Variety skýrir frá og segir meðal annars að myndinni verði leikstýrt af þekktum suður-afrískum hæfileikamanni, Kagiso Lediga eftir handriti Karabo Lediga, en bæði unnu fyrstu þáttaröðina frá Afríku sem sýnd var á Netflix, Queen Sono.
Stúlkan sem bjargaði konungi Svíþjóðar er önnur kvikmyndin sem Sigurjón framleiðir eftir bókum Jonas Jonasson, en áður var hann einn framleiðenda myndarinnar Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf sem kom út fyrir nokkrum árum og gekk vel á alþjóðavísu.
Stúlkan sem bjargaði konungi Svíþjóðar segir af Nombeko Mayeki, „ungri konu frá Soweto sem lendir í alþjóðlegum hvirfilvindi allt frá Suður-Afríku til Svíþjóðar,“ segir í lýsingu. „Hún er kvenhetja sem fæddist í fátækrahverfum Suður-Afríku og rís upp úr myrkrinu til að verða lykilmanneskja í alþjóðlegu kjarnorkusamsæri, bjargar fyrir slysni sænska konungsveldinu og afstýrir alþjóðlegum hörmungum með skarpri útsjónarsemi sinni.“