Silja Hauksdóttir: Mikilvægt að ólíkar raddir heyrist

Silja Hauks collageSilja Hauksdóttir leikstjóri er í viðtali við Fréttablaðið/Vísi og ræðir m.a. um ferilinn, verkefnin framundan og mikilvægi fjölbreyttrar sagnagerðar í kvikmyndum og sjónvarpi.

Brot úr viðtalinu:

En hvað er fram undan?

„Það er bara skaupið. Við erum núna við skriftir, svo er undirbúningur í október og tökur í nóvember. Ef eitthvað stórkostlegt kemur upp tökum við líka upp í desember, en annars á að nýta þann tíma í eftirvinnslu. Svo er það bara gamlárskvöld, nokkrar öndunaræfingar og út með skaupið,“ heldur Silja áfram.

„Ég er líka, ásamt Göggu, að þróa nokkur verkefni. Eitt þeirra, sem er komið lengst, er bíómynd sem okkur er mikið mál með. Bíómynd um unga stelpu sem býr á Akranesi. Hún er ættleiddur Íslendingur í æskublúsaðri tilvistarkreppu – upplifir fordóma frá umhverfinu en kannski mest frá sjálfri sér. Þetta er létt þroskasaga um skemmtilega vaxtarverki. Okkur finnst sjúklega gaman og gefandi að þróa þessa sögu, við höfum báðar verið á áþekkum slóðum, þótt ólíkar séu. Okkur finnst mikilvægt að þessi saga fái að heyrast, þroskasaga ungrar stúlku, sem er að máta sig við umhverfið og sjálfa sig á afar breyskan og skemmtilegan hátt.“

Varst þú dálítið villtur unglingur?

„Ég var kannski dáldið týndur unglingur. Ég veit ekki hversu villt ég var. Það bara tilheyrir. Sem betur fer, því þá hefur maður eitthvað að leggja til í þessa sögu,“ segir Silja. „Annars er það breyskleikinn sem mér finnst alltaf mest spennandi í öllum karakterum. Þetta móment þegar maður þarf að horfast í augu við sjálfa sig og viðurkenna mistökin, viðurkenna hvað maður getur verið asnaleg týpa og taka afleiðingunum eða axla ábyrgðina.“

Silju er það hugleikið að rödd ólíkra hópa fái að heyrast í sögum.

„Aðallega er mér hugleikinn þessi fjölbreytileiki. Að verk eftir fjölbreytt fólk fái að njóta sín. Sjálfri er mér það efst í huga að sjá fleiri myndir eftir konur um konur – en ég vil líka fá fjölbreyttari sögur frá fjölbreyttu fólki, í aldri, í kynjum, í uppruna, öllum tegundum. Ég held að við ættum að fókusera – og það er ennþá mikilvægara fyrir okkur sem teljum okkur vera svo einsleit sem þjóð – á það að ólíkar raddir heyrist. Af kvikmyndum síðustu ára og áratuga að dæma er íslenska þjóðin hvítur karlmaður í vanda og eins frábærir og þeir nú eru, þá erum við fjölbreyttari og marglitari en það og það þarf að sýna og spegla og miðla svo til áhorfenda sem eru einmitt alls konar.“

Silja segir mikilvægt að stelpur og konur á öllum aldri fá eitthvað til að samsama sig við.

„Þó að ég geti sjálf alveg samsamað mig við marga karlkaraktera þá er það kannski líka bara af því að maður er með nett Stokkhólmssyndróm og sér sjaldan öðru vísi myndir. Ég get alveg líka samsamað mig við sögur af strákum enda trúi ég því að kynin séu innst inni mjög lík. Þrátt fyrir það held að ég hefði alveg gott af því sem áhorfandi, ég tala nú ekki um þegar ég var átta eða fimmtán, eða þegar ég verð sextíu og tveggja – að sögur séu eftir konur og skrifaðar af konum, leikstýrt af konum og öðrum fjölbreyttari útgáfum af alls konar fólki. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir komandi kynslóðir og við ættum að veita því meiri athygli.“

Sjá nánar hér: Vísir – Mikilvægt að ólíkar raddir heyrist.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR