Morgunblaðið um MISSI: Litadýrðin fylgir ástinni

"Falleg og tilraunakennd kvikmynd sem dregur fram áhrif missis og minninga með sterku sjónrænu táknmáli og fínstilltum leik Þorsteins Gunnarssonar," skrifar Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í Morgunblaðið um Missi eftir Ara Alexander Ergis Magnússon.

Jóna Gréta skrifar:

Kvikmyndin Missir er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Guðberg Bergsson og fjallar um mann (Þorsteinn Gunnarsson) sem nýlega hefur misst eiginkonu sína (Guðrún Gísladóttir). Endurspeglar titillinn þannig á beinan hátt meginþema myndarinnar. Myndin fylgir að mestu hinum þögla syrgjandi ekkli sem situr einn í gamaldags íbúð í Vesturbænum og rifjar upp gamla tíma. Leikur Þorsteins er óvenjulegur að því leyti að hann talar næstum ekkert alla myndina en tekst samt á áhrifaríkan hátt að miðla tilfinningalegri dýpt persónunnar. Með líkamstjáningu og svipbrigðum nær Þorsteinn að færa áhorfendur nær innra lífi persónunnar þrátt fyrir orðfæðina.

Kvikmyndatakan, sem Bergsteinn Björgúlfsson stjórnaði, er einnig mjög athyglisverð og tilraunakennd. Mismunandi litgreining og hlutföll, þ.e. hæð og breidd ramma eins og þeir birtast á kvikmyndatjaldinu, draga fram andstæður á milli draumaheims og raunveruleika. Nútímaatriðin eru tekin upp í sjónvarpshlutfallinu 1,33:1, sem undirstrikar hversu þröngur og gráleitur heimur mannsins er orðinn eftir missi eiginkonunnar. Þegar drauma- eða endurlitsatriðin birtast, þar sem hann hittir konuna sína í minningum, breytist hlutfallsstærðin í breiðtjaldshlutfall og myndirnar verða bæði litríkari og hlýrri. Þessar sjónrænu andstæður virka mjög vel til að draga fram skýran mun á lífi hans með konunni og einmana tilveru hans eftir að hún er farin. Mörg skotin eru mjög vel uppstillt og gætu staðið ein og sér sem listrænar ljósmyndir. Leikmyndin, sem Helga I. Stefánsdóttir hannaði, og fallegir tökustaðir hjálpa án efa til við það en myndin virkaði næstum tímalaus þar sem allt í myndheildinni (f. mise-en-scène), þ.e. allt sem sést í rammanum, virtist tilheyra annarri öld og því fylgdi einhver sjarmi.

Handritið er hins vegar að mörgu leyti óspennandi og oft virðist sem fátt gerist annað en kyrrlát sorgarvinna manns. Á einum tímapunkti ákveður hann að hræra ösku eiginkonunnar saman við heitt vatn og drekka það og kemst þannig inn í draumaheiminn þar sem hann fær aftur að hitta konuna sína. Til að gera þessa breytingu skýra er hlutfallsstærðinni og litgreiningunni breytt eins og áður hefur komið fram. Sigurður Sigurjónsson leikur glaðværan nágranna mannsins og er það ánægjuleg tilbreyting sem bætir léttleika við annars þunglamalega og rólega frásögn. Samband þeirra tveggja er eitt af skemmtilegustu atriðum myndarinnar, þar sem vináttan birtist í smáum en heillandi atriðum. Eitt atriði stendur sérstaklega upp úr, þ.e. þegar eiginkona nágrannans deyr og hann leitar til mannsins af því að hann á engan annan að. Maðurinn horfir undrandi á hann þar sem hann hefur ekki orðin til að hugga hann en nágranninn segir þá einfaldlega að hann þurfi aðeins einhvern til að hlusta. Það er eitthvað svo ótrúlega fallegt en í senn einfalt við þetta atriði.

Það eru í raun mörg athyglisverð atriði í myndinni og persónugalleríið skrautlegt, maðurinn hittir t.d. hrokafullan lækni, líkkistusmið, jógakennara, nunnu og unga brúði frá Færeyjum. Allar þessar persónur bjóða upp á skemmtileg augnablik, en það virðist svolítið einkenna myndina. Hún er ein löng runa af atriðum í staðinn fyrir að vera ein löng saga. Sögulega framvindan tapast. Myndin er einnig kaflaskipt, sem hjálpar heldur ekki til við að líma söguframvinduna saman. Kaflarnir þjóna því frekar fagurfræðilegum tilgangi enda fylgir fallegt listaverk hverjum kafla. Meðal annars þess vegna virkar myndin frekar eins og bók, enda byggð á bók, en það er oft erfiðara að miðla upplýsingum áfram sjónrænt en í gegnum texta. Það er því erfitt að komast hjá því að finna fyrir ákveðinni óvissu þegar myndinni lýkur. Áhorfendur sitja eftir með margar spurningar sem þeir fá ekki svör við og það getur verið flókið að átta sig á heildarboðskap myndarinnar. Það er til dæmis óljóst hvaða tilgangi nunnurnar þjónuðu í myndinni. Þessi opna og tilraunakennda nálgun gæti reynt á þolinmæði áhorfenda en á sama tíma gerir hún myndina forvitnilega, þar sem hún krefst þess að áhorfendur sleppi takinu á klassískri frásagnaruppbyggingu og flæði með sögunni.

Missir eftir leikstjórann Ara Alexander Ergis Magnússon er falleg og tilraunakennd kvikmynd sem dregur fram áhrif missis og minninga með sterku sjónrænu táknmáli og fínstilltum leik Þorsteins Gunnarssonar. Þótt handritið sé veikara og skorti heildræna spennu eða áþreifanlegan boðskap þá er Missir áhugaverð mynd sem rýnir hvetur fólk til að sjá. Áhorfandinn þarf einfaldlega að leyfa sér að njóta augnablikanna og taka þátt í því tilraunakennda ferli sem myndin leggur upp með.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR