spot_img

Margar umsagnir um reglugerðardrög Kvikmyndasjóðs, umsagnarfrestur rennur út í dag

Margar umsagnir hafa borist í samráðsgátt stjórnvalda varðandi drög að uppfærðri reglugerð um Kvikmyndasjóð, en frestur til að senda inn umsögn rennur út í dag, mánudag.

Meðal þeirra sem lagt hafa fram umsagnir eru fagfélög kvikmyndagerðarmanna eins og Samtök kvikmyndaleikstjóra (SKL), Félag leikskálda og handritshöfunda (FLH) og Félag tökustjóra (ÍKS).

Athugasemdir lúta að ýmsum þáttum. Má þar meðal annars nefna ítarlegri skilgreiningu á styrkjum, ítarlegri skilgreiningar á starfi kvikmyndaráðgjafa, afgreiðslutíma umsókna, að handritshöfundar geti sótt sjálfstætt um styrki, að tekið verði tillit til handritsgerðar vegna þáttaraða og að 40/60 reglan svokallaða verði áfram inni.

Þá vekur umsögn Kvikmyndamiðstöðvar Íslands athygli, en þar er lagt til að vinna reglugerðina mun ítarlegar.

Segir þar meðal annars:

Samandregið er það þó mat Kvikmyndamiðstöðvar að úr því að ráðist var í þá vinnu sem miðar að því að afnema gildandi reglugerð og umskrifa frá grunni, hefði mátt ganga lengra í því efni. Tillaga að nýrri reglugerð virðist hvorki taka gildandi reglugerð mikið fram í að skapa skýra umgjörð um styrkjakerfi kvikmynda, né heldur er hægt að merkja hvaða leiðir eru markaðar til bregðast við kröfum nýrrar kvikmyndastefnu og ört breytilegu umhverfi kvikmyndamála.

Og einnig:

Það er þannig helsta ábending Kvikmyndamiðstöðvar við framlögð reglugerðardrög að þau gangi í raun ekki nægilega langt að víkja frá eldri fyrirmynd og móta faglegan og skýran ramma um stuðningsaðgerðir á sviði kvikmyndamála.

Umsagnir má skoða hér (muna að endurhlaða síðu).

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR