spot_img

Hin rómantíska þráhyggja Brian De Palma

Svartir sunnudagar heiðra meistara Brian De Palma í Bíó Paradís um næstu helgi en þá verða sýndar þrjár mynda hans frá föstudegi til sunnudags; Dressed to Kill, Scarface og Blow Out.

Afsprengi sjöunda áratugsins

De Palma er óhætt að kalla einn af meistum bandarískra kvikmynda á ofanverðri tuttugustu öldinni en hann er hluti af þeim hópi leikstjóra sem taldir eru til „seinni gullaldar Hollywood“ og má segja að hafi staðið frá síðari hluta sjöunda áratugsins fram að lokum þess áttunda.

Á sjöunda áratugnum riðaði stúdíókerfið ameríska til falls en til sögu komu ungir leikstjórar sem bæði dýrkuðu klassískar Hollywoodmyndir en litu jafnvel enn frekar til þeirra áhugaverðu hræringa sem átt höfðu sér stað í Evrópu og Asíu áratuginn á undan eða svo með leikstjórum á borð við Francois Truffaut, Jean-Luc Godard, Claude Chabrol, Ingmar Bergman, Akira Kurosawa, Federico Fellini, Michelangelo Antonioni og mörgum fleirum.

Mennirnir sem bjuggu til hið nýja Hollywood (ásamt fleirum): Frá vinstri: Steven Spielberg, Brian De Palma, George Lucas, Francis Ford Coppola og Martin Scorsese.
Mennirnir sem bjuggu til hið nýja Hollywood (ásamt fleirum): Frá vinstri: Steven Spielberg, Martin Scorsese, Brian De Palma, George Lucas og Francis Ford Coppola.

Til hópsins teljast meðal annars Martin Scorsese, William Friedkin, Peter Bogdanovich, Hal Ashby, Bob Rafelson, Robert Altman, Terrence Malick, Woody Allen, Francis Ford Coppola og þeir ágætu menn George Lucas og Steven Spielberg, hvurs myndir áttu þó sinn þátt í að þetta áhugaverða tímabil leið undir lok – og er þá vísað til Star Wars og Jaws, sem leiddu öld metsölumynda í garð um miðjan áttunda áratuginn.

Ástríðumaður sem valsar um kvikmyndasöguna

De Palma vísar ófeiminn í kvikmyndasöguna í myndum sínum, sérstaklega var það áberandi framan af og þá ekki síst speglun hans á verkum Hitchcock. Dressed to Kill (1980) vísar til dæmis mjög til Psycho og Obsession (1976) til Vertigo. Í Blow Out (1981) kinkar hann svo kolli til Blow-Up Antonionis en einnig The Conversation félaga síns Coppola. Scarface (1983) er svo endurgerð á samnefndri mynd Howard Hawks frá 1932. Þá má einnig nefna atriðið á tröppum lestarstöðvarinnar í The Untouchables (1987) sem er vísun í hið fræga atriði úr Beitiskipinu Potemkin (1925) eftir Sergei Eisenstein.

Frá og með Scarface hafa blokkbösterar hans (þ.e.a.s. dýrari týpan af myndum) verið meira áberandi meðan dregið hefur úr sannfæringarkrafti hinna persónulegri verka. Þó var Femme Fatale frá 2002 fjári vel heppnuð bíó-orgía sem óneitanlega minnti á gamla takta. Hún reyndar kolféll í miðasölunni en hefur hlotið ákveðinn költ status og ekki að ástæðulausu. Kíkið á stikluna hér að neðan, hún er algjör snilld:

Stórmyndirnar eru sumar hverjar ágætlega heppnaðar (t.d. The Untouchables og Mission: Impossible – svo er ég einn af fáum sem hafði dálítið gaman af The Bonfire of the Vanities) en höfundareinkenni hans eru oftast yfirborðskenndari í þessum myndum.

En – heilt yfir var áttundi áratugurinn og fyrri hluti þess níunda hans blómaskeið á ýmsan hátt, þar sem hann leyfði sér að vaða á súðum og gera vogaðar tilraunir. Myndir hans á þessum tíma dansa á mörkum sálfræðitryllisins og hrollvekjunnar með ástríðuþrungnum áherslum á rómantíska þráhyggju.

Með John Travolta og Nancy Allen við tökur á Blow Out.
Með John Travolta og Nancy Allen við tökur á Blow Out.

Ofbeldisdýrkandi öfuguggi?

De Palma hefur ítrekað sætt gagnrýni fyrir meinta ofbeldisdýrkun sína, ekki síst gagnvart konum. Julie Sander nefnir t.d. í bók sinni Devil’s Candy: The Bonfire of the Vanities Goes to Hollywood að „margir gagnrýnendur haldi því fram að De Palma hylji kvenhatur sitt svo listilega vel að menningarelítan sjái hann ekki í sínu rétta ljósi sem öfugugga og kvenhatara.“ Og kvikmyndaskríbentinn David Thomson segir í sinni frægu bók, The Biographical Dictionary of Film að það sé „sjálfsmeðvituð slægð í verkum De Palma sem er reiðubúin að stjórna öllu nema hans eigin grimmd og skeytingarleysi.“

Sjálfur hefur De Palma svarað gagnrýninni til dæmis svona: „Það er alltaf verið að ráðast á mig fyrir kynferðislega og karlrembulega nálgun – fyrir að brytja niður konur og setja þær stöðugt í hættu. Ég geri spennumyndir! Hvað annað ætti að koma fyrir þær?“

Sjá nánar hér á vef Bíó Paradísar: Meistarahelgi Brian De Palma!.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR