Morgunblaðið um „Reyni sterka“: Stórstjarna, skúrkur og harmræn hetja

„Stefna myndarinnar hefði getað verið markvissari,“ segir Brynja Hjálmsdóttir í Morgunblaðinu um heimildamyndina Reyni sterka eftir Baldvin Z, en bætir því við að fjölskylda Reynis hafi stórmerkilega og spennandi sögu að segja. Hún gefur myndinni þrjár stjörnur.

Brynja segir meðal annars:

Myndin er aðallega byggð upp á viðtölum við fjölskyldu og vini Reynis, auk þess sem þulur les yfir gamlar myndir og myndskeið. Viðtölin í Reyni sterka eru vel unnin og forvitnileg og í gegnum þau afhjúpast merkileg fjölskyldusaga þar sem gekk á með skini og skúrum líkt og gengur. Þótt Reynir sé auðvitað miðlægur í öllum viðtölum skín persónuleiki viðmælenda í gegn og úr verður skemmtilegt persónugallerí. Margt óvænt kemur í ljós, t.d. eru fleiri fjölskyldumeðlimir en Reynir gæddir yfirnáttúrulegum hæfileikum.

Það er ekki farið mjúkum höndum um Reyni, enda var hann er ekki flekklaus og hjartahreinn Súpermann þrátt fyrir sína yfirnáttúrulegu krafta. Hann hafði sína djöfla að draga, hann var beittur miklu harðræði í æsku en hann var í fóstri hjá mönnum sem voru fullkomlega vanhæfir uppalendur. Sjálfur var hann ekki fyrirmyndarforeldri af frásögnum viðmælanda að dæma og þótt þeir opinberi ýmislegt sem gekk á fær maður á tilfinninguna að samt sé ekki öll sagan sögð.

Viðtölin eru brotin upp með gömlum myndskeiðum sem eru afar snotur. Þessi myndskeið eru mótandi fyrir alla fagurfræði myndarinnar þar sem textaspjöld og slíkt er í áþekkum stíl og gamla myndefnið. Í fyrri hluta myndar er líka brugðið á leik með teiknimyndaformið og notast við hreyfimyndir í klippimyndastíl sem minna á teiknimyndir Terrys Gilliams úr Monty Python-myndunum. Það kom þó á óvart að þegar leið á myndina voru engar hreyfimyndir og ég saknaði þeirra, það hefði verið gaman að sjá þær nýttar sem gegnumgangandi frásagnaraðferð.

Stefna myndarinnar hefði getað verið markvissari. Það eru gerðar tilraunir til þess að marka stefnu með því að skipta myndinni upp í kafla sem eru kynntir með textaspjöldum. Yfirskriftir kaflanna eru samt afar almennar, ein yfirskriftin er t.d. „Hið yfirnáttúrulega“. Í þeim kafla er vissulega fjallað um það efni en samt var „hið yfirnáttúrulega“ sem þema á víð og dreif um myndina og ekki bundið við þennan eina hluta. Því þótti mér þetta ögn þvinguð leið til að skapa strúktúr. Leikstjórinn les líka stutta kynningu eða yfirlýsingu í upphafi myndar, þar sem hann greinir frá því hvers vegna hann réðst í þetta verkefni. Undir lokin flytur hann svo kveðjuorð og veltir vöngum yfir því hvernig tekist hafi til og hvort hann hafi uppfyllt þau markmið sem hann setti sér. Þessir textar eru upplýsandi og draga fram persónuleg tengsl höfundar við efnivið sinn. Engu að síður minntu þessi inngangs- og lokaorð svolítið á efnisyrðingu og niðurstöðu í skólaritgerð frekar en í kvikmynd. Því velti ég því fyrir mér hvort ekki hefði mátt ná þessu fram með öðrum hætti.

Eftirlætiskaflarnir mínir í myndinni voru viðtölin við fjölskyldu Reynis, þetta eru fjölbreyttir og skemmtilegir einstaklingar sem hafa stórmerkilega og spennandi sögu að segja. Í gegnum þau fáum við líka að kynnast afar náið þessum einstaka manni, sem var allt í senn stórstjarna, skúrkur og harmræn hetja.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR