SÍK með málþing um fjármála- og tryggingaþjónustu kvikmyndagerðar

málþing sík maí 2016Í tengslum við aðalfund sinn þann 26. maí næstkomandi stendur Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) fyrir málþingi um fjármála- og tryggingaþjónustu í kvikmyndagreininni með fókus á alþjóðlegar lausnir fyrir íslenskan markað.

Málþingið, sem stendur frá kl. 16-17:30 þennan dag, er hugsað fyrir sérfræðinga í fjármálageiranum, fjárfesta, framleiðendur kvikmyndaefnis og annars áhugafólks um viðskiptahluta kvikmyndagerðar. Framleiðsluhluti kvikmyndagreinarinnar á Íslandi velti yfir 70 milljörðum árin 2009-2015 og ársvelta hefur meira en tvöfaldast á sama tímabili.

Kvikmyndagreinin er yfir 100 ára gömul en dýpri þekking á fjármálahluta nútíma kvikmyndaframleiðslu og öllum þeim möguleikum sem í boði eru fyrir fjárfesta og fjármálakerfið til að tryggja sínar fjárfestingar má bæta í bankakerfinu á Íslandi.
Markmið málþingsins er að kynna fyrir íslenskum fjárfestum, sjóðum og bönkum leiðir sem alþjóðleg kvikmyndaframleiðsla notar til að lækka áhættu, tryggja útkomu mynda, tryggingar, fjárstreymisfjármögnun og fleira sem skiptir máli við að fjármagna kvikmyndaframleiðslu:

• Verklokatryggingar
• Verkefnatryggingar
• Fjárstreymisfjármögnun
• GAP fjármögnun
• Áhættugreining
• Alþjóðleg innheimtufyrirtæki
• Fjármögnun með skattaívilnunum
• Forsölur sem hluti af fjármögnun
• Erlendir sjóðir og stofnanaframlög að utan

Fyrirlesarar á málþinginu eru:

Per Naumann stýrir skrifstofum European Film Bonds í Kaupmannahöfn, London, Stokkhólmi, Madríd og Melbourne sem hafa séð um verklokatryggingar við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis í yfir 40 löndum. European Film Bonds einbeita sér markvisst að þróun markaða, framboði af gagnlegum tryggingum og endurtrygginginum, framboði á samkeppnishæfum verklokatryggingum og tengda ráðgjafarþjónustu.

Mads Peter Ole Olsen var hjá ABN AMRO Bank og Danske Bank þar sem hann vann við verkefnafjármögnun, fjárfestingabankastarfsemi og fyrirtækjasamruna, bæði í Kaupmannahöfn og í New York. Mads vann hjá Banque Internationale a Luxembourg og síðar í 10 ár hjá Scanbox Entertainment. Mads er í dag yfir norðurlandadeild franska bankans Natixis Coficiné og stýrir kvikmyndaframleiðslulánum til kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðarins. Natixis Coficiné er stærsti lánveitandinn í Evrópska kvikmyndaiðnaðinum.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR