Á vef RÚV segir:
Ágústa Ólafsdóttir og Björg Magnúsdóttir tóku að sér það vandasama verk að koma uppvexti, mótunaröflum og hugsjónum Vigdísar Finnbogadóttur í handritaform fyrir leiknu þáttaröðina Vigdísi. Þetta er fyrsta handritið sem Ágústa tekur þátt í að skrifa en hún hefur komið að framleiðslu þó nokkurra kvikmynda og sjónvarpsþátta. Björg Magnúsdóttir tók þátt í skrifum fyrir fyrstu seríu af Ráðherranum og skrifaði Systrabönd ásamt öðrum.
„Það er ein svona manneskja á hverri öld“
„Þetta er draumaverkefni fyrir þá sem sem hafa áhuga á handritagerð og að segja góðar sögur,“ segir Björg. Þær Ágústa voru sammála um að þær væru að skrifa sögu virkilega einstakrar persónu í mannkynssögunni. „Það er ein svona manneskja á öld, ef lítil þjóð eins og Íslendingar ná því. Það vita allir hvað hún hefur afrekað, það að vera fyrsti lýðræðiskjörni kvenmaður í heiminum, það er stóra mómentið hennar.“
Verður enn áhugaverðari í ljósi þess mótlætis sem hún mætti
Sem handritshöfundar lögðu þær áherslu á að segja frá hindrunum í vegi þessarar konu, sem hún hefur yfirstigið til að ná þangað sem hún náði. Ekki bara sigrum. „Okkur fannst það rosalega mikilvægt, líka til að fólk viti að hún fæddist ekki sem fullmótaður leiðtogi heldur þurfti hún að ganga í gegnum alls konar á leiðinni. Það er hvernig hún tekst á við áskoranirnar sem gerir hana að þeim leiðtoga sem hún síðar verður. Það gerir hana mun mannlegri.“
Björg tekur undir. „Mér finnst þetta eiginlega það sem gerir hana hvað áhugaverðasta. Glansmyndin er eitt en að fá að kíkja bak við og fara í kjarnann, hver ertu sem manneskja, hvernig heldurðu áfram og fúnkerar? Mér fannst hún verða hundrað sinnum áhugaverðari þegar við náðum að kafa ofan í mótlætið, áskoranirnar.“

Dramasería en ekki heimildarþættir
Til þess að komast á dýptina og kynnast Vigdísi og ævi hennar fóru þær í mikla heimildarvinnu. Þær lásu ævisögu Páls Valssonar um Vigdísi og ævisögur annars fólks sem segir frá því tímabili sem þættirnir fjalla um. „Tímarit.is er gullin heimasíða, þar getur maður farið í hvert tímabil fyrir sig, lesið dagblöð og fréttir af því sem er að gerast í þjóðfélaginu svo maður geti svona reynt að finna hvert sögusviðið er. Hvar er þessi kona,“ segir Ágústa.
Björg tekur undir og segir að það séu til fjölmargar leiðir til að segja söguna. Ágústa bætir við að þótt þær hafi farið í heimildarvinnuna verði að vera ljóst að þættirnir séu dramasería, ekki heimildarþættir. Þær reyni að greina skilmerkilega frá sögu Vigdísar en stundum hafi þær blandað saman aukapersónum.
Bjartsýn og framsýn
Heimsbyggðin þekkir Vigdísi sem sterka konu og frumkvöðul sem átti ekki langt að sækja baráttuviljann. Hún hafði nefnilega sterkar kvenfyrirmyndir í kringum sig. Móðir hennar, Ásta Sigríður Eiríksdóttir, var hjúkrunarfræðingur og hugsjónakona og amma Vigdísar, Vilborg Guðnadóttir, fór sínar eigin leiðir. En Vigdís mætti víða mótlæti og þá kom sér vel að hún býr yfir mikilli þrautsegju og gefst ekki upp. „Það er svo gaman með hana líka að hún er alltaf bjartsýn og ótrúlega framsýn. Það er eiginleiki sem mér finnst svo gaman að koma til skila,“ segir Ágústa.
„Hún er alltaf til í að hlusta á aðrar skoðanir, ný viðhorf, skrifaði miða og setti á spegilinn þegar hún var fertug sem var: allar skoðanir skal endusrskoða þegar ný viðhorf myndast. Og þetta er frábær eiginleiki að hafa og það held ég að sé partur af því sem gerir þetta, að hún nær kjöri og fer þessa leið.“