Lestin um VIGDÍSI: Hárrétti tíminn til að segja þessa stórmerkilegu sögu

Brynja Hjálmsdóttir fjallar um þáttaröðina Vigdísi í Lestinni á Rás 1 og segir þetta stórmerkilega sögu sem gerð séu góð skil, en stígandinn sé stundum nokkuð ójafn.

Brynja segir á vef RÚV:

Vigdís, Vigdís, Vigdís. Kæru lesendur, það ríkir Vigdísarfár á Íslandi og þið eruð þátttakendur í því, við erum öll þátttakendur. Hvort sem fólk er að horfa á þættina eða ekki þá hafa allir skoðun á þeim, það eru allir að tala um þá. Síðasti þátturinn fór í loftið nú um helgina en ætla má að serían verði til umræðu lengi vel.

Þáttaröðin heitir einfaldlega Vigdís og fjallar vitaskuld um Vigdísi Finnbogadóttur, fyrsta lýðræðislega kosna kvenforseta í heiminum. Þættirnir eru fjórir og fylgja lífshlaupi hennar nokkurn veginn í tímaröð, það er ekki stokkið fram og til baka í tíma nema að litlu leyti. Frásögnin er römmuð inn af forsetakappræðum í sjónvarpi árið 1980, spurningum er varpað fram og viðfangsefni tiltekinna spurninga notað sem stökkpallur að tilteknum atburði eða tímabili í lífi Vigdísar. Sagan hefst á menntaskólaárunum, þar sem við dveljum í fyrsta þætti, í öðrum þætti fylgjum við henni út í nám í Frakklandi og þaðan fer hún til Danmerkur og Svíþjóðar. Í þeim þriðja er Vigdís orðin leikhússtjóri og loks í lokaþættinum verður hún forseti.

Líkt og búast má við er sögu Vigdísar mjög markvisst stillt upp við hlið sögu kvenréttindabaráttu á Íslandi. Í byrjun eru gildi samfélagsins býsna íhaldssöm og Vigdísi (og konum yfirhöfuð) þröngur stakkur sniðinn þegar kemur að því að skapa sér framtíð. Eftir því sem sögunni vindur fram verður svigrúmið meira, raddir kvenna háværari og samfélagið tekur stórum breytingum. Í þriðja þætti skýtur kvenréttinda- og rauðsokkuhreyfingin upp kollinum og það er gert skýrt að þótt framlag þeirrar hreyfingar og framlag Vigdísar hafi kannski verið ólíkt, hafi hvort tveggja gjörbreytt Íslandssögunni.

Þetta er vitaskuld períóda, sagan gerist á sjötta, sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Því verður að víkja að búningum og sviðsmynd sem eiga svo sannarlega hrós skilið, fegurðin er gríðarleg, þeim sem leiðist sagan geta bara slökkt á hljóðinu og látið teyma sig í gegnum búningana, greiðslurnar og sviðsmyndirnar, það er mjög skemmtilegt ferðalag út af fyrir sig. Búninga annast Helga Stefánsdóttir og leikmyndir Heimir Sverrisson.

Þegar Vesturport á í hlut má almennt búast við því að leikur verði í stakasta lagi og það er svo sannarlega tilfellið hér. Í fyrri tveimur þáttunum er fjöldinn allur af nýliðum sem standa sig með prýði. Elín Hall er flott sem Vigdís á yngri árum, sérstaklega í öðrum þætti. Sigurður Ingvarsson er öruggur í hlutverki eiginmannsins Ragnars, sem er fulltrúi hins þögla en kúgandi feðraveldis. Kunnuglegir Vesturportsleikarar eiga svo fyrirtaks frammistöður í seinni hluta seríunnar. Nína Dögg er augljóst val til að leika fullorðnu Vigdísi, og tekst vel að túlka þessa háttvísu, hátíðlegu en jafnframt hlýju mannseskju sem þjóðin kaus. Svo verð ég að nefna að Sjón á æðislegt „kameó“ hlutverk, líkt og það er kallað, sem Halldór Laxness.

Líkt og ég nefndi í upphafi eru þættirnir á allra vörum og það er auðvitað fagnaðarefni út af fyrir sig, að íslenskt menningarefni fái svo mikið áhorf og athygli. Það er líka gaman að því að þegar efnið er sannsögulegt verður hver einasti Íslendingur að sagnfræðingi og kaffistofur, sundlaugar, réttingaverkstæði, saumaklúbbar og ísbíltúrar verða að ráðstefnum allra þessara merku sérfræðinga. Menn leggja orð í belg. Segja að í eina tíð hafi Íslendingar nú þérað. Segja að það sé kolröng mynd dregin upp af hinum og þessum. Mannanöfn hafi nú verið svona og hinsegin í þessa eða hina dagana. Spyrja sig hvort Vigdís hafi nú virkilega verið svona flekklaus, annað hefur nú heyrst. Segja: Þetta gerðist ekki svona. Þetta var ekki svona. Það er óvíst að nokkur eining geti ríkt um þær niðurstöður sem fást á slíkum ráðstefnum en þær hafa samt ábyggilega eitthvað gildi, þótt ekki væri nema að hleypa smá lífi í samfélagið. Það virðist enn þörf á því að hamra á þeirri staðreynd að mannsævin fellur illa að lögmálum skáldskaparins og það verður oftast nær að klípa af einhvers staðar og bæta við annars staðar til að búa til sómasamlegt bíó. Aðlögunin er nauðsynleg framkvæmd en að sjálfsögðu er fólki svo frjálst að hafa skoðanir á því hvernig nákvæmlega hún er gerð, raunar er mjög æskilegt að skiptast á skoðunum þar.

Eigi maður að hnýta í eitthvað þá er það helst að stígandinn í þáttaröðinni er stundum nokkuð ójafn. Sumar tímasetningar á dramatískum vendipunktum eru athyglisverðar, rólegheitakaflar geta orðið nokkuð langir en stundum ansi skammt stórra högga á milli. Nefni hér sem dæmi fyrsta þáttinn, þar sem er dvalið heldur lengi í hversdeginum á köflum. Þessu má svo stilla upp á móti seinni hluta þriðja þáttar þar sem tilfinningaþrungin og hádramatísk atriði koma á færibandi. Einnig verður að koma fram að orðalag hefði mátt taka betur til skoðunnar, endrum og sinnum eru notuð hugtök sem er afar hæpið að fólk hefði notað fyrir fjörutíu eða fimmtíu árum og þótt þetta sé kannski smáatriði þá getur það dregið mann út úr atburðarrásinni.

Núna er alveg hárrétti tíminn til að gera þáttaröð á borð við þessa og ekki ólíkegt að serían verði sýnd víða um heim. Áhuginn á sögum kvenna er mikill og saga Vigdísar er svo sannarlega gríðarlega merkileg og áhugaverð. Vigdís fór ótroðnar slóðir og líf hennar frábrugðið því sem flestir þekkja, á sama tíma og það er það ekki. Þetta er kannski stærsti styrkleiki sögunnar sem sett er fram í þáttunum, þar sem valið er að leggja jafna áherslu á áskoranirnar á stóra og litla sviðinu. Þótt Vigdís sé framúrskarandi kona, þá er hún líka venjuleg kona, og hún glímir við sömu áskoranir og allar venjulegar konur þurfa – og hafa þurft – að glíma við, ofan á allt hitt. Þótt konur fái meira pláss, þótt breytingar eigi sér stað, er eins og sumt breytist ekki, eða ofsalega hægt að minnsta kosti. Þetta er stórmerkileg saga, henni er gerð góð skil og það er bókað mál að þessi þáttaröð verður til þess að kynna nýja kynslóð fyrir Vigdísi Finnbogadóttur, þessari bráðsnjöllu tungumálamannseskju, listunnanda og baráttukonu, sem braut blað í veraldarsögunni.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR