Heimildamyndin „Sviptar sjálfræði“ leitar stuðnings á Karolina Fund

Alma Ómarsdóttir.

Alma Ómarsdóttir leggur nú lokahönd á heimildamynd sem fjallar um íslenskar stúlkur á tímum hernámsins á Íslandi, með sérstaka áherslu á aðgerðir yfirvalda gegn þeim stúlkum sem umgengust hermenn. Hún leitar stuðnings við eftirvinnslu verkefnisins á Karolina Fund.

Myndin, sem ber heitið Sviptar sjálfræði: stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum, verður í fullri lengd. Sögusviðið er Reykjavík á tímum hernámsins á Íslandi. Að baki myndarinnar liggja miklar rannsóknir höfundar; á gögnum Ungmennaeftirlitsins, sem var stofnað til að hafa eftirlit með íslenskum stúlkum sem umgengust hermenn; á gögnum fyrsta kvenlögregluþjónsins á Íslandi, sem var ráðin sérstaklega til að rannsaka samskipti stúlkna og kvenna við hermenn; og á gögnum Kleppjárnsreykja, en þangað voru stúlkur sendar ef talið var að þær ættu í sambandi við hermenn.

Alma segir meðal annars um verkefnið:

Mér finnst málefnið mjög mikilvægt, en í myndinni er svipt hulunni af atburðum sem eru flestum ókunnir, og sumt hefur aldrei fengið að heyrast í þau sjötíu ár sem liðin eru frá tímum hernámsins.

Alma ÓmarsdóttirAlma Ómarsdóttir er með mastersgráðu í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands. Hún hefur undanfarið ár starfað sem fréttamaður hjá RÚV, og unnið þar fréttir jafnt fyrir sjónvarp, útvarp og vef. Árið 2013 gerði Alma heimildamyndina Maður verður að vera flottur, sem var sýnd á kvikmyndahátíðinni Reykjavík Shorts & Docs. Myndin hlaut góðar viðtökur á hátíðinni og hefur nú verið valin til að taka þátt í Alþjóðlegri kvikmyndahátíð kvenna, WIFF (Women’s International Film & Arts Festival), á Miami í vor.

Sjá nánar hér: Sviptar sjálfræði – Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum – Karolina Fund.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR