Sjónvarpsþáttaframleiðsla gerð samkeppnishæfari með breytingum á kvikmyndalögum

Frumvarp menningar- og viðskiptaráðherra um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001 var samþykkt á Alþingi í gær. Breytingin staðfestir meðal annars nýjan styrkjaflokk innan Kvikmyndasjóðs til lokafjármögnunar á umfangsmiklum leiknum sjónvarpsþáttaröðum.

„Þetta er fyrsti styrkur sinnar tegundar í íslenskri kvikmyndagerð og talar beint inn í kvikmyndagerð sem viðskiptagrein og listgrein. Með þessum nýja styrkjaflokki er mögulegt að fjármagna síðustu 15-20 % í framleiðslu á stórum leiknum sjónvarpsþáttum og fá hluta styrksins aftur inn til Kvikmyndasjóðs, skili verkefnið hagnaði samkvæmt settum viðmiðum styrksins,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra í tilkynningu.

Nái sjónvarpsþáttaröð ekki skilgreindu hagnaðarmarki virkjast krafa um endurheimt ekki og styrkurinn er þá án skuldbindinga um endurheimt.

Samframleiðsla milli landa eykst

Nýi styrkjaflokkurinn kemur til móts við breytta tíma sem einkennast af hröðu þróunar- og fjármögnunarferli verkefna. Í greinargerð frumvarpsins um lokafjármögnun kemur fram að veruleg breyting hafi orðið á miðlun, framleiðslu og fjármögnun sjónvarpsþáttaraða á undanförnum árum. Þær breytingar sem hafa orðið á alþjóðlegu þróunar- og fjármögnunarumhverfi sjónvarpsþáttaraða hafa leitt til þess að lokafjármögnun er orðin erfiðari en áður. Í alþjóðlegu framleiðsluumhverfi sjónvarpsverka hefur framleiðslukostnaður hækkað og samkeppnisstaða þeirra sem ætla að framleiða efni fyrir sjónvarp í smærra sniði eða fyrir smærra markaðssvæði er orðin lakari en áður. Tilhneiging í framleiðslu sjónvarpsþáttaraða er því í auknum mæli samframleiðsla milli landa þar sem listrænt og faglegt samstarf getur styrkt sjálfstæða framleiðendur og aukið gæði og listrænt framlag í framleiðslu.

Til þess að styrkja stöðu innlendra framleiðenda í breyttu alþjóðlegu umhverfi er framleiðslustyrkur til lokafjármögnunar því bæði viðeigandi og nauðsynlegur. Lagabreytingin er í samræmi við áherslur og aðgerðir í kvikmyndastefnu til ársins 2030 sem miðar meðal annars að því að byggja upp sterkara sjóðakerfi sem styður við fjölbreyttari kvikmyndamenningu. Honum er ætlað er að ýta undir framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða að fyrirmynd Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins.

Breytingin nær einnig yfir skipunartíma forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands, gjaldskrá safnsins og hlutverk Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Hið samþykkta frumvarp má sjá hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR