spot_img

Vill að opinberum framlögum til kvikmyndagerðar fylgi kvaðir um að kjör og réttindi starfsfólks verði tryggð

Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna, hefur lagt fram þingsályktunartillögu þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra verði falið að undirbúa lagasetningu um kvaðir á framlag hins opinbera til kvikmyndagerðar til þess að tryggja að allt starfsfólk í kvikmyndagerð fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við lög og gildandi kjarasamninga hverju sinni.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra að tryggja fjármagn til Kvikmyndasjóðs og undirbúa lagasetningu um kvaðir á framlag hins opinbera til kvikmyndagerðar til þess að tryggja að allt starfsfólk í kvikmyndagerð fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við lög og gildandi kjarasamninga hverju sinni.

Segir meðal annars í greinargerð með tillögunni:

Við kvikmyndagerð á Íslandi vinna þúsundir einstaklinga sem starfa án kjarasamninga eða nokkurs viðlíka ramma. Til að styrkja stoðir greinarinnar og byggja upp heilbrigt starfsumhverfi er nauðsynlegt að ráðning starfsfólks byggist á kjarasamningum – að réttindi og skyldur séu ekki einhliða ákvörðun framleiðanda í hverju verkefni.

Í kvikmyndastefnu 2020–2030 kemur fram að stjórnvöld vilji miða íslenska starfsemi við Norðurlöndin og þar er áratugalöng hefð fyrir öflugu kjarasamningsumhverfi allra sem að koma. Að starfa samkvæmt kjarasamningum er hornsteinn þess að búa til heilbrigt og gott starfsumhverfi eins og stefnt er að samkvæmt kvikmyndastefnu. Það eykur jafnrétti og gagnsæi og er mikilvægur liður í því að greinin laði til sín hæfileikaríkt fólk. Þá vinnur það gegn óhóflegu álagi sem á hverju ári veldur brottfalli starfsfólks sem rær á önnur mið og tekur með sér reynslu, þekkingu og kunnáttu úr faginu. Listaháskóli Íslands útskrifar leikara og nú bráðlega kvikmyndagerðarfólk og kjarasamningar þjóna mikilvægum tilgangi í því að þessir einstaklingar hefji störf að námi loknu í heilbrigðu starfsumhverfi þar sem samið er um bæði réttindi og skyldur á tvíhliða grundvelli.

Það er á allan hátt óeðlilegt að milljörðum af opinberu fé sé varið til starfsemi þar sem launasetning og önnur starfskjör þeirra þúsunda starfsmanna sem að koma byggist á geðþóttaákvörðunum. Keðjuábyrgð er vel þekkt og lögfest fyrirbæri á íslenskum vinnumarkaði. Í kvikmyndagerð á Íslandi er hið opinbera fyrsti hlekkurinn í fjármagnskeðjunni og ber því ríka ábyrgð á að það sem síðar gerist sé samkvæmt eðlilegum stöðlum og að allir aðilar sem að framleiðslunni koma búi við sams konar öryggi og almennt gerist á vinnumarkaði.

Til að hægt sé að gera kjarasamninga við þá aðila sem starfa innan greinarinnar þarf að búa til stöðugleika í fjármögnun, ekki síst til að vinna gegn brottfalli þar sem of mikil óvissa skapast við núverandi aðstæður. Framlag Kvikmyndasjóðs er þar lykilþáttur. Framleiðendur þurfa að geta gert ráð fyrir að sjóðurinn búi við stöðugleika og eðlilegar verðbætur en það er mikilvæg forsenda fyrir þeirri skuldbindingu sem kjarasamningar fela í sér. Kjarasamningar í kvikmyndagerð styrkja einnig endurgreiðslukerfið og gera það gagnsærra.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR