Kvikmyndaskóli Íslands væntir viðurkenningar háskólastigs í ágústbyrjun

Kvikmyndaskóli Íslands væntir þess að fá fullnaðar viðurkenningu stjórnvalda sem háskóli síðsumars. Formleg kynning á væntanlegum háskóla er hafin með útgáfu tímarits þar sem námið er kynnt og rætt við helstu stjórnendur fagsviða.

Þetta kemur fram á vef Kvikmyndaskólans. Þar segir:

Kvikmyndaskóli Íslands lagði inn umsókn sína um yfirfærslu starfseminnar á háskólastig í janúar 2020. Skólinn undirbjó sig síðan fyrir að hefja formlega háskólastarfsemi í janúar 2021, þ.e. sem háskóli í viðurkenningarferli.

En þá lá fyrir að skólinn ætti eftir að fá umsögn sérfræðingahóps og fullnaðar viðurkenning gæti ekki legið fyrir fyrr en í maí til ágúst 2021. Eftir þessari áætlun hefur Kvikmyndaskólinn unnið og forsvarsmenn hafa lagt mikla áherslu á það við ráðuneytið að fullnaðarafgreiðsla ráðuneytis liggi fyrir 1. ágúst næstkomandi. Þá eru liðnir tæpir 25 mánuðir frá því Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsmálaráðherra skrifuðu undir 5,5 ára þjónustusamning við skólann þar sem stefnan er sett á háskólastarfsemi skólans.

Hið sama kemur fram í 10 ára áætluninni um kvikmyndamál, sem mennta- og menningarmálaráðherra gaf út síðastliðið sumar. Aðilar málsins, bæði skólinn og ráðuneytið mega hafa réttmætar væntingar til að afgreiðslur gangi eftir enda er allt á fullri ferð á báðum stöðum. Afgreiðslan er mikilvæg því það er mikill þrýstingur frá stúdentum af listabrautum framhaldsskólanna og komast í háskóladeildir Kvikmyndaskólans.

Eitt af því sem ákveðið var að gera síðastliðið haust, til að kynna væntanlegt háskólastarf, var að gefa út veglegt tímarit og jafnframt auglýsingaefni til að kynna nýja BA námsleið í samstarfi við HÍ. Ætlunin var að setja þetta í dreifingu í janúar eða febrúar, en ákveðið var að fresta útgáfunni fram í maí

Nú er komið að því að við hefjum formlega kynningu á væntanlegum háskóla með kynningu á þessu nýja háskólatímariti, sem ætlunin er að komi út einu sinni á ári og sé vettvangur fyrir rannsóknarstarf skólans. Fyrsta tölublaðið er þó fyrst of fremst kynning á skólanum og fólkinu sem þar starfar, bæði stjórnendum nemendum og kennurum. Teljandi 80 blaðsíður er blaðið fullt af efni og þá á meðal mörg mjög áhugaverð viðtöl.Af öðrum málum er það að frétta að haldinn var mjög vel heppnaður akademíufundur þar sem meginumræðan var um ráðningar og framgang. Dr. Margrét Elísabet Ólafsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri hefur verið skipuð í rannsóknarráð skólans. Nánari kynning verður á henni síðar en hún er frábær liðsmaður í hópinn. Rannsóknarráð hefur þegar tekið til starfa. Haldinn var kynningarfundur fyrir fagfélögin sem heppnaðist mjög vel. Það sem framundan er í lok maí, er ársfundur skólans og síðan fundur í hinu 12 manna fagráði (undanfari háskólaráðs). Vinna við gæðahandbók skólans er í fullum gangi. Útgáfu hefur aðeins seinkað en nú er stefnt að útgáfu þann 26. maí. Þá er unnið að innra mati vegna einkunnagjafa við skólann og skuldbindingar fagstjóra við hæfnisvið. Niðurstöður munu liggja fyrir í næstu viku, en upplýsingaöflun er að ljúka. Allt á fullri ferð.

Skólastarfið er í miklum blóma og útlit er fyrir margar frábærar útskriftarmyndir frá öllum deildum í útskriftarvikunni í júní.

Tímarit Kvikmyndaskólans má skoða hér í pdf formi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR