Frítt efni?

Í nýlegri grein í Kjarnanum kemur fram að á Íslandi séu um 115 þúsund háhraðanettengingar og að íslenski fjarskiptageirinn velti um 50 milljörðum árlega. Þrátt fyrir þessa gífurlegu veltu greiðir fjarskipta­geirinn mjög takmarkað til höfundarréttar­hafa, sem þó eiga stóran hluta þess efnis sem verið er að flytja um veiturnar og neytendur sækjast eftir og greiða fjarskiptafyrirtækjunum fyrir flutning á. Þannig er viðskipta­módel fjarskiptageirans byggt upp á að hann selur inn á frítt efni sem neytendur sækjast eftir.

Í nýrri könnun Capacent um neyslu á kvikmynduðu efni kemur í ljós að um 80% Íslendinga á aldrinum 16-24 ára hlaða niður kvikmyndaefni. Slíkt hlutfall er óþekkt með öllu í nágrannalöndum okkar. Þeir sem hlaða niður efni greiða fyrir vistun og flutning efnisins sem þeir horfa eða hlusta á en greiða ekki fyrir efnið sjálft, sem þó er drifkrafturinn fyrir því að ástunda niðurhalið.

Leitarvélar, vistunaraðilar og aðrir sem bjóða höfundarréttarefni til niðurhals fá það líka frítt. Þeir selja auglýsingar og áskrift út á þjónustu sína sem raunverulega grundvallast á þessu efni. Netveitur og tæknifyrirtæki selja síðan auglýsingar til að fjármagna leit, vistun og flutning á efninu og hafa af því miklar tekjur, án þess að greiða endurgjald fyrir.
Á þennan hátt hefur orðið til viðskiptamódel sem veltir tugum milljarða hér í okkar litla hagkerfi og ótrúlegum tölum á heimsvísu, án þess að þeir sem framleiða efnið fái endurgjald fyrir. Það getur varla talist sanngjarnt að það sé þeirra að gefa sínar afurðir?

Hilmar Sigurðsson.
Hilmar Sigurðsson.

Háværar raddir eru um að kvikmynda- og tónlistargreinarnar hafi ekki brugðist við þessum nýja veruleika með því að bjóða efnið sitt á rafrænu formi til neytenda, þegar og þar sem þeim hentar. En er það virkilega sanngjörn krafa á höfunda efnis að finna upp og þróa tæknikerfi og veitur sem tryggir þeim sanngjarnt endurgjald? Er það ekki eðlilegri krafa að þau fyrirtæki sem finna upp, þróa og markaðssetja nýja tækni, og fá í dag efnið til þess frítt, þrói í viðskipta­módelum sínum leiðir til að tryggja höfundarréttarhöfum greiðslu fyrir sitt efni?

Í allri þessari dreifingu efnisins er hægt að mæla áhorf, niðurhal og fjölmargt annað. Allar athafnir okkar á netinu eru vaktaðar og skráðar í gagnagrunna tækni­fyrirtækjanna (og annarra eins og NSA). Þannig hefur þetta verið frá fyrstu dögum netsins.

Því hefur verið haldið fram að persónuvernd sé undir við það að nýta þessar upplýsingar til að tryggja eigendum höfundarréttarvarins efnis endurgjald fyrir not á verkum þeirra. Með slíkum málflutningi eru þeir hinir sömu í raun að fara gegn því frelsi sem þeir krefjast, því ef virða á persónuverndina þyrfti að loka veitum eins og Google, Yahoo og öðrum slíkum, en þar er safnað ógrynni af upplýsingum um netnotkun okkar og hegðun.

Að sjálfsögðu eiga sömu lögmál að gilda í netheimum og við höfum orðið ásátt um í okkar daglega lífi. Við sættum okkur ekki við að hlutirnir okkar séu teknir ófrjálsri hendi og seldir öðrum, án þess að við fáum eitthvað fyrir okkar snúð. Við erum til í að greiða stórar fjár­hæðir fyrir tæki, netaðgang, geymslu, þjónustu og annað, en einhvern veginn hefur þótt sjálfsagt að taka efni sem aðrir eiga án þess að greiða fyrir það.

Verði ekki breyting á þessari þróun munum við tapa fjölbreytileika í framboði og gerð efnis og fá bara meira af því sama. Það er væntanlega ekki það sem fólk hefur í huga þegar það hleður niður efni, en verður óhjákvæmilega niðurstaðan nema við förum að læra að innihaldið, efnið sjálft, er það sem er raunverulega virðið, ekki umbúðirnar, flutningaleiðirnar eða annað sem þarf til að færa okkur það heim í stofu, og það hlýtur að vera sanngjarnt að höfundar og rétthafar fái greitt fyrir það.

[Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum og má skoða hér.]

Hilmar Sigurðsson
Hilmar Sigurðsson
Hilmar Sigurðsson er formaður Samtaka íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) og framkvæmdastjóri GunHil.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR