Sigurjón Sighvatsson um David Lynch: Hann var áhrifamesti kvikmyndaleikstjóri í heimi

Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi, segir David Lynch hafa verið áhrifamesta kvikmyndaleikstjóra í heimi. Þeir unnu saman, meðal annars að sjónvarpsþáttunum vinsælu Twin Peaks sem og kvikmyndinni Wild at Heart sem hlaut Gullpálmann í Cannes og voru góðir vinir. Lynch lést 15 janúar, 78 ára að aldri.

Segir á vef RÚV:

Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi, minnist vinar síns og samstarfsmanns Davids Lynch, með hlýhug. Lynch er látinn, 78 ára að aldri. Hann hafði þjáðst af lungnaþembu. Það mikilvægasta sem hann hafi gefið íslensku þjóðinni var kennsla í innhverfri íhugun.

Enga „bad vibes á mínu setti“

„Hann var náttúrulega ótrúlegur maður og í rauninni afar óvenjulegur kvikmyndaleikstjóri,“ segir Sigurjón Sighvatsson um leikstjórann og vin sinn til áratuga, David Lynch.

Sigurjón segir ímyndina af leikstjórum oft vera þá að þeir séu harðstjórar en Lynch hafi verið allt öðruvísi.

„Hann var ólíkur öllum öðrum leikstjórum sem ég hef nokkurn tímann unnið með. Og ég vann seinna með leikstjórum á þessum tíma sem voru kannski að verða þekktir, eins og David Fincher og Michael Bay. Hjá þeim var alltaf voða mikil spenna. En hjá David Lynch var aldrei nein spenna.“

Hann segir Lynch hafa viljað hafa afslappað andrúmsloft á tökustað.

„Ef það var einhver spenna, þá kom sá starfsmaður ekki næsta dag. Vegna þess að hann vildi, eins og hann kallaði það, enga „bad vibes á mínu setti“. Það skipti ekki máli hvort þú varst bara að hella kaffi, ef þú varst með einhver læti.“

Endurskilgreindi formið

Sigurjón segir marga kvikmyndagerðamenn hafa reynt að líkja eftir stíl Lynch, sem er svo einstakur að hann hefur fengið eigið orð, Lynchian.

„Það voru auðvitað margir að reyna að kópera hann af því að hann bjó til þennan ótrúlega stíl. Þannig að allar hans myndir hafa þessi ofboðslega sterku höfundareinkenni. Ef þú segir við einhvern í dag: „Þessi mynd er svolítið Lynchian“, þá þýðir það að frásagnarmátinn er ekki hefðbundinn, efnistökin eru öðruvísi og þú munt sjá eitthvað sem þú býst ekki við. Framvindan er ekki endilega lógísk því David trúði ekki á slíkt. Ég var nú að leita að þessari fyrirsögn: áhrifamesti kvikmyndaleikstjóri í heimi.“Hann segir dálítið sérstakt að kalla hann áhrifamesta leikstjóra í heimi því hann hafi ekki gert það margar myndir.

„Það er Steven Spielberg, það er Tarantino, það eru ýmsir aðrir. En það er sagt að hann hafi endurskilgreint formið.“

Lynch var brautryðjandi og við gerð sjónvarpsþáttanna vinsælu Twin Peaks, sem Sigurjón vann með honum að, kom eingöngu kvikmyndagerðarfólk að framleiðslunni. „Það kom enginn úr sjónvarpsheiminum, þú fékkst ekkert að gera seríur í sjónvarpinu, nema þú værir reyndur í þessu og hinu en David sagði bara: „Nei, þetta er mitt fólk og ég geri þetta ekki nema Fred Elmes taki þetta“.“

Trúr sínum hugsjónum

Kvikmyndir voru ekki eina listgreinin sem Lynch unni. Hann fékkst við myndlist, samdi tónlist, tók þátt í mótun hljóðhönnunar í nokkrum kvikmynda sinna og hannaði húsgögn.

„Af því að hann lærði í myndlistaskóla, þá var hann alltaf líka að mála. Hann var að teikna, hann var að taka ljósmyndir. Þess vegna gerði hann kannski ekki svo margar myndir. Af því að honum fannst enginn miðill endilega æðri eða óæðri en aðrir.“

Sigurjón segir hann líka alltaf hafa verið sinn eiginn herra. Hann rifjar upp þegar Lynch stóð í skilnaði og vantaði pening.

„David hringdi í mig og sagði: Jonni, ertu ekki með einhverja mynd handa mér? Mig bara vantar pening.“ Ég sagði: „Hvað meinar þú, áttu ekki pening?“ „Ja, þetta er nú allt svo afstætt með peninga en ég þarf að borga mikla peninga á næstu mánuðum“.“

„Ég sagði við hann: David minn, það er búið að samþykkja að borga þér fimm milljónir dollara og þú mátt hafa hvaða leikara sem er svo framarlega sem myndin er ekki lengri en 120 og ekki bönnuð innan 18. Þá máttu gera hvað sem þú vilt.“ „Veistu það Jonni, ég treysti ekki þessu stúdíói. Ég get ekki gert myndina vitandi það að það er eitthvað stórfyrirtæki sem getur gripið inn í“.“

Hann hafi verið trúr sínum hugsjónum þó að hann hafi verið blankur.

„Þó að hann þyrfti pening, þá engu að síður sagði hann „ég veit það en ég get ekki gert þessa mynd. Trúr sínum hugsjónum algjörlega.“

Gaf 30 milljónir svo Íslendingar gætu lært innhverfa íhugun

Lynch kom til Íslands 2009 til að kynna sitt helsta hugðarefni á síðari árum, innhverfa íhugun. Hugleiðslutækni sem á rætur sínar að rekja til Indlands. Sigurjón segir að honum hafi verið mikið í mun að gera eitthvað fyrir Íslendinga eftir bankahrunið.

„Við héldum fund í Háskólabíói, það komu fleiri þúsund manns. Það sem var ekki síst áhugavert þar var hve mikið af ungu fólki kom með VHS-kasettur sem voru með Twin Peaks á og báðu hann að árita.“

Í kjölfarið af þessari heimsókn Lynch hafi stofnun í hans nafni, David Lynch Foundation sem kennir innhverfa íhugun, gefið 200 þúsund dollara til íslensku þjóðarinnar. Það er í dag jafnvirði um þrjátíu milljóna króna.

„Við réðum sex kennara og kenndum innhverfa íhugun eiginlega frítt í fimm eða sex ár.“

Sigurjón telur að allt að tvö þúsund manns hafi fengið kennslu í innhverfri íhugun á þessum tíma. „Að kunna innhverfa íhugun er eins og að læra á hjól, þú getur alltaf gripið til þess.“

Sumir sem fengu þessa kennslu hafi verið illa staddir, jafnvel í fangelsi eða neyslu. „Þau segja enn þann dag í dag: innhverf íhugun bjargaði lífi mínu.“

Einn af þessum risum

Sigurjón segir Lynch hafa orðið mjög einrænan seinni árin. Þeir hafi reglulega hist í kaffi á heimili Lynch í Hollywood-hæðunum í Los Angeles og síðustu ár hafi þeir talað meira um innhverfa íhugun en kvikmyndir. Það hafi verið áhugamál þeirra tveggja.

„Það voru ekki margir sem fengu í raun að heimsækja David. Ég fór til hans kannski annan hvern mánuð og við ræddum saman. Það voru engin smá forréttindi því hann var einn af þessum risum en var svo ólíkur öllum öðrum.“

Sigurjón segir það hafa tekið hann langan tíma að fá viðurkenningu í listheiminum og það hafi tekið á hann. Hann hafi ekki þótt nógu raunverulegur og þjáður listamaður, heldur bara kvikmyndagerðarmaður sem var bara að leika sér að mála og taka ljósmyndir.

„Ég á til dæmis mynd eftir hann sem hann gaf mér eftir Wild at Heart. Þetta er einn af mínum dýrgripum í lífinu.“

Sigurjón hefur unnið með mörgum leikstjórum en segir Lynch hafa verið alveg einstakan. Það að hann hafi unnið í öllum miðlum sé ástæðan fyrir því að ungt fólk þekki hann vel, jafnvel betur en stærri leikstjóra.

„Hann hafði þetta ofboðslega víða svið, sem var svo einstakt, og þennan sérstaka persónuleika.

Merkilegast sé þó framlag hans sem innhverf íhugun.

„Hann gaf okkur næstum því 30 milljónir til þess að Íslendingar gætu náð andlegri heilsu eftir hrunið.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR