spot_img

Stockfish hátíðin sendir frá sér tilkynningu vegna myndavals á Sprettfisk

Stockfish hátíðin hefur sent frá sér tilkynningu vegna vals á stuttmyndum á Sprettfisk, stuttmyndasamkeppni hátíðarinnar, en ein myndanna var frumsýnd 2018 og vann sem slík Edduverðlaun í fyrra sem stuttmynd ársins. Í reglum Sprettfisksins sem gefnar voru út 22. janúar síðastliðinn var kveðið á um að myndir væru framleiddar 2019 eða síðar. Í tilkynningunni er einnig komið inná hversvegna orðalagi reglna var breytt á vef Stockfish fyrir tveimur dögum, löngu eftir að innsendingarfresti lauk.

Tilkynningin er svohljóðandi.

Skilyrði fyrir þátttöku í Sprettfiski breyttust á árinu. Áður þurftu myndir að vera Íslandsfrumsýndar á hátíðinni til að vera gjaldgengar, sömu skilyrði og eru sett t.d. á RIFF. Þessi skilyrði gerðu það að verkum að kvikmyndagerðafólk gat ekki sent stuttmyndir sínar inn á allar hátíðir landsins heldur þurftu að gera upp á milli. Sprettfiskur var búin til með því grunnmarkmiði að fagna því besta sem væri gangi í grasrótinni og styðja við kvikmyndagerðarfólk með styrkveitingu til vinningshafa keppninnar. Í ár var ákveðið að sleppa þessu skilyrði um Íslandsfrumsýningu og því frekar bjóða öllum stuttmyndum síðasta árs að taka þátt. Getum við þannig með vissu sagt að við sýnum allt það besta sem er í gangi í íslenskri stuttmyndagerð.

Skilyrði voru sett að myndir yrðu að vera gerðar á árinu 2019 eða seinna. Við skiljum að orðaval þetta gæti hafi valdið ruglingi þar sem myndir eru yfirleitt skilgreindar út frá frumsýningu en ekki framleiðsluári þar sem framleiðsla getur átt sér stað yfir langt tímabil fyrir útgáfu, jafnvel dreift yfir nokkur ár. Réttari hefði verið að segja að myndirnar þyrftu að hafa verið frumsýndar á síðasta ári eða síðar til að vera gjaldgengar. Við teljum þó ólíklegt að þetta orðaval hafi komið að sök þar sem aldrei hafa fleiri myndir verið sendar inn á Sprettfiskinn og í ár eða hátt í 40 myndir. Margar þeirra komu út snemma á síðasta ári og er því framleiðsluár þeirra raunverulega fyrir 2019 en þær voru allar teknar til greina. Allar myndir sem sendar voru inn á Sprettfisk voru undir sama hatti hvað þetta varðar.

Í tilfelli Nýr dagur í Eyjafirði, var tekið fram í umsókn að myndin hefði aðeins verið sýnd einu sinni á árinu 2018 og var sú sýning ekki opin almenningi. Eiginlegt frumsýningarár var því 2019 og var myndin m.a. sýnd á RIFF sem gerir kröfu um Íslandsfrumsýningu. Myndin var því tekin til greina rétt eins og aðrar myndir sem gerðar voru árið 2018 með frumsýningu á árinu 2019. Við biðjumst velvirðingar á því orðavali sem notað var í upphaflegri auglýsingu fyrir umsóknir í Sprettfisk sem kann að hafa valdið ruglingi. Það hefur nú verið leiðrétt til að það valdi ekki frekari ruglingi í framtíðinni.

Það getur vissulega verið flókið fyrst þegar svona reglum er breytt og eitthvað ekki hugsað eða sett fram nægilega skýrt. Það er allavega orðið skýrt núna. Stockfish ákvað að halda sig við þær reglur sem valnefnd voru settar og vann eftir, frekar en að breyta þeim eftir á vegna orðavals í upprunalegu fréttinni. Það er miður ef þetta hefur hamlað einhverjum innsendingum og ef svo er hörmum við það mjög. Aftur á móti er hægt að segja að allar innsendar myndir voru metnar á sömu forsendum.

Sjá nánar hér: Tilkynning vegna Sprettfisks …að gefnu tilefni. – Stockfish Film Festival

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR