„Hjartasteinn“ til Toronto

Baldur Einarsson og Blær Hinriksson fara með aðalhlutverkin í Hjartasteini.
Baldur Einarsson og Blær Hinriksson fara með aðalhlutverkin í Hjartasteini.

Hjartasteinn Guðmundar Arnars Guðmundssonar hefur verið valin í Discovery hluta Toronto hátíðarinnar en sá hluti hátíðarinnar er tileinkaður spennandi nýjum röddum í kvikmyndagerð. Myndin mun keppa um FIPRESCI gagnrýnendaverðlaunin en hátíðin stendur 8.-18. september.

Áður hefur komið fram að myndin verður heimsfrumsýnd á Feneyjahátíðinni sem fram fer rétt áður.

Hjartasteinn gerist yfir sumar í litlu sjávarþorpi á Íslandi. Sagan fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina.

Tökur fóru fram haustið 2015 í Borgarfirði eystri, Seyðisfirði, Vopnafirði og Dyrhólaey.

Guðmundur Arnar leikstýrir og skrifar handritið að Hjartasteini. Guðmundur hefur getið sér góðs orðs sem leikstjóri og handritshöfundur á undanförnum árum fyrir margverðlaunaðar stuttmyndir sínar. Þar hefur Hvalfjörður reynst vera í sérflokki, enda unnið til 45 verðlauna á kvikmyndahátíðum víðs vegar um heiminn, þar á meðal sérstök dómnefndarverðlaun í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Cannes árið 2013.

Framleiðendur Hjartasteins eru Anton Máni Svansson og Guðmundur Arnar Guðmundsson fyrir Join Motion Pictures og Lise Orheim Stender og Jesper Morthorst fyrir hið danska framleiðslufyrirtæki SF Studios Production. Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Norðmannsins Sturla Brandth Grøvlen, Danirnir Anne Østerud og Janus Billeskov Jansen sjá um klippingu og Daninn Kristian Eidnes Andersen semur tónlist myndarinnar. Sölufyrirtæki myndarinnar á alþjóðavísu er hið þýska Films Boutique og Sena sér um innlenda dreifingu hennar.

Með helstu hlutverk fara ungstirnin Baldur Einarsson, Blær Hinriksson, Diljá Valsdóttir, Katla Njálsdóttir, Jónína Þórdís Karlsdóttir, Rán Ragnarsdóttir, Daníel Hans Erlendsson, Theodór Pálsson og Sveinn Sigurbjörnsson ásamt þeim þaulreyndu Nínu Dögg Filippusdóttur, Sveini Ólafi Gunnarssyni, Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, Søren Malling og Gunnari Jónssyni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR