnig inn á vefsíðu New York Film Critics til að athuga hlutfallið þar og ekki reyndist það betra, 37 karlmenn og 2 konur.

Meryl Streep sagðist hafa orðið bálreið.

Karlar og konur eru ekki eins, það er munur á hvað kynin vilja. Stundum er smekkurinn vissulega svipaður en það er ekki von á góðu þegar tómatamælikvarðinn hallast svona að sama smekknum sem hefur svo áhrif á hvaða myndir fólk fer að sjá,“

sagði Meryl og var mikið niðri fyrir.

Það verður gaman að fylgjast áfram með umræðum um Suffragette og sjá hvort myndin hefur áhrif á jafnréttisbaráttuna. Sarah Gavron, Abi Morgan, Carey Mulligan og Meryl Streep sögðu á blaðamannafundinum að ekki væri vanþörf á að vera á varðbergi þótt ástandið væri ekki eins slæmt núna og á sögutíma myndarinnar.

(Greinin birtist áður á Knúzinu.)

Sigríður Pétursdóttir
Sigríður Pétursdóttir
Sigríður Pétursdóttir er kvikmyndafræðingur.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR