spot_img

DÝRIÐ, SKJÁLFTI og VERBÚÐIN til Gautaborgar

Þrjú verk frá Íslandi taka þátt í Gautaborgarhátíðinni í ár, en hún fer fram dagana 28. janúar – 6. febrúar. Dýrið keppir um Drekaverðlaunin fyrir bestu norrænu kvikmyndina, Skjálfti verður sýnd í Nordic Light sýningarröð hátíðarinnar og sjónvarpsþáttaröðin Verbúðin keppir um verðlaun fyrir besta handrit sjónvarpsþáttaraða á Norðurlöndunum.

Dýrið eftir Valdimar Jóhansson er meðal átta norrænna mynda sem keppa um Drekaverðlaunin (Dragon Award) fyrir bestu norrænu kvikmynd á hátíðinni. Drekaverðlaunin eru einkar eftirsótt verðlaun, en verðlaunaféð er 400 þúsund sænskar krónur. Dýrið er á meðal fimmtán kvikmynda sem eru í forvali og gætu fengið tilnefningu til Óskarsverðlauna í flokki alþjóðlegra kvikmynda árið 2022. Myndin er í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar og handrit er eftir Sjón og Valdimar. Framleiðendur myndarinnar eru Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim fyrir Go to Sheep.

Skjálfti, sem sýnd verður í Nordic Light hluta hátíðarinnar, var skrifuð og leikstýrt af Tinnu Hrafnsdóttur. Skjálfti var heimsfrumsýnd þann 20. nóvember síðastliðinn á Tallinn Black Nights Film Festival í Eistlandi. Myndin er byggð á skáldsögu Auðar Jónsdóttur og framleidd af Hlín Jóhannesdóttur fyrir Ursus Parvus.

Sjónvarpsþáttaröðin Verbúðin er tilnefnd til verðlauna fyrir besta handrit dramasjónvarpsþáttaraða á Norðurlöndunum sem Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn (Nordisk Film & TV Fond) stendur fyrir. Verðlaunin verða afhent á hátíðinni þann 2. febrúar. Gísli Örn Garðarsson, Björn Hlynur Haraldsson og Mikael Torfason eru handritshöfunar Verbúðarinnar og Gísli Örn, Björn Hlynur og María Reyndal leikstýra þáttaröðinni. Framleiðendur eru Nana Alfredsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn og Björn Hlynur fyrir Vesturport.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR