spot_img

Magnús Geir sker upp RÚV

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri boðar miklar breytingar á Ríkisútvarpinu.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri boðar miklar breytingar á Ríkisútvarpinu.

Nú er ljóst að Magnús Geir Þórðarson ætlar að láta hressilega til sín taka á upphafsdögum sínum sem útvarpsstjóri. Í dag tilkynnti hann að leggja ætti aukna áherslu á innlenda dagskrá, ná sérstaklega til yngri aldurshópa og efla nýmiðlun. Þá hefur hann sagt upp öllum deildarstjórum RÚV og verða stöður þeirra auglýstar á ný, auk þess sem undirbúningur er hafinn að flutningi í hagkvæmara húsnæði. Ennfremur á að opna samfélagslega umræðu um hlutverk og dagskrá RÚV og kappkosta að sú umræða skili sér í áherslum og stefnu fyrirtækisins.

Magnús Geir kynnti áætlanir sínar á fundi í morgun með starfsmönnum RÚV. Þær felast í eftirfarandi atriðum:

Aukning innlendrar dagskrár

Leggja á aukna áherslu á innihald og sköpun í miðlum RÚV með því að setja innlenda gæðaframleiðslu á oddinn. „Við viljum leggja aukna áherslu á innihaldið, dagskrána sjálfa og innlenda gæðaframleiðslu. Samhliða viljum við opna samtalið um okkar Ríkisútvarp. Við viljum vera með þjóðinni og setja áhorfendur og hlustendur í fyrsta sæti. Til að þetta sé mögulegt þurfum við að stokka starfsemina upp til að nýta betur þann auð sem við búum yfir á Ríkisútvarpinu,“ segir Magnús Geir í tilkynningu.

Í spjalli við mbl.is segir Magnús ennfremur: “Starfsemin hefur dregist mikið saman á liðnum árum og það hefur verið tálgað utan af henni. En nú er kominn tími til þess að horfa heildstætt á þetta, stokka spilin upp á nýtt til þess að einfalda ferla og tryggja að fjármunir nýtist betur og beint í dagskrána, meira fari í innihald og minna í umbúðir, því Ríkisútvarpið á auðvitað fyrst og fremst að vera stofnun sem skapar mikið og gott innihald.“

Áhersla á að ná til yngri aldurshópa og efling nýmiðlunar

Magnús Geir leggur jafnframt áherslu á að dagskrá RÚV nái til nýrra kynslóða og að regluleg endurnýjun verði í hópi áhorfenda og hlustenda. Nýmiðlasvið, sem stýrir meðal annars ruv.is, fær það markmið að stórauka áherslu á miðlun efnis á vefnum, í snjallsímum og ýmsum nýmiðlum. Nýmiðlastjóri mun sinna ritstjórn vefsins og keppa að því að efni RÚV verði aðgengilegt og eftirsótt á vefnum. Sviðið sinnir einnig ritstjórn efnis í nýmiðla sem til staðar eru eða fram munu koma.

Samfélagsleg umræða um hlutverk RÚV

Hlutverk nýs samskipta-, þróunar- og mannauðssviðs verður að opna samtalið um Ríkisútvarpið, inn á við og út á við, samkvæmt lýsingu þar sem jafnframt segir: “Sviðið stendur fyrir uppbyggilegri umræðu um hlutverk og dagskrá RÚV og kappkostar að sú umræða skili sér í áherslum og stefnu fyrirtækisins. Sviðið mun vinna úr ábendingum frá almenningi, fer með höndum kynningar- og markaðsmál og greiningu á notkun á miðlum RÚV. Sviðið mun vinna að stefnumótun með útvarpsstjóra og öðru starfsfólki þar sem áhersla verður lögð á að að setja „eigendur“ RÚV áhorfendur/hlustendur í öndvegi, kortleggja breytingar á gildum, viðhorfum og hegðun og meta hvernig þeim sé betur megi þjónað með dagskrá og miðlum.”

Uppsagnir framkvæmdastjóra og breytingar á skipulagi

Samningum var sagt upp við alla framkvæmdastjóra RÚV í morgun vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga sem taka gildi um miðjan apríl. Þettu eru þau Óðinn Jónsson fréttastjóri, Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri sjónvarps, Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri sjónvarps, Ingólfur Bjarni Sigfússon nýmiðla – og vefstjóri, Berglind G. Bergþórsdóttir mannauðsstjóri, Eyjólfur Valdimarsson yfir tæknimálum, Magnús R. Einarsson sem var tímabundið skipaður dagskrárstjóri yfir Rás 1 og Rás 2, Þorsteinn Þorsteinsson markaðsstjóri og Bjarni Kristjánsson fjármálastjóri (sem reyndar hefur þegar tilkynnt uppsögn sína).

Útvarpsstjóri segir aðgerðina eðlilega og nauðsynlega þar sem starfssemi sviðanna verður önnur þegar breytingarnar taka gildi. “Það geta allir sótt um  og mér finnst mjög líklegt að margir og jafnvel allir úr núverandi framkvæmdastjórn hafi hug á að stýra nýjum sviðum en þeir þurfa auðvitað að átta sig á hver hlutverkin eru og til hvers sé vænst af nýjum sviðum,“ segir Magnús Geir í samtali við Eyjuna. „Það er verið að leggja aukna áherslu á dagskrá. Dagskrársviðin fá aukið vægi í nýju skipulagi, stoðsvið eru einfölduð og þeim fækkað,“ segir hann við mbl.is

Nýtt skipulag og skipurit Ríkisútvarpsins, sem ætlað er að styðja við þessar áherslubreytingar, var samþykkt af stjórn RÚV í gær. Í nýja skipuritinu fær dagskrárhluti starfseminnar aukið vægi, stoðsvið eru sameinuð og töluverð breyting verður á hlutverkum sviða Ríkisútvarpsins. Nýjar stöður framkvæmdastjórnar RÚV verða auglýstar lausar til umsóknar. Við samsetningu nýrrar framkvæmdastjórnar verður m.a. gætt að fjölbreytileika og jafnvægis milli kynja. Nýtt skipulag og skipurit mun taki gildi þegar ný framkvæmdastjórn hefur tekið til starfa að loknu ráðningarferli. Núverandi framkvæmdastjórn sinnir störfum sínum áfram fram að þeim tíma.

Undirbúningur hafinn að flutningi

Fram kom hjá útvarpsstjóra í morgun að vinna sé hafin við endurskoðun á húsnæðismálum Ríkisútvarpsins. Á fundi stjórnar í gær var skipaður vinnuhópur sem falið var að koma með tillögur að nýrri lausn í húsnæðismálum og á hann að skila tillögum sínum fljótlega. Skoðaðir verða möguleikar á flutningum í hentugra húsnæði eða breytingum á núverandi húsnæði.  Samhliða verður unnið að endurnýjun á tæknibúnaði RÚV til að gera miðlum þess betur kleift að mæta nýjum tíma. Magnús segir við Eyjuna að núverandi ástand í húsnæðismálum sé íþyngjandi. Stofnunin beri há langtímalán sem vinni gegn hlutverki RÚV.

Endurskoðun fjármála, stefnir í nokkurn halla á yfirstandandi rekstrarári

Fjármál fyrirtækisins verða sömuleiðis endurskoðuð en uppfærð rekstraráætlun Ríkisútvarpsins var kynnt á fundi stjórnar RÚV í gær. Liggur fyrir að tap af rekstrinum verður umtalsvert meira en áætlanir fráfarandi framkvæmdastjórnar gerðu ráð fyrir. Nú er gert ráð fyrir að tapið verði 305 m. kr. fyrstu 6 mánuði ársins og 357 m. kr. á rekstarárinu öllu, jafnvel þó að gripið hafi verið til umfangsmikilla niðurskurðaraðgerða á tímabilinu. Þetta mikla tap mun hafa veruleg áhrif á eigið fé Ríkisútvarpsins, en það var við lok síðasta rekstrarárs 653 mkr. Ríkisútvarpið sendi af þessum sökum afkomuviðvörun til Kauphallarinnar í gær. Þá hefur stjórn Ríkisútvarpsins óskað eftir óháðri úttekt á fjármálum stofnunarinnar.

Vonir eru bundnar við að áðurnefndar skipulagsbreytingar og nýjar áherslur muni styrkja dagskránna, straumlínulaga reksturinn og bæta fjárhagsstöðu RÚV og þar með koma í veg fyrir frekari hópuppsagnir. Stefnt er að því að áherslubreytingarnar birtist hlustendum og áhorfendum RÚV fyrir haustið.

Framtíðarsýn Magnúsar Geirs

„Ríkisútvarpið hefur verið með þjóðinni í hartnær heila öld og er ein helsta menningar- og lýðræðisstofnun þjóðarinnar,” segir Magnús Geir í tilkynningu. “Eftir erfiða tíma að undanförnu er kominn tími til að draga línu í sandinn, snúa vörn í sókn og horfa bjartsýn til framtíðar. RÚV býr yfir einstökum hópi starfsmanna og á ríkan sess í hjörtum landsmanna. Það eru mikil tækifæri til sóknar og ég er ekki í vafa um að framundan séu spennandi tímar þar sem sköpun, metnaður og gleði verða höfð að leiðarljósi.”

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR