Ásgeir H. Ingólfsson skrifar nú pistla frá Berlínarhátíðinni á vef sinn Menningarsmygl. Þeir eru einnig birtir hér með góðfúslegu leyfi Ásgeirs. í fyrsta pistli skrifar hann um opnunarmyndina My Salinger Year eftir Philippe Falardeau.
Berlinale byrjar svona: ein fílgúdd Hollywood-mynd með fallegum New York senum og Sigourney Weaver sem eðal-gribba – og svo 3 og hálfs tíma rúmensk mynd byggð á heimspekiritgerð um stríð, frið og antíkrist. Ég get ekki sagt ykkur strax hvor er betri – það er nefnilega embargo um þá rúmensku fram yfir hádegi (gegn því að fara á blaðamannasýningar lofum við snáparnir að fjalla ekki um þær myndir sem eru heimsfrumsýndar fyrr en hálftíma eftir að formleg frumsýning hefst).
En allavega, opnunarmyndin var skárri en í fyrra. Það er ekki mikið hrós, af því opnunarmyndin í fyrra, The Kindness of Stranger, var skelfileg. My Salinger Year er opnunarmyndin í ár og annað árið í röð er opnunarmyndin fílgúdd klisja í raun, en bara miklu betur gerð. Hún er alveg alltílæ, þótt hún sé ekkert meira. Joanna er sumsé starfsmaður umboðsskrifstofu J.D. Salinger og fær það hlutverk að svara bréfunum hans, sem hann vill alls ekki sjá.
Svo ég spóli aðeins fram í tímann – þar sem ég sit eftir myndina og byrja eftir að sú rúmenska byrji – þá heyri ég á tal tveggja eldri kvenna. Kona 1: „Ég var í New York in the 90s og það klæddi sig engin svona þá!“ Kona 2: „Ég var í Svíþjóð in the 90s og þar klæddu sig alveg nokkrar svona.“
Ég átti einmitt aðeins erfitt með aðalleikkonuna í byrjun. Margaret Qualley er prýðilegasta leikkona – en virkaði einhvern veginn of nútímaleg í upphafi – enda bókstaflega fædd árið 1994, þegar myndin á að gerast. En henni tókst að láta mann gleyma því þegar á leið – og kannski þurfti ég bara að komast yfir að þetta var ekki Winona Ryder eða Julie Delpy eins og í gamla daga.
Þegar ég fletti henni Qualley svo upp fatta ég að ég hef séð hana áður, þegar hún tældi Brad Pitt í gin ljónsins síðasta sumar í Once Upon a Time … in Hollywood. Dyggir lesendur smyglsins vita að ég var ekki alltof hrifin af þeirri mynd, en Qualley var frábær þar.
En allavega, það æsir alveg ágætlega upp aldurskomplexana að fatta að síð-unglingsárin eru orðin aldarfjórðungsgömul períódía – og allir brandararnir með tölvur, tölvupósta og annað nýjabrum falla dálítið flatir – allavega ef maður man hvernig fólk tók þeim í alvörunni á þessum síðustu árum fyrir netvæðingu alls.
Myndin er sannarlega nostalgísk eftir þessum tíma, þegar blöð og tímarit og bækur voru blómstrandi bisness í samanburði við nútímann. Það að hetjan okkar sé ritari Salinger er aukaatriði, nánast bara eitthvað til að selja myndina. Salinger kemur örlítið fyrir, mest í síma, segir það sem maður býst við í svona mynd og lítið meira.
Þetta er miklu frekar um það að vera lágt settur starfsmaður á gólfi í virtu bókmenntafyrirtæki (þetta er sumsé umboðsskrifstofa, eitthvað sem varla fyrirfinnst heima) og laumast með veggjum með rithöfundadrauminn sem flestir starfsmenn deila í laumi, þangað til kerfið kæfir hann ef maður passar sig ekki.
Það glittir þó stundum í mun betri mynd á bak við þessa. Joanna skilur kærasta eftir í sveitinni og maður teiknar ósjálfrátt upp mynd af honum sem sveitalegum miðríkjagaur sem skaffar – en svo kemur týpan skemmtilega á óvart þegar hann loks birtist. Svo er Sigourney Weaver auðvitað stórkostleg að vanda. Tíkin með gullhjartað er gamalt minni – Meryl Streep hefur leikið þetta skrilljón sinnum – en persónulega finnst mér Weaver gera þetta miklu betur.
Loks eru bréfritararnir sem fá stöku senur – fólk héðan og þaðan úr heiminum ávarpa myndavélina og Salinger um leið, og þar er kannski myndin sem hefði miklu frekar mátt gera.
E.S.: Kveikti svo á því eftir á að ég hef séð aðra mynd eftir leikstjórann Philippe Falardeau, frábæra mynd með skelfilegt nafn – „Það var ekki ég, ég sver.“ Falardeu hefur verið að gera fína hluti í fransk-kanadíska bíóinu og svo er bara að vona að hann fóti sig betur í næstu Hollywood-mynd.
Sjá nánar hér: Berlinale 1: Ritari Salingers og Sigourney Weaver