PARADÍS AMATÖRSINS, BÓNDINN OG VERKSMIÐJAN og ÓSIGRAÐUR verðlaunaðar á Skjaldborg 2025

Arfaskemmtilegri Skjaldborgarhátíð, sem fram fór um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði, er lokið. Veðrið lék við hátíðargesti og aðsókn var mikil.

Klippa frá hátíðinni mun birtast hér á Klapptré á næstunni.

Alessandra Celesia var heiðursgestur hátíðarinnar og tvær myndir eftir hana voru sýndar, afrakstur Skjaldbökunnar, fræðslustarfs Skjaldborgar, var kynntur, Kvikmyndasafn Íslands sýndi óséðar perlur frá Patró og svo voru auðvitað plokkfiskveisla kvenfélagsins Sifjar og Fiskiveisla kokksins Gísla Ægis á sínum stað. Skjaldborgarbíó var þar að auki þétt setið frá morgni til kvölds.

Eftirtaldar heimildamyndir hlutu verðlaun:

EINARINN:

Áhorfendaverðlaun Skjaldborgar 2025, Einarinn, hlaut Bóndinn og verksmiðjan með afgerandi kosningu. Myndin fjallar um baráttu bónda í Hvalfirði við kerfið og afhjúpar máttvana stjórnsýslu og hreðjatök stóriðju á stjórnvöldum og sveitarfélagi. Hún leitast við að ná fram réttlæti fyrir bóndann og hrossin hennar. Leikstjórn: Barði Guðmundsson og Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Framleiðandi: Hrafnhildur Gunnarsdóttir / Krumma Films.

Einarinn, áhorfendaverðlaunin hafa verið veitt frá stofnun hátíðarinnar 2007. Verðlaununum fylgir verðlaunafé frá tækjaleigunni Kukl að verðmæti 500 þúsund, verðlaunafé frá Trickshot að verðmæti 250 þúsund, verðlaunafé frá Phantom hljóð eftirvinnslufyrirtæki að verðmæti 150 þúsund krónur og háhraða vinnsludiskur frá Sensor Films, umboðsaðila fyrir Glyph vinnsludiska á Íslandi. Verðlaunagripurinn er hannaður af Einari Vigni Vatneyri Skarphéðinssyni.

Bóndinn og verksmiðjan: Anna Þóra Steinþórsdóttir klippari, Hrafnhildur Gunnarsdóttir leikstjóri og framleiðandi, Barði Guðmundsson leikstjóri | Mynd: Patrik Ontkovic.

LJÓSKASTARINN

Ljóskastarann, Dómnefndarverðlaun Skjaldborgar 2025 fyrir mynd í fullri lengd hlaut Paradís amatörsins. Í myndinni deila íslenskir karlmenn úr fjórum kynslóðum eigin lífi á YouTube – frá óperusöng í stofunni heima til fjölskyldumyndbanda og einlægra játninga. Leikstjórn: Janus Bragi Jakobsson. Framleiðsla: Tinna Ottesen / Stefnuljós.

Umsögn dómnefndar: Kvikmyndin er einlæg, áhugaverð, gamansöm og eftirminnileg saga sem heillaði dómnefndina upp úr skónum. Hún býður upp á listræna sýn höfundar um hvernig það er að vinna með sögur annarra sem áður hafa birst á opinberum vettvangi. Mannlegar sögur og þörf mismunandi kynslóða til að vinna með myndrænar skrásetningar. Persónurnar koma ljóslifandi fram þar sem áhorfandinn nær að kynnast þeim á persónulegum nótum.

Ljóskastaranum, dómnefndarverðlaunum, sem efnt var til 2017 fylgir verðlaunafé frá tækjaleigunni Kukl að verðmæti 500 þúsund, verðlaunafé frá Trickshot að verðmæti 250 þúsund, verðlaunafé frá Phantom hljóð eftirvinnslufyrirtæki að verðmæti 150 þúsund og og háhraða vinnsludiskur frá Sensor Films, umboðsaðila fyrir Glyph vinnsludiska á Íslandi. Verðlaunagripurinn er hannaður af Kristínu Maríu Sigþórsdóttur.

Paradís amatörsins: Tinna Ottesen framleiðandi, Janus Bragi Jakobsson leikstjóri, Loji Höskuldsson tónskáld og Kristján Loðmfjörð klippari | Mynd: Patrik Ontkovic.

SKJALDAN

Skjaldan, dómnefndarverðlaun Skjaldborgar 2025 fyrir heimildastuttmynd hlaut Ósigraður. Myndin fjallar um Hilmar Pál Jóhannesson, föður leikstjórans, en eftir áralangt mál við Reykjavíkurborg vegna lóðar í Gufunesi finnur hann sig í stöðugri baráttu við borgina og sjálfan sig. Höfundur: Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Umsögn dómnefndar: Kvikmyndin býður upp á skýra rödd höfundar á verki sem hefst á óréttlæti manns sem ætlar sér að sigra báknið. En í raun er sagan um samband sem skilur áhorfandann eftir með ákveðnar spurningar og flóknar tilfinningar. Höfundur vílar sér ekki við að móta söguframvinduna með skemmtilegum og afhjúpandi augnablikum. Eftir stendur áhugaverður kvikmyndalistamaður sem á framtíðina fyrir sér í greininni.

Skjöldunni, verðlaunum fyrir heimildastuttmynd ársins, fylgir verðlaunafé frá tækjaleigunni Kukl að verðmæti 250 þúsund og háhraða vinnsludiskur frá Sensor Films, umboðsaðila fyrir Glyph vinnsludiska á Íslandi. Verðlaunagripurinn er hannaður af Rögnu Þórunni Ragnarsdóttur og inniheldur vestfirskar plöntur tíndar af Rannveigu Haraldsdóttur.

Ósigraður: Jóna Gréta Hilmarsdóttir leikstjóri | Mynd: Patrik Ontkovic.

Dómnefnd Skjaldborgar 2025 var skipuð þeim Ásu Baldursdóttur, dagskrárstjóra Bíó Paradísar, Maks Piłasiewicz, hátíðadagskrárgerðarmanni og framleiðanda, og Sighvati Ómari Kristinssyni, klippara.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR