Aðsókn | „Víti í Vestmannaeyjum“ með yfir tíu þúsund gesti á opnunarhelginni

Víti í Vestmannaeyjum eftir Braga Þór Hinriksson fékk yfir tíu þúsund gesti á opnunarhelginni og er lang aðsóknarmesta myndin þessa helgina. Þetta er áttunda stærsta opnunaraðsókn á íslenska kvikmynd síðan mælingar hófust og næststærsta opnun síðastliðinna fimm ára.

Aðsóknin er á pari við opnunarhelgar Sveppamyndanna fjögurra sem Bragi Þór leikstýrði einnig, en þær fengu frá 8-12 þúsund gesti á opnunarhelgunum. Ekki er ólíklegt að Víti endi á svipuðum stað og Sveppamyndirnar, eða með einhversstaðar á bilinu 30-40 þúsund gesti. 9,029 sáu myndina um helgina en alls 10,029 með forsýningum.

Áhugavert er reyndar að skoða samhengið milli opnunarhelga og endanlegrar aðsóknar á Sveppamyndirnar. Þær opna yfirleitt mjög stórt en ná ekki yfir 40 þúsund gesta markið líkt og ýmsar aðrar myndir sem hafa svipaðar opnunartölur. Spurningin er hvort annað reynist uppá teningnum með Víti í Vestmannaeyjum, þar sem byggt er á fyrstu bókinni í kunnum bókaflokki Gunnars Helgasonar og að auki gæti gríðarlegur fótboltaáhugi ungs fólks sem og þátttaka Íslands í HM í sumar haft sitt að segja. Vera kann að þessir þættir muni fleyta myndinni enn frekar uppávið.

Andið eðlilega er áfram í 4. sæti eftir 3. sýningarhelgi. 1,218 sáu myndina í vikunni, en alls hafa 4,128 gestir séð hana. Áhugavert er að hún gefur lítið eftir í aðsókn miðað við síðustu helgi sem þýðir að hún er að spyrjast vel út og má meðal annars benda á nær einróma lof gagnrýnenda í því sambandi.

Lói er í sjötta sæti eftir 8. sýningarhelgi en hún fékk 663 gesti í vikunni. Alls hafa 20,891 séð myndina hingað til. Aðsókn dregst hratt saman nú og er í samræmi við það sem Klapptré spáði þegar hún var frumsýnd. Spyrja má um þá taktík Sagafilm að gefa út tvær barna- og fjölskyldumyndir með svo stuttu millibili (Lói var frumsýnd í byrjun febrúar).

332 sáu Fulla vasa í vikunni. Alls nemur gestafjöldi nú 7,880 manns eftir fimm vikur í sýningum. Myndin er áfram í 9. sæti.

Svanurinn er í 18. sæti eftir 12. sýningarhelgi. 42 sáu hana í vikunni, en alls hafa 4,260 séð hana.

Aðsókn á íslenskar myndir 13.-25. mars 2018

VIKURMYNDAÐSÓKNHEILDAR-
AÐSÓKN
STAÐA HEILDAR-
AÐSÓKNAR Í SÍÐUSTU VIKU
Víti í Vestmannaeyjum9,02910,029 (með forsýningum)-
3Andið eðlilega1,2184,1282,910
8Lói - þú flýgur aldrei einn66320,89120,228
5Fullir vasar3327,8807,548
12Svanurinn424,2604,218
(Heimild: FRISK – Theatrical Box Office Reports Iceland)
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR