Minning | Edda Heiðrún Backman 1957-2016

Edda Heiðrún Backman leikkona lést á Landspítalanum í Fossvogi í gær, 58 ára að aldri.

Edda átti glæstan feril í leikhúsi en lék einnig í nokkrum bíómyndum, sjónvarpsmyndum og stuttmyndum, meðal annars Eins og skepnan deyr (1986) og Kaldaljós (2004), báðar eftir Hilmar Oddsson og einnig í sjónvarpsmynd hans Öskubuska og maðurinn sem átti engar buxur (1986). Þá kom hún fram í 101 Reykjavík (2000) eftir Baltasar Kormák, Sporlaust (1998) eftir Hilmar Oddsson, Stikkfrí (1997) eftir Ara Kristinsson og Bíódögum (1994) Friðriks Þórs Friðrikssonar, sem og í sjónvarpsþáttaröðunum Fornbókabúðinni (1997) eftir Jóhann Sigurðarson og Guðmund Ólafsson og Sigla himinfley (1994) eftir Þráinn Bertelsson.

2003 hlaut hún Edduverðlaunin fyrir hlutverk sitt í Áramótaskaupinu 2002.

Edda Heiðrún glímdi við MND-sjúkdóminn sem hún greindist með árið 2004. Sjúkdómurinn varð til þess að hún hætti að leika og sneri sér að leikstjórn og leikstýrði hún fjölda sýninga bæði í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Árið 2008 fann Edda Heiðrún sköpunarkrafti sínum nýjan farveg og hóf að mála með munninum, bæði vatnslitamyndir og olíu, myndir af fuglum og fólkinu sem var henni kært.

Edda Heiðrún var ötul baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks og stóð fyrir landssöfnun til uppbyggingar og endurbóta á Grensásdeild undir yfirskriftinni Á rás fyrir Grensás. Þar söfnuðust á annað hundrað milljónir króna.

Árið 2008 heiðraði Alþingi Eddu Heiðrúnu með því að skipa hana í hóp heiðurslistamanna. Hún fékk heiðursverðlaun Grímunnar árið 2015.

Edda Heiðrún lætur eftir sig tvö börn, Arnmund Ernst leikara og Unni Birnu menntaskólanema.

Hér að neðan má sjá hana í eftirminnilegu atriði úr Kaldaljósi Hilmars Oddssonar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR