Það er reyndar skiljanlegt að kvikmyndaframleiðendum (inní því mengi eru einnig aðrir helstu aðstandendur kvikmynda) finnist stundum sem myndirnar sínar fái ekki næga aðsókn. Fólk getur alltaf á sig blómum bætt. Og vissulega eru mörg dæmi um myndir sem ekki margir sjá í bíó. En þau eru líka mörg dæmin þar sem myndir fá mikla aðsókn og jafnvel gríðarmikla.
Um viðmiðanir
Til að geta rætt þetta af einhverju viti þarf að skilgreina viðmiðanirnar. Staðreyndin er sú að Ísland er fámennt. Um leið erum við eins og fólk annarsstaðar að því leyti að smekkur og áhugi er mismunandi, ekki höfða allar myndir til allra og við erum löngu hætt að fara í bíó bara af því að myndin er íslensk. Jú, það er hægt að halda því fram að Íslendingar séu einsleitara samfélag en víðast annarsstaðar, en sú skýring nær ekki ýkja langt. Það er líka heldur engin ástæða til þess að freista þess ávallt að gera myndir fyrir hinn breiða fjölda. Fjölbreytni er mikilvæg og mælistika aðsóknar er langt í frá algild. Á móti kemur að all oft myndast mikil stemmning fyrir tiltekinni mynd og ótrúlega stór hópur streymir í bíó. Sem er hið besta mál að sjálfsögðu.
Sé allt þetta tekið með í reikninginn er ekki hægt að segja annað en að aðsókn sé yfirhöfuð góð og að Íslendingar séu almennt mjög áhugasamir um íslenskar kvikmyndir. Fyrir nokkrum árum bar ég saman Ísland og Danmörk í þessu tilliti og þá kom í ljós að meðaltalsaðsókn á íslenskar kvikmyndir á heimavelli er um það bil helmingi hærri hlutfallslega en meðaltalsaðsókn á danskar myndir í Danmörku. Og nei, það er ekkert að því að nota hlutfallsreikning þegar við á 😉 (Og nei aftur, þessar tölur hafa ekki breyst að neinu ráði).
En hversvegna finnst sumum (stundum) að aðsóknin sé að minnka? Ein tilgáta er að myndum hefur fjölgað. Mikið. Um leið hefur fjölgað þeim myndum sem fá það sem gjarnan er talið lítil aðsókn – en líka þeim sem fá mikla aðsókn. Um leið eru þær ekki það margar að yfirsýn hverfi fyrir þá sem fylgast með.
Þróunin hefur verið þessi:
- Níundi áratugurinn: 2,8 myndir að meðaltali
- Tíundi áratugurinn: 3,3 myndir að meðaltali (nokkur aukning frá fyrri áratug)
- Fyrsti áratugur nýrrar aldar: 5,6 myndir að meðaltali (gríðarleg aukning)
- Yfirstandandi áratugur: 8,4 myndir að meðaltali (enn mikil aukning)
Hvað telst þá góð aðsókn?
Svarið hlýtur auðvitað að vera breytilegt eftir tegundum mynda. Til hvaða mengis höfðar myndin? Hvernig myndir spyrjast út hefur sín áhrif. Ætla ég að sjá hana í bíó eða bíða eftir öðrum dreifileiðum? Kvikmyndir byggðar á kunnum efnivið ganga oft vel, en ekki alltaf. Þannig spilar ýmislegt inní.
Það er þó alveg óhætt að segja að kvikmynd sem fær 20 þúsund gesti og yfir hafi notið velgengni í miðasölunni. Þetta er hátt yfir aðsóknarmeðaltali til lengri og skemmri tíma og sambærileg aðsókn þætti hvarvetna annarsstaðar mjög góð. Notum Danmörk áfram sem samanburð. 20 þúsund gestir á Íslandi samsvara um það bil 340 þúsund gestum í Danmörku. Hér má skoða aðsókn á danskar kvikmyndir 2017. Engin mynd frumsýnd það ár fer yfir það mark (ein frá fyrra ári fer yfir þegar heildaraðsókn er skoðuð). Hafa skal í huga að danskar myndir geta stundum farið miklu hærra, þær allra vinsælustu skríða yfir milljón gesti en það er afar sjaldgæft. Hægt er að skoða þessar upplýsingar hér.
Að undanförnu hef ég einnig skynjað það frá kollegum hér og hvar að þegar íslensk mynd nær 20 þúsund gestum og yfir, sé það góður árangur. Kannski er að myndast consensus um þetta, en allavega, við skulum nota þetta viðmið og hvað kemur þá í ljós? Hefur slíkum myndum fækkað t.d. s.l. tíu ár miðað við tíu árin þar á undan? Nei, þeim hefur fjölgað, einnig hlutfallslega. Hér eru tölur og einnig hlutfall af heildarfjölda mynda, sem er sjálfsagt að taka með í reikninginn því myndum almennt hefur fjölgað:
- Myndir yfir 20 þúsund gesti 2009-2018: 22 (af 76) | tæpur þriðjungur.
- Myndir yfir 20 þúsund gesti 1999-2008: 13 (af 53) | tæpur fjórðungur.
Séu síðustu tíu ár skoðuð eingöngu er skiptingin hnífjöfn, 11 myndir á sitthvorum helmingi tímabilsins. Og myndirnar eru ögn fleiri á fyrri hlutanum, 41 á móti 35 síðustu fimm ár þannig að myndum sem njóta þessarar aðsóknar hefur fjölgað hlutfallslega á undanförnum árum.
Annar mælikvarði á aðsókn
Önnur leið til að skoða þróun aðsóknar yfir lengra tímabil er að reikna út meðaltalsaðsókn. Þá er fjölda mynda á gefnu tímabili deilt í gestafjölda sama tímabils. Þannig sést betur hvort aðsókn sé að dreifast á fleiri myndir. Og vegna þess hve aðsókn frá ári til árs getur sveiflast mjög og myndirnar ekki það margar árlega er miklu betra að fá yfirsýn með því að horfa á lengra tímabil. Og hvað kemur þá í ljós, miðað við sömu tímabil og hér að ofan?
- Meðaltalsaðsókn 2009-2018: 14.720 gestir.
- Meðaltalsaðsókn 1999-2008: 15.027 gestir.
Semsagt, þarna hefur orðið örlítil breyting, aðsóknin dreifist aðeins meira á síðustu tíu árum en í raun eru þetta sáralitlar breytingar. En hvað með síðustu tíu ár sé þeim skipt í tvennt?
- Meðaltalsaðsókn 2014-2018: 16.452 gestir.
- Meðaltalsaðsókn 2009-2013: 12.987 gestir.
Semsagt, aðsóknin hefur aukist nokkuð á undanförnum árum, en hafa skal í huga að myndirnar eru aðeins færri síðustu fimm ár, 35 á móti 41. Svona lítur heildaraðsókn út síðustu tíu ár, skipt í tvennt:
- Heildaraðsókn 2014:-2018: 564.792 gestir | 35 kvikmyndir.
- Heildaraðsókn 2009-2013: 527.317 gestir | 41 kvikmynd.
Hvernig berast íslenskar myndir til Íslendinga?
Aðsókn í kvikmyndahús er auðvitað ekki eini mælikvarðinn á fjölda þeirra sem horfa. Kvikmyndir hafa ýmsar dreifileiðir auk kvikmyndahúsanna, til dæmis VOD-leigur (mynddiskar eru á útleið), sýningar í flugvélum Icelandair sem árlega flytur milljónir farþega til og frá landinu og síðast en ekki síst sjónvarp. Segja má að þar nái flestar íslenskar myndir til stórs hluta Íslendinga. Áhorfstölur undanfarinna ára (þær má nálgast hér frá 2014) sýna að frá 40 til 100 þúsund manns horfa á þær í sjónvarpi. Þær eru svo gjarnan endursýndar yfir nokkurra ára tímabil og þannig stækkar hópurinn sem sér þær enn frekar. Athyglisvert er reyndar að ekkert beint samhengi virðist vera á milli mynda sem ganga vel í bíó og áhorfs í sjónvarpi, þó að oftar en ekki sé meira horft á þær sem fengið hafa mikla aðsókn. En töluvert af dæmum er til um myndir sem fengu kannski örfáar þúsundir gesta í bíó en 40-50 þúsund sáu þær í sjónvarpi.
Niðurstaða
Þessar tölur benda til þess að Íslendingar hafi almennt mikinn áhuga á íslenskum bíómyndum og horfa í stórum stíl þegar þær eru í boði. Við getum semsagt ágætlega við unað að því leyti.
Hér að neðan er hægt að kynna sér gögnin sem liggja til grundvallar útreikningum á meðaltalsaðsókn og heildaraðsókn síðustu 20 ára.
(Athugið: Heimildamyndum í kvikmyndahúsum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum en fæstar fá aðsókn að ráði (áhorf á þær í sjónvarpi er hinsvegar almennt mjög gott). Þær eru ekki með í þessum tölum.)
Heildaraðsókn og meðalaðsókn 1996-2018
ÁR | FJÖLDI MYNDA | AÐSÓKN | MEÐALTAL |
---|---|---|---|
1996 | 2 | 86.771 | 43.386 |
1997 | 4 | 38.42 | 9.605 |
1998 | 2 | 45.783 | 22.892 |
1999 | 3 | 22.712 | 7.571 |
2000 | 6 | 170.59 | 28.432 |
2001 | 4 | 28.092 | 7.023 |
2002 | 9 | 133.672 | 14.852 |
2003 | 5 | 43.643 | 8.729 |
2004 | 6 | 41.703 | 6.951 |
2005 | 2 | 37.809 | 18.905 |
2006 | 5 | 117.041 | 23.408 |
2007 | 5 | 93.95 | 18.790 |
2008 | 8 | 124.837 | 15.605 |
2009 | 6 | 116.244 | 19.374 |
2010 | 9 | 111.277 | 12.364 |
2011 | 10 | 127.4 | 12.74 |
2012 | 9 | 131.345 | 14.594 |
2013 | 7 | 41.051 | 5.864 |
2014 | 7 | 148.146 | 21.163 |
2015 | 7 | 55.24 | 7.891 |
2016 | 4 | 81.214 | 20.303 |
2017 | 7 | 117.531 | 16.685 |
2018 | 10 | 162.661 | 16.217 |
SAMTALS | 2.077.132 | 16.232 |