spot_img

Undirskriftalisti með áskorun til þingmanna sé tillaga um neyðaraðgerð til handa íslenskri kvikmyndagerð

Fólkið í kvikmyndagreininni hefur á undanförnum dögum sett nöfn sín á undirskriftalista þar sem skorað er á Alþingi að afstýra enn einum niðurskurði Kvikmyndasjóðs með því að færa hluta af endurgreiðsluheimild næsta árs til Kvikmyndasjóðs. Gert er ráð fyrir að Alþingi afgreiði fjárlög í næstu viku. 

Þegar þetta er skrifað hafa hátt í 600 manns skrifað undir og því ljóst að stærstur hluti kvikmyndabransans telur stöðuna grafalvarlega.

Áskorunin tillaga um neyðaraðgerð

Í bréfi til félagsmanna í dag segir Hrönn Sveinsdóttir formaður stjórnar Samtaka kvikmyndaleikstjóra (SKL), að áskorunin feli í sér tillögu um neyðaraðgerð til að halda uppi kvikmyndaframleiðslu í landinu, að nýta fé sem búið er að gera ráð fyrir í fjárlögum og færa það strax yfir í kvikmyndasjóð. Um leið sé kallað eftir frekari aðgerðum svo hægt verði að byggja upp sjóðinn til framtíðar þannig að svona (niðurskurðarferli) endurtaki sig ekki.

Hrönn segir ennfremur:

Þessi undirskriftarlisti er heldur ekki einhver stríðsyfirlýsing gegn endurgreiðslunni sem við viljum hafa áfram – þessi aðgerð skaðar ekki endurgreiðsluna – og við viljum finna leiðir til að fjármagna sterkan kvikmyndasjóð þrátt fyrir að mikið fé renni á hverju ári gegnum endurgreiðsluna. Þetta ætlum við að halda fund um með stjórnvöldum um leið og það er komin ný ríkisstjórn.

Stjórnmálafólk leggi Kvikmyndasjóð og endurgreiðslu að jöfnu sem „framlög til kvikmyndagerðar“

Hrönn bendir einnig á að forsvarsmenn fagfélaga kvikmyndagerðarinnar finni mjög fyrir því viðhorfi hjá stjórnmálafólki að leggja að jöfnu framlag til Kvikmyndasjóðs og fjárheimildir til endurgreiðslunnar, þetta sé „allt saman talið fram sem „stuðningur við kvikmyndagerð“ og langflestir gera ekki á þessu greinarmun.“

Munurinn á Kvikmyndasjóði og endurgreiðslu

Í þessu sambandi er rétt að benda á muninn á Kvikmyndasjóði og endurgreiðslunni.

Úr Kvikmyndasjóði koma frumframlög til flestra íslenskra bíómynda, þáttaraða og heimildamynda. Framlag úr Kvikmyndasjóði er forsenda þess að hægt sé að leita frekari fjármögnunar, til dæmis hjá erlendum sjóðum í gegnum samframleiðslu og í gegnum endurgreiðsluna. Það er því í flestum tilvikum forsenda þess að verkið geti orðið að veruleika.

Endurgreiðslan kemur ekki til fyrr en búið er að fjármagna verkið og klára það – þetta er endurgreiðsla á kostnaði sem þegar hefur verið greiddur. Þetta er stjórnvaldsaðgerð til að hvetja til fjárfestingar í kvikmyndagerð. Björn B. Björnsson lýsir þessu hér sem „tekjuöflunarkerfi fyrir ríkissjóð en ekki stuðning við íslenska kvikmyndagerð. Ríkið metur það svo að umtalsverður kostnaður við það kerfi sé töluvert minni en tekjurnar sem það skilar.“

Hvernig verndum við okkar innlendu kvikmyndagerð þegar allt fjármagnið sogast að sjálfkrafa endurgreiðslunni?

Hrönn skrifar einnig um þær stóru spurningar sem mörg lönd í Evrópu standi frammi fyrir varðandi fjármögnun kvikmyndagerðar:

Gísli Snær Erlingsson forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar er nýkominn af ráðstefnu kvikmyndamiðstöðva þar sem heill dagur var lagður undir umræður um það hvernig átómatískt styrkjakerfi (endurgreiðslur) sýgur til sín allt fjármagn úr selektífa kerfinu (kvikmyndasjóðir). Þetta er orðið vandamál um alla Evrópu þar sem átómatíska kerfið er byggt á vilyrðum ríkissjóðs og ekki hægt að lækka þær upphæðir en kvikmyndasjóð er hægt að lækka að vild eftir stemmningunni í fjárlögum hvers tíma svo þið getið ímyndað ykkur hvert trendið er. Þetta eru stórar spurningar sem mörg lönd standa frammi fyrir. Hvernig verndum við okkar innlendu kvikmyndagerð þegar allt fjármagnið sogast að sjálfkrafa endurgreiðslunni?
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR