Jóhanna og Arnór um HÚSÓ: Að segja sögur frá sjónarhorni kvenna

Arnór Pálmi Arnarson og Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir eru tilnefnd til handritaverðlauna Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins 2025 fyrir þáttaröðina Húsó. Verðlaunin verða afhent á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg þann 28. janúar. 

Af þessu tilefni rætti Nordic Film and TV News við þau (rétt er að taka fram að hugmynd, persónur og saga voru þróuð af Arnóri, Jóhönnu og Dóru Jóhannsdóttur (undir dulnefninu Hekla Hólm)):

Hvernig veitti skólinn ykkur innblástur við skrifin?

Þegar önnur bylgja femínismans stóð yfir á áttunda áratuginum var heimilinu stundum lýst sem „einangrunarbúðum“ þar sem konur fóru að taka meira pláss á vinnumarkaði. Í seinni tíð, með uppgangi póstfemínisma, hefur ímynd húsmóðurinnar fengið glansblæ á samfélagsmiðlum – þar er er því lýst hvernig fjölskyldusamveru, vinnu, heimilisstörfum og jafnvel menntun er áreynslulaust flettað saman. Tímarnir hafa breyst og skólinn líka.

Hins vegar eru gildin sem kennd eru við skólann tímalaus og afar mikilvæg. Í grunninn snúast kennslustundirnar um grunnþörf mannsins fyrir næringu, skjól og stöðugleika – það sem allir þurfa til að dafna. Söguhetjan Hekla tekur þátt í þessu. Hún ólst upp við krefjandi aðstæður án raunverulegs heimilis. Fyrir hana verður þessi skóli líflína. Ferðalag hennar snýst um að losna úr stanslausri hringrás fíknarinnar og læra að treysta öðrum – og sjálfri sér.

Sköpunarferlið hófst með því að skapa persónur sem tilheyra þessum heimi. Þar sem Húsmæðraskólinn er heimavistarskóli, var nauðsynlegt að búa til fjölbreyttan hóp af persónum þar sem samskipti þeirra yrðu sannfærandi og náin. Skólinn er líka mjög góður vettvangur til að skoða fíkn – þetta er sjúkdómur sem er umkringdur fordómum, en líka sjúkdómur sem snertir óteljandi fjölskyldur, annað hvort beint eða óbeint.

Getið þið lýst rannsóknum ykkar og vinnuferli í kringum gerð og uppbyggingu þáttanna?

Við byrjuðum á því að taka viðtöl við fólk í okkar nánasta umhverfi til að fá persónulegar sögur – bæði frá þeim sem hafa barist við fíkn og frá ástvinum þeirra.

Við ráðfærðum okkur einnig við sérfræðinga í félagsþjónustu Reykjavíkur, þar á meðal starfsmann frá Barnavernd, en innsýn hans hafði mikil áhrif á handritið. Við vildum sýna kerfið nákvæmlega og hvernig það er samsett af einstaklingum sem gera sitt besta til að hjálpa þeim sem eru í viðkvæmri stöðu.

Frá upphafi sáum við fyrir okkur þáttaröðina sem 30 mínútna þætti – snið sem venjulega er tengt við gamanþætti. Þetta var veruleg áskorun: að skapa stóran hóp af persónum og efnismiklum þráðum í svo knappt form. Í eftirvinnslu þurftum við oft að klippa niður hliðarsögur til að halda okkur innan tímamarka, sem var sársaukafullt en nauðsynlegt. Þessi reynsla hefur kennt okkur margt fyrir komandi verkefni, jafnvel þótt þau verði í lengra formi.

Hver var útgangspunkturinn varðandi kvenpersónurnar?

Meginreglan var einföld: að segja sögur kvenna, frá sjónarhorni þeirra.

Þættirnir gerast í heimi þar sem konur taka frumkvæðið og við vildum lýsa sterku, samtengdu kvennasamfélagi. Okkur fannst líka mikilvægt að sýna konur af mismunandi kynslóðum.

Við fylgjumst til dæmis með Guðrúnu, 70 ára skólastjóra sem er að ljúka ferli sínum. Hún upplifir að hún sé utanveltu og skipti ekki máli. Hún er að láta af störfum og horfist í augu við líf heimavið með eiginmanni sínum, sem hún hefur lengi forðast með því að sökkva sér í vinnu. Svo erum við með Erlu, 55 ára, fyrrverandi tengdamóður Heklu, sem nú fer með forræði yfir dóttur Heklu. Ólíkt flestum á hennar aldri, sem njóta lífsins eftir að hafa komið upp sínum börnum, lendir hún í því að ala önn fyrir ungabarni á nýjan leik.

Hver var mesti lærdómurinn eða hvað kom mest á óvart í handritsskrifunum?

Flóknast var að samræma aðalsögu Heklu við hliðarsögur annarra persóna – inn í 30 mínútna sniðið. Ferðalag Heklu varð að vera burðarás þáttanna þar sem tilfinningatengsl áhorfenda við hana skiptu sköpum. Ef þessi tenging væri ekki sterk myndi serían ekki virka.

Þótt þættirnir sé drama, uppgötvuðum við líka mikilvægi húmors í að létta á spennu. Því sterkari sem dramatíkin var, því auðveldara var að koma með gamansöm augnablik. Húmorinn kom alltaf frá einlægum persónum sem tókust á við raunverulegar áskoranir, þannig gat hann virkað sannfærandi.

Tókuð þið þátt í leikaravali og klippiferlinu?

Við skrifuðum þáttaröðina í sameiningu og Arnór Pálmi leikstýrði henni. Á meðan Arnór stýrði leikaraferlinu unnum við náið saman til að tryggja að leikararnir myndu fanga kjarna persónanna sem við skrifuðum saman.

Í eftirvinnslu vann Arnór náið með klipparanum og Jóhanna fylgdist með og gerði athugasemdir eftir þörfum. Við vorum líka með rýnihóp sem samanstóð af konum og körlum á ýmsum aldri. Þetta fólk gaf endurgjöf um þættina sem við skoðuðum áður en við gerðum lokabreytingar.

Þegar þið lítið til baka: Hvers vegna gerðust þið handritshöfundar? Hafa draumar ykkar ræst hvað það varðar?

Jóhanna: Ég er með BA í leiklist og lauk MA í skapandi skrifum frá Háskóla Íslands fyrir sjö árum. Í náminu fór ég á handritanámskeið og það var opinberun. Ég varð heltekin af því að finna lykilinn að því hvernig ætti að skrifa gott handrit – mér leið eins og ég væri að leysa flókna þraut eða Sudoku. Ég hef starfað sem handritshöfundur undanfarin fimm ár, á Íslandi er það draumastaða.

Arnór: Ég byrjaði að gera stuttmyndir sem unglingur til að segja sögur og fór fljótlega að vinna í sjónvarpi. Eftir leikstjórnarnám áttaði ég mig á því að tækifæri til að leikstýra handritum eftir aðra voru takmörkuð, svo ég byrjaði að skrifa mín eigin – og hef ekki hætt síðan.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR