Handrit: Baldvin Z og Birgir Örn Steinarsson
Aðalhlutverk: Hera Hilmarsdóttir, Þorsteinn Bachmann, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Kristín Lea Sigríðardóttir, Valur Freyr Einarsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Theódór Júlíusson, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir.
Lengd: 120 mín.
Ísland, 2014
[/message_box][/column]Lífið í fiskabúrinu. Life in a Fishbowl. Þessi titill hefur nokkrar vísanir í Vonarstræti. Þetta er fyrir það fyrsta enskur titill myndarinnar og líka titill á gömlu Maus-lagi – en annar handritshöfundurinn er einmitt Biggi í Maus. En kannski skiptir mestu máli að þetta er nýjasta bókin hans Móra – hirðskálds Vonarstrætis – og virðist vera nánast sjálfsævisaga þótt nöfnunum sé breytt.
En svo á titillinn líka bara svo vel við örsamfélagið Ísland. Samfélag þar sem fámennið gerir tilviljanakennda árekstra ólíkt algengari en meðal milljónaþjóða er ágætis jarðvegur fyrir samtvinnaða fléttusögu þriggja karaktera – í þessu fiskabúri rekast allir reglulega á.
Myndin sver sig í ætt við Magnoliu og Amores Perros – og eitt atriðið er meira að segja nánast beint upp úr Magnoliu – en tónninn er þó töluvert annar. Á sínum tíma dáðist rómantíska breska kvikmyndaskáldið Richard Curtis mjög að Magnoliu en hataðist um leið við hana fyrir að ganga alltof langt í heimsósómanum, mála lífið í alltof dökkum litum. Svarið hans var Love, Actually – sem fór alltof langt í hina áttina og endaði ósjaldan í óþarfa væmni.
[quote align=”right” color=”#999999″]Þessi draumkennda tragedía minnir kannski meira á minningar okkar um raunveruleikann en raunveruleikann sjálfan – en skáldskapurinn stendur jafnfætis í draumum, minningum og raunveruleika og Baldvin stígur þann dans af öryggi.[/quote]Baldvin Z finnur hins vegar einfaldlega sinn eigin tón – tón sem hann var raunar byrjaður að finna í Óróa – og það hentar myndinni ansi vel. Þetta er tragedía en ekkert hyldýpi – það er oftast eitthvað hughreystandi á móti. Hluti af þessum tón er hreinlega tökustíll myndarinnar – rétt eins og í Óróa er útlitið frekar dökkt – en þetta er hlýtt og ljóðrænt myrkur, ekki grimmt og groddalegt. Maður veltir vissulega fyrir sér hvort stíllinn mætti vera aðeins skítugri – svona rétt eins og karakterarnir – en það þarf ekki að vera, þessi draumkennda tragedía minnir kannski meira á minningar okkar um raunveruleikann en raunveruleikann sjálfan – en skáldskapurinn stendur jafnfætis í draumum, minningum og raunveruleika og Baldvin stígur þann dans af öryggi.Það besta við Baldvin sem leikstjóra er þó einfaldlega virðingin sem hann ber fyrir öllum karakterunum. Það var himnasending í unglingamyndinni Órói – enda helsta bölvun unglingamynda og –bóka í gegnum tíðina óteljandi fullorðnir sögumenn sem tala niður til unglinganna sem þeir fjalla um. Besta dæmið í Vonarstræti er Agnes (Kristín Lea Sigríðardóttir), eiginkona bankstersins og uppgjafarfótboltamannsins Sölva. Við fyrstu sýn virðist hún hin dæmigerða puntfrú (e. trophy wife) – og örlög hennar eru vissulega nokkuð dæmigerð fyrir slíkar persónur. En það er hins vegar sorglega sjaldgæft að það sé splæst persónuleika á svona karaktera – sem gerir það að verkum að áhorfandanum er gert auðvelt að fyrirgefa öll framhjáhöld eða afskiptaleysi sem eiginmaðurinn kann að sýna þeim. En þessi puntfrú er blessunarlega ekki bara upp á punt, þótt Agnes fái ekki margar senur þá fær hún eitthvað að gera í þeim og birtist manni sem bæði skemmtileg, ákveðin og klár kona. Með öðrum orðum alltof góð fyrir þá fáránlegu stöðu sem örlögin hafa sett hana í.
Hún er ásamt smeðjulega bankagosanum Sigga (Valur Freyr Einarsson) eftirminnilegasta aukapersónan – en myndin er fyrst og fremst örlagasaga þriggja aðalpersóna – Eikar (Hera Hilmarsdóttir), Sölva (Þorvaldur Davíð Kristjánsson) og Móra (Þorsteinn Bachmann). Eik er einstæð móðir sem vinnur á leikskóla á daginn og í vændi á kvöldin, Sölvi er framherjinn sem meiddist og leiddist á glapstigu bankanna og Móri er helsta örlagaskáldbytta borgarinnar. Englar og djöflar karakteranna eru nokkuð skýrt teiknaðir – fótboltinn, barnauppeldið og skáldskapurinn dregur fram allt það góða í þeim sem peningabraskið, vændið og alkóhólisminn draga svo niður í svaðið. En um leið og manneskjurnar á bak við hóruna og rónann brjótast hægt og rólega fram og fá mann til að gleyma um stund sárum örlögum þeirra sekkur banksterinn Sölvi dýpra í siðrofsfenið og sá viðkunnalegi og bláeygi sómapiltur sem birtist okkur í upphafi myndar er fljótur að verða samdauna úrkynjuninni.
Það er hins vegar nánast innbyggður veikleiki svona fléttumynda að maður vildi oftast fá að vita meira um flesta karakterana – ég hefði alveg verið til í hálftíma lengri mynd til þess að fylla betur upp í persónur Eikar og Sölva (myndin er að vísu ein lengsta mynd Íslandssögunnar en það er aðallega staðfesting á því að íslenskar myndir eru margar alltof stuttar).
[quote align=”left” color=”#999999″]Skáldbyttan Móri er hins vegar heilsteyptastasta persónan og þegar við bætist leiksigur Þorsteins Bachmanns þá reynist Móri vera með eftirminnilegri persónum íslenskra bíómynda. [/quote] Skáldbyttan Móri er hins vegar heilsteyptastasta persónan og þegar við bætist leiksigur Þorsteins Bachmanns þá reynist Móri vera með eftirminnilegri persónum íslenskra bíómynda. Við sjáum Móra fyrst í gegnum skeptísk augu góðborgaranna og það tekur áhorfandann dálítinn tíma að átta sig almennilega á honum. Rónar eru vissulega oftast skemmtilegir karakterar í skáldskap – það er jú hægt að láta þá segja alls konar vitleysu sem virðulegir góðborgarar myndu aldrei láta út úr sér – en þeir eru sömuleiðis ansi oft æði klisjukenndir. Móri er hins vegar blessunarlega laus við klisjurnar og reynist meira heillandi og forvitnilegri karakter fyrir vikið.Og á meðan fréttamenn reyna að lesa í hverjar fyrirmyndir útrásarvíkinga myndarinnar séu þá erum við bókmenntafræðingarnir auðvitað spenntari fyrir því hvaðan Móri sprettur. Orðið á götunni (lesist: frumsýningarpartíinu) var að Dagur Sigurðarson væri fyrirmyndin en það er óneitanlega dass af Megasi þarna líka. Þorsteinn sjálfur minnir svo glettilega á Alec Baldwin eftir því sem árin líða – leikarar sem urðu aldrei beinlínis stjörnurnar sem útlitið gaf til kynna að þeir yrðu en blómstruðu seinna þegar leikstjórarnir fóru að átta sig á því hversu góðir karakterleikarar þeir voru.
Vonarstræti fjallar um tiltölulega nýskeða fortíð sem við höfum samt gleymt glettilega miklu um. Sögusviðið er Reykjavík góðærisins – líklega 2005 eða 2006 – og í baksýnisspegli hrunsins hefur þetta tímabil oft verið málað öllu sterkari litum en raunin var. En myndin forðast þær klisjur og birtir okkur ágætlega sannfærandi mynd af árunum fyrir hrun – það var vissulega partí en á meðan Sölvi var fastur þar þá vorum við hin flest í sporum Eikar eða Móra – að glíma við sömu draugana og venjulega, lífið, sorgina, blankheitin og okkur sjálf. Sem er alltaf efni í gott bíó.