[Stikla] Hinn nýji söngur nítjándu aldar í heimildamyndinni FRÁ ÓMI TIL HLJÓMS sem frumsýnd verður á Skjaldborg

Heimildamynd Ásdísar Thoroddsen, Frá ómi til hljóms - tónlistin á dögum Sveins Þórarinssonar amtskrifara, verður frumsýnd á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði um hvítasunnuna.

Sveinn Þórarinsson amtskrifari á Möðruvöllum (1821-1868) hélt dagbók frá unglingsaldri þar til hann lést. Fjölmargar færslur er þar að finna, sem lúta á tónlist; hann hafði tónlistargáfu, en náði þó ekki að blómstra. Dagbókarfærslurnar eru notaðar sem leiðarstef í kvikmyndinni Frá ómi til hljóms, sem fjallar um breytingarnar, sem urðu á íslensku tónlistarlífi á 19. öld.

Tónlistariðkun Íslendinga hafði einskorðast við rímnasöng og grallarasöng, þulur og tvísöngslög. Annar fjölraddaður söngur þekktist ekki. Oft var sungið í fornum kirkjutóntegundum, svo sem lydíska skalanum. Einu hljóðfærin, sem almenningur hafði aðgang að, voru langspilið og íslenska fiðlan.

Þá gerðist það fyrir miðja 19. öld, að betri borgarar Reykjavíkur ákváðu að bæta þyrfti kirkjusönginn í Dómkirkjunni. Þær lagfæringar urðu upphafið á umsnúningi á íslensku tónlistarlífi, sem ruddi braut „hinum nýja söng“, en svo var hinn fjölradda söngur í dúr og moll kallaður, sem barst frá meginlandinu. Alþýðan tók þó líka frumkvæði, ekki síst á Norðurlandi; fiðlur og flautur voru keyptar inn og nótnahefti og dansað var, þegar því var við komið.

Myndin verður sýnd í Bíó Paradís með haustinu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR