Sjónvarpsþáttaröðin Fangar verður sýnd á öllum ríkissjónvarpsstöðum Norðurlandanna, DR í Danmörku, NRK í Noregi, SVT í Svíþjóð og YLE í Finnlandi auk RÚV á Íslandi. Þá hefur hún einnig verið seld til Canal+ í Póllandi. Sölufyrirtækið Global Screen annast sölu á alþjóðlegum vettvangi, en tökur á þáttaröðinni hefjast á vormánuðum undir stjórn Ragnars Bragasonar.
Þáttaröðin hefur þegar hlotið framleiðslustyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Morgunblaðið fjallar um málið:
Upphaf þessarar þáttaraðar, sem verið hefur í þróun í nokkur ár, má rekja til rannsóknarvinnu þeirra Nínu Daggar Filippusdóttur og Unnar Aspar Stefánsdóttur sem heimsóttu fanga og fangaverði í kvennafangelsið í Kópavogi á sínum tíma, en um er að ræða fjölskyldusögu úr íslenskum samtíma.
Í sögunni kynnist áhorfandinn Lindu en líf hennar hrynur þegar hún er færð í kvennafangelsi í Kópavogi eftir að hafa ráðist á föður sinn, þekktan mann úr viðskiptalífinu og veitt honum lífshættulega áverka. Í fangelsinu hittir Linda fyrir aðrar konur sem hafa farið út af sporinu í lífinu, misharðnaða glæpamenn sem allar hafa sögu að segja úr heimi grimmdar og ofbeldis.
Með handrit fara Margrét Örnólfsdóttir og Ragnar Bragason og mun Ragnar einnig leikstýra seríunni. Framleiðslufyrirtækin Mystery Productions og Vesturport sjá um framleiðslu þáttana í umsjón þeirra Árna Filippussonar og Davíðs Óskars Ólafssonar og er RÚV meðframleiðandi.
Sjá nánar hér: Íslenskir „Fangar“ ferðast víða – mbl.is