spot_img

Aldrei þvælst fyrir Dunu að vilja vera of kurteis, kafli úr bókinni DUNA-SAGA KVIKMYNDAGERÐARKONU

Hér er stuttur kafli úr bókinni Duna - saga kvikmyndagerðarkonu eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur og Guðrúnu Elsu Bragadóttur.

Í bókinni segir Guðný Halldórsdóttir (Duna) frá ævi og starfi, allt frá æskuminningum fram til dagsins í dag. Í kaflabrotinu sem hér birtist er fjallað um tímabilið þegar framleiðsla íslenskra kvikmynda kemst á skrið á fyrri hluta níunda áratugsins, hvernig sá heimur kom Dunu fyrir sjónir og hvernig hún stofnaði kvikmyndafélagið Umba ásamt fleirum árið 1983. Hún hafði á þessum tímapunkti verið þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð í um áratug.

Birt með leyfi útgefanda, Forlagsins.

„Það hefur aldrei þvælst fyrir Dunu að vilja vera of kurteis“

Það er auðvelt að gleyma því í dag hversu óvenjulegt það var að nokkrar kvikmyndagerðarkonur skyldu taka sig saman árið 1983 um að stofna framleiðslufyrirtæki og gera kvikmynd þar sem konur leikstýrðu, framleiddu og skrifuðu handrit. Kona sem vildi leggja fyrir sig kvikmyndagerð á Íslandi við upphaf níunda áratugarins hafði ekki beinlínis fjölskrúðugar fyrirmyndir. Að vísu störfuðu margar konur sem til dæmis skriftur, við búninga og förðun en konur í hlutverki leikstjóra og handritshöfunda í íslenskri kvikmyndasögu mátti telja á mjög fáum fingrum annarrar handar. Fyrsta kvikmynd í fullri lengd sem leikstýrt var af konu á Íslandi var Sóley eftir Rósku, sem kom ekki út fyrr en 1982, aðeins ári áður en Kvikmyndafélagið Umbi var stofnað.

Það var ekki síður þýðingarmikið að konur tækju sig saman og legðu í sjálfa framleiðsluna. Duna hefur bent á að karlar séu oft áhættusæknari en konur, tilbúnari til að leggja allt undir. Það er þekkt mynstur í atvinnurekstri að konur byrja gjarnan smærra og eru tregari til að leggja heimilið að veði fyrir fyrirtækið, auk þess sem þær eiga oft minni eignir til að veðsetja. Þetta skiptir máli í jafn dýrum bransa og kvikmyndagerð er, ekki síst á árum áður þegar kvikmyndagerðarmenn þurftu einmitt að leggja eigur sínar og annarra að veði fyrir hverja kvikmynd.

„Þetta var náttúrlega algjör karlaveröld þegar ég byrjaði,“ segir Duna. „Kristín Jóhannesdóttir var að gera myndir og svo fóru stelpur sem höfðu verið að vinna með mér í Sjónvarpinu til Ameríku og lærðu pródúksjón. Þær enda voðalega oft í pródúksjón eða einhvern veginn í öðru en leikstjórn. Þetta var eins og að verða vörubílstjóri, það var ekki gert ráð fyrir kvenfólki í þetta fag í hræðilega mörg ár. Það var ekki gert ráð fyrir að maður þyrfti að míga einu sinni. Þeir bara stóðu þarna og migu en við stelpurnar vorum hlaupandi að finna stein eða tvær að skýla, af því að manni er ekki mál ef maður veit aðþað eru ellefu strákar að horfa á mann. Ég man að einu sinni vorum við að gera mynd á Siglufirði. Við áttum frídag og leigðum okkur bát, nokkrir strákar og ég, og sigldum í Héðinsfjörð. Þá voru göngin ekki komin. Mér var mál að pissa á leiðinni, þetta var dálítið löng sigling. Strákarnir migu út fyrir stokkinn og ég sagði: „Ég þarf líka að pissa eins og þið.“ Þá var það svoleiðis að þeir horfðu allir á bakið á skipstjóranum og ég pissaði í einhverja málningardollu og enginn mátti snúa sér við.“

Við ræðum líka um stöðu kvenna í íslenskri kvikmyndagerð við Göggu, systurdóttur Dunu, sem sjálf fór út í kvikmyndagerð um aldamótin 2000. Hún talar um það hvernig kona geti þurft að „verða ein af strákunum“ í slíku umhverfi, að treysta á sínar hrjúfari hliðar. „Duna er kannski svona buxnatýpa og Þórhildur Þorleifsdóttir er það til dæmis líka, en ég held að það hafi ekki verið hægt að vera neitt annað á þessum tímapunkti,“ segir hún. „Það liggur við að þær hafi þurft að vera með skegg í stígvélum. Það var ekkert annað í boði, áttu þær að koma í bleikri kasmírpeysu og vera að hugga sig þarna? Það sem kemur fólki á óvart með Dunu er að hún hefur svo blíða hlið, sem hún hefði kannski þróað meira í annarri veröld.“

Þrátt fyrir allan sinn töffaraskap lenti Duna oft í umönnunarhlutverki í vinnu sinni við kvikmyndir, hvort sem það var að halda utan um gamla fólkið í Paradísarheimt, sem var að koma í fyrsta sinn til útlanda, eða sjá um krakkaskarann sem lék í Punktur punktur komma strik. „Þar þótti bara eðlilegt, af því að ég var kona, að ég passaði alla krakkana,“ segir hún, „og að aðalleikarinn, sem var sjö ára, gisti hjá mér þegar við vorum uppi í Borgarfirði, ég setti hann í rúmið á kvöldin og sæi alfarið um hann. Ég meina, Sigurður Sverrir gat ekkert verið að dúlla með litlu leikurunum á kvöldin. Hann var bara of langur í það.“

Síðar var farið að tala opinberlega um þá kynferðislegu áreitni og jafnvel ofbeldi sem var líka hluti af reynslu kvikmyndagerðarkvenna í karlaveröld. Duna segir okkur til dæmis að við gerð Paradísarheimtar hafi sumir Þjóðverjanna átt það til að vera ágengir við ungu konurnar í tökuliðinu. Þá hafi þær gripið til þess ráðs að setjast í kjöltuna á Þórði sleggju, Þórði B. Sigurðssyni, sem lék Björn á Leirum. Hann var stór og mikill maður og í fanginu á honum voru þær látnar í friði. „Það var oft erfitt að vera ung kona þar sem var mikið af karlmönnum sem voru burtu frá fjölskyldum sínum. Þá þurfti maður svolítið að passa sig á að þeir nýttu sér ekki vanmátt manns. En að vera með góðan kjaft, það getur bjargað miklu.“

Eftir að konurnar í Föstudagsklúbbi síðdegiskvenna stofnuðu Umba lentu þær stundum í klassískri togstreitu skapandi kvenna, sem eru meðvitaðar um að þær komast ekki út úr stöðu sinni sem konur og taka markvisst höndum saman til að sýna að þær standi jafnfætis körlunum en vilja þó ekki láta dæma verk sín fyrst og fremst út frá kyni sínu. Samkvæmt viðtali sem blaðamaður Tímans tók við þær sumarið 1983 kölluðu sumir kollegar þeirra Skilaboð til Söndru „stelpumyndina“. Þær kipptu sér ekki upp við það og sögðu að í þeirra hópi næði ávarpið „stelpur“ yfir alla forvígismenn myndarinnar, þar á meðal Árna Þórarinsson. Ef til vill lýsir það nálguninni í starfi Umba; karlmenn voru ekki útilokaðir, eins og þeir voru að mestu hjá Sally Potter í The Gold Diggers, en þeir voru aftur á móti ekki viðmiðið, sem var í sjálfu sér róttækt í íslenskri kvikmyndagerð þessa tíma – að karlmaður væri „einn af stelpunum“ en ekki kona „ein af strákunum“.

Að öðru leyti var Skilaboð til Söndru ekki augljós „stelpumynd“, enda segir Kristín Pálsdóttir að hún hafi alltaf búist við að fá þá spurningu af hverju þær væru eiginlega að gera mynd um miðaldra karl í tilvistarkreppu. „En við vorum þannig staddar að við vildum ekki skilgreina okkur endilega sem konur: „Við erum ekki að fara að gera mynd sem bara konur geta gert, við erum kvikmyndagerðarmenn skástrik konur.“ Án þess að maður hafi nokkuð á móti því að konur fjalli um efni sem standa þeim nær en Bessi Bjarnason í midlife crisis.“ Þegar Umbi gerði Stellu í orlofi voru Duna og Þórhildur Þorleifsdóttir spurðar að því í viðtali hvers konar húmor konur hefðu en svipaðar spurningar höfðu höfundar „kvennaskaupsins“ fengið tveimur árum fyrr.

„Húmor er ekki kynbundinn og konur eru ekkert öðruvísi en karlar að þessu leyti nema ef vera skyldi að þær hafi meiri húmor fyrir körlum og þeirra afsprengjum,“ svaraði Duna. „En konur hafa sig minna í frammi með sitt grín.“ Svo bætti hún við: „Og nú kemur líklega spurningin um hvort þetta sé kvennamynd … Æ, ég er orðin svo leið á henni. Ástæðan fyrir því að svo margar konur koma við sögu í Stellu í orlofi er ekki eitthvert systralag. Mér finnst sú umræða orðin dálítið gömul. Ég er bara manneskja sem langar að starfa í mínu fagi og með færu fólki. Það er tilviljun að sumt af því er konur.“

Níundi áratugurinn var tími öflugrar kvennabaráttu á Íslandi. Rauðsokkahreyfingin hafði sett mark sitt á áttunda áratuginn og meðal annars barist fyrir launajafnrétti kynjanna og frjálsari löggjöf um þungunarrof en eftir 1980 færðist baráttan inn á vettvang flokkastjórnmálanna. Kvennaframboð voru stofnuð og buðu fram til bæjarstjórnar í Reykjavík og á Akureyri árið 1982 og ári síðar, sama ár og Kvikmyndafélagið Umbi varð til, var Kvennalistinn stofnaður. Framboð Kvennalistans til Alþingis árið 1983 hristi rækilega upp í pólitískum veruleika á Íslandi og konum á þingi fjölgaði úr þremur í níu.

Duna tók ekki beinan þátt í þessari starfsemi en það gerðu vinkonur hennar og samstarfskonur, eins og Edda Björgvinsdóttir sem var meðal stofnenda Kvennaframboðsins í Reykjavík og Þórhildur Þorleifsdóttir sem settist á þing fyrir Kvennalistann árið 1987.

„Það sem við í Kvennaframboðinu vorum að gera var að gangast við því að við værum minnihlutahópur, við fengjum minna,“ segir Edda. „Kakan var skorin 80/20 og við fengum 20. Það þyrfti byltingu til þess að breyta því. En það voru margar konur sem voru ekki tilbúnar til að skrifa undir það, af því að það er að viðurkenna vanmátt sinn.“

Duna hefur sagt frá því síðar að framan af hafi hún ekki velt því mikið fyrir sér að hún væri sett í annan flokk en karlarnir í bransanum. Hún hafi ekki verið vön öðru úr æsku en að vera jafnoki strákanna og frá því um 1970 hafi verið svo mikill kraftur í kvennabaráttunni að allt virtist stefna í rétta átt. Það hafi ekki verið fyrr en seinna sem hún áttaði sig á því hversu vitlaust væri gefið. „Verðum við ekki allar þessi týpa á einhverjum tímapunkti þegar við erum ungar,“ veltir Gagga frænka hennar fyrir sér. „„Það skiptir ekki máli hvort ég er kona eða maður.“ En svo skiptir það öllu máli þannig lagað, í stóra samhenginu.“

Edda Björgvinsdóttir segir að Duna hafi ekki alveg náð því fyrst þegar konurnar í kvennaframboðunum töluðu um hvað það væri erfitt fyrir konur að hasla sér völl í listalífinu, þar sem karlar réðu öllu. „Af því að hún frekjaðist áfram og þorði að gera og segja hluti sem aðrir þorðu ekki. Duna hefur einhvern veginn aldrei lotið kallasleikjulögmálinu, sem hefur oft reynst svovel til að það sé hlustað á konur. Þá verða þær að fara kallasleikjuleiðina og hampa þeim til að geta tekið sér völd. Það er sorglegt en það er tilfellið. Duna þorði að vera hortug strax í upphafi, hún var svo sjálfstæð og var alveg sama hvort þeim líkaði við hana, og hún komst upp með allt af því að hún var svo óvenjulega fyndin og orðheppin. Þótt hún sem manneskja sé kurteis og vel upp alin kona, mikill heimsborgari og háttvís í eðli sínu, þá hefur hún alltaf verið mikil uppreisnarkona í sínu lífi og sínu fagi. Hún hefur alltaf þorað að lita út fyrir, mér finnst það svo góð lýsing. Alltaf þorað að segja: „Hvaða djöfulsins vitleysa er þetta?“ Það er dálítið sérstakt. Því við viljum svo mikið vera kurteisar. Það hefur aldrei þvælst fyrir Dunu að vilja vera of kurteis. Og þar með fórna tækifærum.“

Löngu seinna lenti Dóri sonur Dunu í einhverju rifrildi við sér eldri menn sem vildu fara að blanda móður hans í málið. Þá sagði pabbi hans við hann til skýringar: „Karlmenn af þessari kynslóð eru alltaf svo hræddir við mömmu þína.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR