Gagnrýni | Hunang (Miele)

Jasmine Trinca fer með titilhlutverkið í Miele eftir Valeria Golino.
Jasmine Trinca fer með titilhlutverkið í Miele eftir Valeria Golino.
[column col=“1/2″][message_box title=“BÍÓ PARADÍS | Hunang (Miele)“ color=“gray“] [usr 3,5] Leikstjóri: Valeria Golino
Handrit: Valeria Golino, Francesca Marciano og Valia Santella – byggt á skáldsögu eftir Mauro Covacich, A nome tuo
Aðalhlutverk: Jasmine Trinca, Carlo Cecchi
Lengd: 96 mín.
Ítalía, 2013
[/message_box][/column]Muniði eftir ítölsku leikkonunni Valeriu Golino? Það eru orðin meira en tuttugu ár síðan hún bræddi hjörtu unglingsstráka sem sæta stelpan í jafn ólíkum myndum og Hot Shots! og Rain Man. En hún fékk ekki að vera mikið meira en einmitt þetta í þessum myndum, sæta stelpan. Sem eru sjálfsagt fyrirsjáanleg örlög þegar fyrsta Hollywood-hlutverkið þitt er „girl in bikini.“

En ég hafði alltaf trú á henni Valeriu minni – þótt hún fengi aldrei tækifæri til þess að sanna það þá sá ég nóg til að sannfærast að þetta væri hörkuleikkona þrátt fyrir tilþrifalítil hlutverk. En hún fékk aldrei tækifæri til að sanna það í Hollywood. Hún fór aftur til Ítalíu og internetið geymir upplýsingar um ótal myndir sem ég hef aldrei séð – vonandi má finna hlutverkið sem hún átti skilið einhvers staðar þar.

En núna er hún hins vegar búin að skapa þetta hlutverk – og splæsa því á mjög lofandi unga ítalska leikkonu, Jasmine Trinca. Golino sjálf er hins vegar komin bak við myndavélina og reynist bara ansi lunkinn leikstjóri. Miele er afskaplega fallega tekin mynd og hún kann að segja söguna á köflum merkilega skýrt með myndmálinu einu – án óþarfa orðalenginga og útskýringa.

[quote align=“right“ color=“#999999″]Golino sjálf er hins vegar komin bak við myndavélina og reynist bara ansi lunkinn leikstjóri. Miele er afskaplega fallega tekin mynd og hún kann að segja söguna á köflum merkilega skýrt með myndmálinu einu – án óþarfa orðalenginga og útskýringa.[/quote]Uppleggið er einfalt – Hunangsstelpan Miele (sem heitir Valerie þegar hún er ekki að vinna) vinnur við að hjálpa fólki við líknardráp. Sem er augljóslega á mjög gráu svæði lagalega – en myndin eyðir ekki óþarfa púðri í að fara í lagaflækjurnar. Þess í stað fylgjum við henni eftir þar sem hún kaupir dýraeitur í Mexíkó fyrir ímyndaðan hund og hjálpa margs konar langveiku fólki inn í eilífðina, oftast með aðstoð nákominna ættingja.

Starf Miele minnir dálítið á blöndu af réttsýnum eiturlyfjasala og ísköldum fjöldamorðingja. Karakterinn minnir um margt á Lisbeth Salander – týnda stúlkan sem er algjör harðjaxl – og rækilega brynjuð gegn umheiminum. Þrátt fyrir að hún trúi á starfið er þetta starf sem maður þarf að brynja sig fyrir – og þetta er mynd um það þegar glufur fara að koma í brynjuna.

Hún er í raun aðdáunarverð í starfi – ísköld upp að því marki sem það er nauðsynlegt, en nær að miðla óvæntri hlýju þegar þess þarf. Og maður heyrir alveg stöku sinnum braka í hjartanu á henni. Þegar mál eins viðskiptavinarins reynast öllu flóknari en virtist í fyrstu tekur myndin svo nýja stefnu og úr verður ansi forvitnilegur og heillandi vinskapur.

Það gengur hins vegar ólíkt betur að bregða upp svipmynd hér af óvenjulegu lífi en að segja sögu. Þetta er í raun fyrst og fremst dagar í lífi líknardrápara framan af, það byrjar engin eiginleg saga fyrr en töluvert er liðið á myndina. Sem er bæði kostur og galli. Stærsti gallinn er kannski að hversdags vinir hennar eru flestir frekar óspennandi en svipmyndin sem við fáum af venjulegum vinnudegi í óvenjulegu starfi er merkilega tilgerðarlaus og áhrifamikil.

Þá þröngvar myndin siðferðisspurningunum ekki upp á áhorfandann. Þær eru auðvitað þarna en það er ekki verið að taka afstöðu fyrir okkur – en við fáum ágætis efni til að melta. Ég get raunar alveg mælt með að fólk reyni að sjá heimildamyndina The Suicide Tourist á undan eða eftir – því báðar eiga þær það sameiginlegt að bregða upp myndum af báðum hliðum líknardráps – bæði þeim sem allir skilja að vilji yfirgefa jarðlífið og líka þeim sem enginn skilur að vilji fara.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR