spot_img

Gagnrýni | Love, Marilyn (RIFF)

Marilyn Monroe
“Fyrir þá áhorfendur sem hafa raunverulegan áhuga á Monroe er myndin mikilvægt innlegg í þá umræðu sem hefur spunnist um hana undanfarna áratugi. Fyrir aðra er hún ágæt leið til þess að afla grundvallarupplýsinga um þessa goðsagnakenndu konu.”
[column col=”1/2″][message_box title=”Háskólabíó / RIFF | Love, Marilyn” color=”blue”] [usr 3,5] Stjórnandi: Liz Garbus, 2012
Heimildamynd
Lengd 107 mín.
[/message_box][/column]Í heimildamyndinni Love, Marilyn sem nú er sýnd á RIFF er skyggnst inn í einkalíf leikkonunnar Marilyn Monroe og leitast við að ljá myndinni rödd hennar sjálfrar. Lesið er upp úr dagbókum hennar og bréfum, auk þess tekin eru viðtöl við vini, samstarfsmenn og nokkurn fjölda fræðimanna. Efnistökin eru að mestu leyti skorðuð við persónu Monroe og dregið fram hvernig hún mótaði fyrirferðarmikla ímynd sína eins og hvert annað hlutverk og hvernig hún nýtti sér m.a. styrkleika ímyndarinnar til þess að stýra kvikmyndaferili sínum

love marilyn-posterÍ kvikmyndinni er ekki mikilli athygli beint að slúðri og sögusögnum. Þess í stað lögð áhersla á sjónarhorn Monroe sjálfrar og í gegnum dagbækur og bréf er kafað ofan í hennar eigin hugsanir á ólíkum æviskeiðum. Áhugi Monroe á starfi sínu er í forgrunni og er leitast við að draga upp mynd af henni sem metnaðargjarnri leikkonu og aðgreina þá hlið á persónuleika hennar frá ímyndinni og kyntákninu „Marilyn Monroe“. Þessi óhefðbundna nálgun tekst ágætlega, einkum þar sem dagbókarskrif hennar undirstrika listrænan og leitandi huga sem spyr krefjandi spurninga. Að auki styrkja umræður fræðimanna á borð við Thomas Schatz, Lois Banner og Molly Haskell þessa sýn. Þau draga fram (á ólíkan hátt) mikilvægi Monroe í tengslum við kvikmyndaiðnað sjötta áratugarins og þá sérstaklega í samhengi við þær aðgerðir sem hún fór í til þess að öðlast meira listrænt frelsi og fá hluta af hagnaði mynda sinna.

Monroe kom sárasjaldan fram í sjónvarpi en í Love, Marilyn birtast flest af þeim örfáu sjónvarpsviðtölum sem tekin voru við hana – en að auki eru upptökur fyrir nokkur blaðaviðtöl leikin af böndum. Að öðru leyti eru tengsl við Monroe mynduð í gegnum dagbækur hennar og bréf sem hún skrifaði til vina sinna. Bréfin og dagbækurnar eru leiklesin af þekktum leikkonum og má nefna sem dæmi þær Glenn Close, Ellen Burstyn, Uma Thurman og Viola Davis. Þessi óvenjulega framsetning þeirra glæðir þau mjög tilfinningaríku lífi þegar vel heppnast, einkum í tilfelli Burstyn og Davis. Á hinn bóginn hafa atriðin tilhneigingu til að draga athygli að sjálfum sér frekar en efninu sem þeim er ætlað að miðla. Leiklesturinn er tekinn upp fyrir framan grænan skjá (e. green screen) sem gefur þeim frekar sjónvarpslega áferð sem fer ekki vel á kvikmyndatjaldi og er einnig í óþægilegri mótstögn við milda tóna svart/hvíts heimildaefnis frá sjötta áratugnum.

[column col=”1/2″][quote align=”left” color=”#999999″]”Fyrir þá áhorfendur sem hafa raunverulegan áhuga á Monroe er myndin mikilvægt innlegg í þá umræðu sem hefur spunnist um hana undanfarna áratugi.”[/quote][/column][column col=”1/2″][/column]Kostir myndarinnar eru þó ívið fleiri, og mun fleiri en gallar hennar. Fyrir þá áhorfendur sem hafa raunverulegan áhuga á Monroe er myndin mikilvægt innlegg í þá umræðu sem hefur spunnist um hana undanfarna áratugi. Fyrir aðra er hún ágæt leið til þess að afla grundvallarupplýsinga um þessa goðsagnakenndu konu. Í myndinni er þó ekki flett ofan af neinum sérstökum sannleik, það sem gerir hana áhugaverða er að í henni er gengið lengra en oft er gert í áþekku efni sem snýr að Monroe. Því auk þess að sýna vel gefna og hugsandi konu (í takt við þá sem ímyndarheferð farin hefur verið fyrir hennar hönd af t.d. Gloriu Steinem) er gerð tilraun til þess að tengja áhorfandann við eitthvað raunverulegra og manneskjulegra en oft áður. Því þótt persóna Monroe sé að einhverju leyti tekin til greiningar í myndinni (líkt og í flestu öðru efni sem að henni snýr) er hennar eigin rödd eins mikið og auðið er höfð í forgrunni – og þá rödd ættu áhugasamir alls ekki að láta framhjá sér fara.

Helga Þórey Jónsdóttir
Helga Þórey Jónsdóttir
Helga Þórey Jónsdóttir hefur nýlokið meistaranámi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands með kvikmyndafræði sem sérsvið. Helga starfaði við fjölmiðla um árabil og var m.a. tónlistargagnrýnandi á Morgunblaðinu og stjórnaði útsendingu útvarpsfrétta á RÚV. Síðustu ár hefur Helga snúið sér í auknum mæli að fræðistörfum og hyggur á frekara nám í kvikmynda- og menningarfræði. Helga í ritstjórn vefritsins Knúz.is.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR