Guðný Guðjónsdóttir: Reyna mun meira á skapandi hugsun, tækni og aðlögunarhæfni á komandi árum

Guðný Guðjónsdóttir fráfarandi forstjóri Sagafilm (Mynd: Haraldur Guðjónsson/Viðskiptablaðið).

Guðný Guðjónsdóttir, fráfarandi forstjóri Sagafilm, segir í samtali við Viðskiptablaðið að íslenski kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðurinn hafi upplifað gríðarlegan vöxt undanfarinn áratug. Hún segir árangurinn helgast af ýmsum þáttum, einkum endurgreiðslukerfi stjórnvalda, og að á komandi árum muni reyna meira á skapandi hugsun, tækni og aðlögunarhæfni í iðnaðinum.

Í viðtalinu segir meðal annars:

Samkeppnisforskot Íslands

Á tímabilinu 2009 til 2015 nam heildarvelta af framleiðslu á kvikmyndum, sjónvarpi og öðru efni á Íslandi yfir 70 milljörðum króna. Störf í greininni voru um 1.300 árið 2014 og skilaði hún 12 milljörðum í skatttekjur. Framlag hins opinbera í formi styrkja og endurgreiðslu á framleiðslukostnaði nam 2,2 milljörðum, fyrir utan 3,7 milljarða útgjöld til RÚV, en hagnaður hins opinbera af fjárfestingu sinni í greininni nam 5,9 milljörðum.

Guðný segir útlit fyrir að 2016 hafi verið metár, enda var veltan fyrstu átta mánuðina hærri en allt árið 2015 (13,6 milljarðar).

„Íslenski kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðurinn hefur þróast hratt undanfarin ár, þá sérstaklega með tilkomu endurgreiðslukerfisins,“ segir Guðný. Endurgreiðslukerfi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var tekið upp árið 1999 og felst í því að hið opinbera endurgreiði hluta af framleiðslukostnaði kvikmynda, en þann 1. janúar hækkaði hún úr 20% í 25%. Fjárfesting hins opinbera felst einnig í styrkjum frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

„Endurgreiðslukerfið á stærstan þátt í veltuaukningunni og virkar mjög vel sem sölutæki til að laða erlenda aðila til landsins með sín verkefni,“ segir Guðný. Þar fyrir utan hafi náttúrufegurð Íslands og öflugur mannauður laðað að erlend verkefni.

„Það er mikil samkeppni um slík verkefni enda endurgreiðslukerfi í boði víða erlendis. Hins vegar er íslenska kerfið einfalt og gegnsætt sem eykur á samkeppnisforskot Íslands í þeim efnum,“ segir Guðný, og bætir við að það eigi eftir að koma í ljós hvaða áhrif styrking krónunnar hafi á komu erlendra verkefna til landsins.

Guðný segir að endurgreiðslukerfið sé einnig mikilvægt fyrir íslenska framleiðslu, en að kvikmyndasjóður sé mjög rýr og að það sárvanti fjármagn.

Hagræn áhrif kvikmyndaframleiðslu og endurgreiðslukerfisins eru talsverð. Á milli 2011 og 2014 var virðisauki af endurgreiðslu um tvöfalt framlag hins opinbera og á milli 2011 og 2013 var beinn virðisauki endurgreiðslunnar áætlaður um 1,8 milljarðar kr. á ári.

Vaxtarmöguleikar í sjónvarpi

Guðný segir mikla vaxtarmöguleika felast í framleiðslu á sjónvarpsefni og þá einkum á íslensku efni.

Sjá nánar hér: Ævintýri í 10 ár – Viðskiptablaðið

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR