Fjöldi íslenskra bíómynda og þáttaraða í haust

Von er á að minnsta kosti sex bíómyndum og fjórum þáttaröðum í haust og fram til áramóta. Fleiri verk gætu bæst við.

BÍÓ:

Ljósbrot eftir Rúnar Rúnarsson kemur í kvikmyndahús 28. ágúst. Sagan gerist á fallegum vordegi þegar líf Unu snýst á hliðina á svipstundu og upphefst rússibanaferð tilfinninga, þar sem mörkin milli hláturs og gráturs, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr.

Ljós­vík­ing­ar eftir Snævar Sölvason kemur 6. september. Myndin fjall­ar um æsku­vin­ina Hjalta og Björn sem reka fisk­veit­ingastað í heima­bæ sín­um yfir sum­ar­tím­ann. Þegar þeir fá óvænt tæki­færi til að hafa veit­ingastaðinn op­inn árið um kring til­kynn­ir Björn að hún sé trans kona og muni fram­veg­is heita Birna. Þess­ar breyt­ing­ar reyna á vinátt­una og þurfa þau bæði að horf­ast í augu við lífið á nýj­an hátt til þess að bjarga því sem mestu máli skipt­ir.

Missir eftir Ara Alexander Ergis Magnússon kemur í bíó 20. september. Byggt er á samnefndri bók Guðbergs Bergssonar frá 2010, sem er svo lýst hjá útgáfu: Hann sefur aldrei. Hann vakir ekki heldur. Hann sér sjálfan sig liggja í rúminu milli svefns og vöku. Vatnið suðar í katlinum.

Topp tíu möst eftir Ólöfu Birnu Torfadóttur er væntanleg 11. október. Lífsleið miðaldra kona og hortugt flóttafangakvendi ferðast þvert yfir landið á vit ævintýranna meðan þær enn geta.

Helga Braga Jónsdóttir og Tanja Björk Ómarsdóttir fara með aðalhlutverkin í Topp tíu möst. Til hægri: Ólöf Birna Torfadóttir | Mynd: Gunnlöð.

Fjalllið eftir Ásthildi Kjartansdóttur kemur 1. nóvember. Myndinni er lýst sem þroskasögu um ást og missi. Rafvirkinn Atli býr í Hafnarfirði með konu sinni Maríu, áköfum stjörnuskoðara, og nítján ára dóttur þeirra, tónlistakonunni Önnu. Lífið gengur sinn vanagang og þau stússast hvert í sínu þar til hörmulegt slys setur líf þeirra á hvolf og neyðir þau til að finna nýja leið framávið.

Ísadóra Bjarkardóttir Barney og Björn Hlynur Haraldsson í Fjallinu | Mynd: © Sandra Dögg Jónsdóttir/Film Partner Iceland.

Guðaveigar eftir Þorkel Harðarson og Örn Marinó Arnarson kemur 26. desember. Myndin fjall­ar um hóp ís­lenskra presta sem leggja af stað í leiðang­ur til að finna hið full­komna messuvín.

Þröstur Leó Gunnarsson í Guðaveigum.

ÞÁTTARAÐIR:

Flamingo Bar hefst á Stöð 2, 23. ágúst. Vinirnir Bjarki og Tinna reyna að breyta ímynd barsins og snúa rekstrinum við, ásamt breyskum starfsmönnum en vafasamir fastagestir og óvæntar uppákomur eiga eftir að gera þeim lífið leitt. Aron Ingi Davíðsson og Birna Rún Eiríksdóttir leikstýra og skrifa einnig handrit ásamt Guðmundi Einari, Bjarna Snæbjörnssyni, Telmu Huld Jóhannesdóttur, Björk Guðmundsdóttur og Vilhelm Neto.

Dimma í leikstjórn Lasse Hallström hefst í Sjónvarpi Símans 12. september. Byggt er á bók Ragnars Jónassonar. Sam Shore og Óttar Norðfjörð skrifa handrit. Rannsókarlögreglukonan Hulda rann­sak­ar óhugnan­legt morðmál á sama tíma og hún glím­ir við eig­in per­sónu­legu djöfla.

Önnur syrpa þáttaraðarinnar Ráðherrann er væntanleg á RÚV í haust. Arnór Pálmi Arnarson og Katrín Björgvinsdóttir leikstýra. Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson skrifa handrit. Þegar Benedikt snýr aftur í stjórnmál eftir leyfi vegna geðhvarfa, mætir hann fordómum samfélags sem tortryggir allar hans hugmyndir. Á meðan einkalíf þeirra Steinunnar molnar undan þunga sjúkdómsins, eru öfl innan hans eigin flokks sem nýta heilsuveilu hans til að bola honum frá.

Svörtu sandar 2 hefst á Stöð 2, 6. október. Þetta er beint framhald af fyrri syrpu. Fimmtán mánuðir eru liðnir frá harmleik fyrri syrpu og áfallið liggur enn þungt á Anítu þar sem hún reynir að vera til staðar fyrir nýfædda dóttur sína. Þegar eldri kona finnst látin koma í ljós atburðir úr fortíð fjölskyldu Anítu sem splundra öllum hennar vonum um eðlilegt líf. Leikstjórar eru Álfheiður Kjartansdóttir, Erlendur Sveinsson og Baldvin Z sem einnig skrifar handrit ásamt Aldís Amah Hamilton, Elías Kofoed Hansen og Ragnari Jónssyni.

Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvort og hvenær sýningar hefjast á þáttaröðunum Spor (Sjónvarp Símans), Iceguys 2 (Sjónvarp Símans) og Ævintýri Tulipop 3 – (Sjónvarp Símans).

Heyrst hefur að þáttaröðin Vigdís frá Vesturporti fari í loftið á RÚV um jólin, en það er einnig óstaðfest.

Frumsýningar á heimildamyndum liggja ekki fyrir á þessu stigi, en von er á að minnsta kosti Kúreka norðursins eftir Árna Sveinsson í haust.

Þetta er birt með fyrirvara um mögulegar breytingar, bæði varðandi þessi verk sem og önnur sem gætu bæst við.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR