Hér eru nokkur dæmi af Facebook síðum viðkomandi:
Ragnar Bragason, leikstjóri:
David Lynch, einn merkilegasti listamaður síðustu 100 ára og áhugaverðasti kvikmyndahöfundur amerískrar kvikmyndasögu, er fallinn frá.
Ég, eins og margir, á honum margt og mikið að þakka. Wild At Heart í Háskólabíó jólavikan 1990. Fjórum sinnum fór ég og dró misáhugasama vini með, sem ég trúði að yrðu fyrir jafn stórri trúarlegri upplifun og ég hafði orðið fyrir. Fljótlega sementaðist og harðnaði sú hugmynd að verða kvikmyndahöfundur. Eftir það kom ekkert annað til greina. Hann skilur eftir einstakt höfundarverk sem mun lifa um ómunatíð. Far vel meistari Lynch. Takk fyrir þitt ómetanlega framlag, þú gerðir heiminn mun áhugaverðari.
Skarphéðinn Guðmundsson, fyrrum dagskrárstjóri RÚV:
Hann breytti öllu.
Ruddi nýjar brautir sem leiddu mann út í hreint dýrðlega óvissuferð.
The Elephant Man sá maður fyrst og þá sem óharðnaður bíókrakki, ómeðvitaður um hver hann væri og hvaðan hann kæmi þessi sem gerði hana. Eitt var á hreinu allt frá þessum fyrstu kynnum að myndir hans eru ólíkar öllum öðrum. Í sérflokki.
Maður finnur enn fyrir tælandi ónotum sem Blue Velvet framkölluðu, Wild at Heart var það allra trylltasta og um leið svalasta sem maður hafði þar til þá séð á hvíta tjaldinu og Twin Peaks lagði nýjar línur, setti ný viðmið, fyrir leikið sjónvarpsefni. Og við það opnaði Lynch, tryggilega studdur af Sigurjóni okkar Sighvatssyni, upp á gátt dyr sjónvarpsins fyrir alvöru kvikmyndahöfundum sem gjörbreytti viðhorfi gagnrýnenda, menningarelítu og almennings til sjónvarpsefnis, vonandi til frambúðar. Fyrir það eitt og sér kunnum við sjónvarpsmegin í tilverunni honum ævarandi þakkir.
Mitt uppáhald er þó Mulholland Drive. Kannski meira vegna óvenju persónulegrar tengingar. Ég sem sé var svo lánsamur að sjá hana á heimsfrumsýningu í Cannes sem ljónheppinn bíóblaðamaður Mogga gamla árið 2001. Viðurkenni fúslega að hafa paníkað um miðbik myndarinnar þegar ég missti gjörsamlega þráðinn og náði aldrei taki á honum aftur fyrir hin óvæntu og óræðu endalok. Sem var svo sem ekkert óvenjulegt þegar myndir hans áttu í hlut en sínu verra þegar maður var meðvitaður um að eiga skömmu síðar að fá að taka einkaviðtal við meistarann – um myndina. En það reddaðist. Vonandi. Ef svo þá var það klárlega þökk sé því hversu afburðar séntilmaður hann var, kurteis og gefandi. En engan veginn á þennan yfirborðskennda hátt sem of margir kollegar hans höfðu tileinkað sér, sumpart skiljanlega, við svona krefjandi aðstæður eins og kvikmyndahátíðar geta haft í för með sér.
En það var eins með þessa mynd og flestar af hans bestu. Þær eru svo margræðar og marglaga. Krefjast meiri athygli og umhugsunar en gengur og gerist. Ítrekaðra áhorfs. Og það gerðis blessunarlega í Háskólabíói nokkrum mánuðum síðar að ég taldi mig hafa ráðið gátuna um örlög hinnar ungu bláeygðu Betty Elms, hvar lykilinn að lausninni var að finna í La-La landinu bláa. En svo kann vel að vera að ég hafi haft kolrangt fyrir mér og gjörsamlega misskilið plottið.
„Sjáðu til. Þetta eru ekki mínar hugmyndir. Þær koma annars staðar frá. Og ég er alltaf að finna það betur og betur á mér. Ég held að allar hugmyndir séu einhvers staðar til og komi síðan til okkar. Má vera að ég sé uppfullur af hugmyndum en þá hlýt ég að vera lánsamur maður því ég fæ þær allar á silfurfati að gjöf.“ – David Lynch , Cannes í maí 2001.
Lánið var okkar meistari Lynch að fá verk þín og hugvit á silfurfati.
Ásgrímur Sverrisson, ritstjóri Klapptrés:
Lynch has left the building. Einn af þeim allra merkustu og bestu, sá merkasti í amerískum kvikmyndum. Þrátt fyrir allt var þeim einhvernveginn borgið þegar hans naut við, því þegar upp er staðið eru ljóðskáldin merkilegust. Þessi góðu. Hann var eitt þeirra. The Elephant Man, Blue Velvet, Twin Peaks, Wild at Heart, Mulholland Drive. Jafnvel Dune hans, sem manni þótti stórskrýtin en samt svo áhugaverð á sínum tíma að andrúmsloftið situr enn með manni. Í myndunum hans tókust á skarpar andstæður myrkurs og grimmdar annarsvegar, vonar og seiglu hinsvegar. En það er í sjálfu sér ekki aðalatriðið, heldur hvernig þessi öfl tókust á í verkum hans. Þúsund þakkir fyrir myndirnar David Lynch.
Þórir Snær Sigurjónsson, framleiðandi:
RIP David Lynch. One of the great ones and the nicest man. Pic is my father and David in Iceland 2009. Damn good hair those two. Also they did „Wild at Heart“