spot_img

Viðhorf | Safnabíó Kvikmyndasafnsins á heima í Bíó Paradís

Fyrirætlanir Hafnarfjarðarbæjar um að fá áhugasaman aðila til að annast rekstur Bæjarbíós eru tilvalið tækifæri til að finna safnabíói Kvikmyndasafnsins stað í alfaraleið, nánar tiltekið við Hverfisgötuna í Reykjavík.

Heimili kvikmyndanna á Íslandi er við Hverfisgötu í Reykjavík

Þar er nefnilega að finna kvikmyndahús sem kallast Bíó Paradís. Það sérhæfir sig í að sýna nýjar áhugaverðar kvikmyndir frá öllum heimshornum sem og hverskyns eldri myndir erlendar sem innlendar, auk þess að hýsa kvikmyndahátíðir og standa fyrir fjölbreyttum kvikmyndatengdum viðburðum. Reglulegar sýningar á perlum kvikmyndanna fyrir börn og unglinga fara og fram í húsinu, þar sem markmiðið er að efla þekkingu og menntun á þessari mikilvægu listgrein.

Fjölbreytni og aðsókn

Bíó Paradís sækja í kringum 60.000 manns á ári. Til samanburðar sækja safnabíó Kvikmyndasafnsins í Bæjarbíói um og yfir 2.000 gestir á ári samkvæmt nokkurra ára gömlum upplýsingum frá safninu. Margfalt fleiri gestir sækja sýningar á klassískum kvikmyndum í Bíó Paradís en í Bæjarbíói, meðal annars vegna staðsetningar auk þess sem fyrrnefnda bíóið er opið daglega og býður uppá mikla fjölbreytni; það sýnir mun fleiri kvikmyndir árlega en öll hin bíóin í landinu samanlagt.

Bíó Paradís var frá upphafi hugsað sem sameiginlegur vettvangur fyrir hverskyns kvikmyndasýningar sem liggja utan hins hefðbundna meginstraums. Áherslurnar snúast um að undirstrika og hylla fjölbreytni kvikmyndamenningar. Safnabíó Kvikmyndasafns Íslands á svo sannarlega heima í þeim ranni.

Samstarfi hafnað

Mér er málið vissulega skylt. Þegar við undirbjuggum stofnun Bíó Paradísar 2010 var rætt við forsvarsmenn Kvikmyndasafnsins um samstarf. Við sáum fyrir okkur að sýningarbúnaður yrði fluttur yfir og að safnabíóið nyti sambærilegra kjara og það hafði í Bæjarbíói, ásamt fullu frelsi til dagskrársetningar að sjálfsögðu. Okkur var umhugað um að safnabíóið yrði hluti af starfseminni, enda er það hluti af þeirri hugmyndafræði sem Bíó Paradís byggir á og snýr að birtingu kvikmyndasögu og -arfs í sem fjölbreyttastri mynd.

Þá sáum við einnig fyrir okkur að innkoma safnabíósins yrði til að treysta undirstöður beggja; Bíó Paradís gæti boðið gestum sínum uppá hina vönduðu dagskrá Kvikmyndasafnsins (sem byggir á myndum í safni þess og systursafna, auk sérhæfðra dreifingaraðila sem Bíó Paradís skiptir einnig mikið við) og safnabíóið fengi öruggt heimili í nálægð við lungan af þeim sem áhuga hafa á þessu efni.

Í því sambandi þarf að hafa í huga að þarna var ljóst að samningur Kvikmyndasafnsins við Hafnarfjarðarbæ um afnot af Bæjarbíói náði aðeins til seinniparts 2011. Okkur var einnig kunnugt um að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði höfðu lengi verið óánægð með takmarkaða nýtingu hússins, sem eingöngu er í notkun yfir vetrartímann og þá aðeins nokkrar klukkustundir í senn tvo daga í viku (auk einhverra sérsýninga).

Ný staða – notum tækifærið

Það voru vonbrigði að Kvikmyndasafnið hafnaði þessu tilboði um samstarf á sínum tíma. Í framhaldi samdi safnið við Hafnarfjarðarbæ um áframhaldandi afnot af Bæjarbíói en bæjaryfirvöldum virðist enn (skiljanlega) umhugað að nýta húsið betur. Því er þessi staða komin upp nú.

Sjónarmið yfirmanna safnsins varðandi þetta mál lúta meðal annars að sögulegu gildi Bæjarbíós sem elsta varðveitta kvikmyndahús landsins. Ég hef skilning á þeim viðhorfum en er þeim ósammála. Það er ekki nóg að setja upp fína dagskrá (sem vissulega hefur almennt tekist þrátt fyrir þröngar fjárhagslegar skorður) – það verður einnig að hafa sýningarnar aðgengilegri almenningi. Og já, þetta segi ég sem fæddur og uppalin Hafnfirðingur sem hefur átt margar góðar stundir í Bæjarbíói gegnum árin.

Safnabíó Kvikmyndasafns Íslands á heima í Bíó Paradís, heimili kvikmyndanna.

Kjósi forsvarsmenn Kvikmyndasafnins að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu er þeim velkomið að gera það á þessum vettvangi.


(Athugið: Rétt er að taka fram að höfundur vann að stofnun Bíó Paradísar og var dagskrárstjóri þess frá upphafi til 2013).

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR