spot_img

Já, þær eru bestar

Úr Við erum bestar! eftir Lukas Moodysson.
Úr Við erum bestar! eftir Lukas Moodysson.

Jónas Knútsson kvikmyndafræðingur datt inná sýningu á mynd Lukas Moodysson Við erum bestar! og varð fyrir óvæntri ánægjulegri upplifun, enda hafði hann meira og minna afskrifað leikstjórann “fyrir að gera lítið úr Ingmar Bergman í viðtali, predikanir, misheppnaðan dónaskap, tilraunastarfsemi á áhorfendum og einhverjar löngu gleymdar yfirsjónir.”

[divider scroll_text=”EFTIR JÓNAS KNÚTSSON”]
Jónas Knútsson.
Jónas Knútsson.

Fátt er jafnhvimleitt og unglingamyndir og kynnu sérdeilis illa innrættir menn að láta svo um mælt að fátt sé jafnhvimleitt og unglingar, sér í lagi þeir sem voru sjálfir sérdeilis hvimleiðir unglingar á yngri árum.

Fyrir skemmstu sótti undirritaður opið spjall með sænska öndvegisleikstjóranum Lukas Moodysson. Var gestinum mikið um að málvinir hans á Íslandi sæju nýjustu myndina eftir hann Við erum bestar og kvaðst óvenjusáttur við hana en leikstjórinn er jafnan afar óvæginn við sjálfan sig og eigin verk. Kvaðst Moodysson hafa sótt yrkisefnið í sjálfsævisögulega teiknimyndasögu eftir eiginkonu sína.

Er nú frá að segja að Moodysson gat sér á sínum tíma gott orð um allar jarðir með myndinni Fucking Åmål (1998) en hún hlaut heitið Show Me Love vestur í Bandaríkjunum. Segir þar frá kynnum saffískra unglingsstúlkna í grútleiðinlegu sænsku krummaskuði en einhver ferskur blær sveif yfir vötnum.

Fátt í lífinu óljúfara en láta Svía predika yfir sér

Gerður var góður rómur að næstu mynd Moodyssons Tilsammans en leikstjórinn lét kné fylgja kviði með ádeilumyndinni Lilyja 4-ever. Þrátt fyrir frammúrskarandi leik og góða spretti læddist fullmikill predikunartónn í söguna. Af einverjum ástæðum er fátt í lífinu óljúfara en láta Svía predika yfir sér. Ekki svo að skilja að ekki sé rík þörf fyrir að lesa endrum og eins yfir hausamótunum á nánast öllum heldur af þeim sökum að Svíar hafa óskaplega gaman af að predika yfir öðrum en einhverra hluta vegna smitar sú ánægja fráleitt út frá sér, sér í lagi þar sem sá sem á hómilíurnar hlýðir á í hlut.

Fátt er jafn leiðigjarnt og dónamyndir eftir menn sem eru alls kostar andvígir öllum dónaskap

Moodysson hélt nú ótroðnar slóðir með frammúrstefnumyndinni Ett hål i mitt hjärta sem var uppfull af alls konar dónaskap en fátt er jafn leiðigjarnt og dónamyndir eftir menn sem eru alls kostar andvígir öllum dónaskap. Hafi menn ekkert betra við lífið að gera en glápa á dónamyndir er sjálfsögð krafa að myndirnar séu eftir einlæga dóna en ekki umbótasinnaða karlkyns femínista eða aðra liðhlaupa úr baráttu kynjanna.

Ekki varð sá sem þetta ritar svo frægur að horfa á myndina til enda en kvaddi þennan ófögnuð í miðjum klíðum með þeirri ljótu tilhugsun að betur hefði hún heitið Ett hål i mitt huvud. Næsta mynd eftir Moodysson Container (2006) var líka af tilraunakenndum toga og hætti undirritaður sér hvergi nærri. Listrænar tilraunir eiga að fara fram í tilraunastofum. Þær á ekki að bera út á torg.

Leikstjórinn kominn á bannlista

Því næst stefndi Moodyson á landvinninga vestra en myndin Mammoth (2009) leikin á ensku og sögusviðið New York. Þegar hér var komið sögu var leikstjórinn kominn á bannlista hjá undirrituðum fyrir að gera lítið úr Ingmar Bergman í viðtali, predikanir, misheppnaðan dónaskap, tilraunastarfsemi á áhorfendum og einhverjar löngu gleymdar yfirsjónir. Nú hvatti þessi sami maður gesti og gangandi til að bregða sér á bíómynd þar sem hann vegur í sama knérunn og einum og hálfum áratugum áður í myndinni Fucking Åmål, eða Show Me Love eins og hún hét í guðs eigin landi, einhvers konar fjölskylduverkefni um bernskubrek sænskra unglingsstúlkna á mektarárum pönksins í þvísa landi. Sjálfur gekk undirritaður nánast um með þverslaufu á þessum árum og átti sáralítið saman að sælda við tískupönkara en hlustaði á „The Stranglers” í tætlur þegar heimurinn var genginn til náða. Yrkisefnið, tilurð myndarinnar og allar ytri aðstæður bentu alfarið til þess að hér væri betur heima setið.

Svo bar hins vegar til að sýningartími á rússneskri þunglyndismynd á síðustu RIFF-hátíð brenglaðist í dagblöðum og sá sem hér heldur á penna gat valið um að halda aftur bónleiður út í nóttina eða sjá einu myndina sem var sýnd svo seint, enga aðra en Við erum bestar eftir hinn bannfærða og forsmáða Moodysson.

Viti menn!

Þegar inn var komið var bíósalurinn nánast smekkfullur en slíkt fátítt þegar sænskar myndir eru annars vegar. Og viti menn. Hér segir frá þremur gerólíkum unglisstúlkum sem stofa pönksveit í byrjun níunda áratugarins. Moodysson fangar lífsgleði unglingsáranna án þess að velta sér upp úr ungæðislegri angist eða svínbeygja yrkisefnið undir félagsfræðilegar vangaveltur.

Engu líkara er en Moodysson hafi rekist á eintak af einhverju týndu meistaraverki frá árinu 1982 uppi á háalofti hjá sér, svo áreynslulaust magnar hann fram tíðarandann, líkt og landi hans Tomas Alfredson í myndinni Låt den rätte komma in (2008), án þess að troða dagsetningunni og ártalinu upp á áhorfandann í hverjum myndramma.

Þótt lítið beri á sýna sögupersónurnar á sér nýjar hliðar við nánast hvert fótmál og jafnvel aukpersónurnar stökkva sprelllifandi fram af breiðtjaldinu. Myndin er jafnskemmtileg og hrífandi og bestu dans- og söngvamyndir frá gullaldarárum Hollywoodmanna en svo eðlileg og blátt áfram að áhorfandinn verður innst inni fjórði liðsmaðurinn í pönksveitinni og rokkar með.

Allar standa ungu leikkonurnar sig með stakri prýði, líkt og leikhópurinn allur. Þótt leikurinn sé á köflum hrár, eins og reyndar myndin sjálf, skiptir það ekki nokkru lifandi máli því að ekki má finna stakt andartak í myndinni þar sem ekki er sagt frá af hjartans einlægni. Moodysson kann þá list að sýna unglinga eins og þeir eru og myndin sem dregin er upp af unglingsárunum er raunsönn og hlý, tilgerðarleysið algjört en skemmtanin engu síðri.

Hér er frómt frá sagt á ferð ein skemmtilegasta og gjöfulasta bíómynd síðari ára og pönkpíurnar orðnar alúðarvinkonur allra í salnum löngu fyrir hlé, enda lauk sýningunni með dynjandi lófataki og húrrahrópum.

Já, þær eru einfaldlega bestar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR