spot_img

Bókin „Um kvikmyndalistina“ komin út í íslenskri þýðingu

um-kvikmyndalistina-rudolf-arnheim-kápaBókin Film als Kunst (Film as Art) eftir Rudolf Arnheim er komin út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi í ritröðinni Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Björn Ægir Norðfjörð, sem hefur umsjón með kennslu í kvikmyndafræði í Háskóla Íslands, þýddi en bókin er meðal annars ætluð til kennslu þar á bæ. Íslenska heitið er Um kvikmyndalistina og vísar titillinn óneitanlega til höfuðrits Aristótelesar; Um skáldskaparlistina.

Bókin kom fyrst út í Þýskalandi 1932 en var síðan endurunnin og endurútgefin í Bandaríkjunum 1957 og telst til höfuðrita kvikmyndafræða. Arnheim beinir sjónum sínum að þögla tímabilinu í kvikmyndum og setur fram kenningar sínar um hversvegna beri að telja kvikmyndir til lista. Arnheim sagði kvikmyndirnar vera annað og meira en einhverskonar vélræna endursköpun raunveruleikans og að framsetning lifandi mynda gæti örvað hverskonar skynupplifanir. Þar með þyrfti kvikmynd umfram allt að leggja áherslu á hið sjónræna til að koma innihaldinu til skila.

Í bókarkynningu segir m.a.:

„Er kvikmyndagerð listgrein eða einber afþreyingariðnaður? Eru kannski sumar kvikmyndir list en aðrar ekki? Í hverju felast listrænir eiginleikar kvikmyndarinnar? Í þessari bók er að finna sígilda glímu við spurningar af þessum toga. Höfundurinn Rudolf Arnheim, var í hópi þeirra fyrstu sem gerðu skipulega og fræðilega tilraun til að svara þeim. – List verður til þar sem vélrænni endurgerð linnir, þegar framsetningin fer að taka þátt í því að móta viðfangið. Áhorfandinn kemur upp um vanþekkingu sína þegar hann lætur sér nægja að taka eftir efniviðnum einum: þessi mynd er af vél, þessi af elskendum, og þessi af skapbráðum þjóni.  Hann verður að vera tilbúinn til að beina athyglinni að formi og vera fær um að leggja mat á það hvernig vélin, elskendur og þjóninn birtast.“

Sjá nánar hér: Hið íslenska bókmenntafélag – Bókaflokkar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR