spot_img

SÍK fagnar megináherslum Lilju Alfreðsdóttur varðandi málefni kvikmyndagerðar á næsta kjörtímabili

Anton Máni Svansson formaður SÍK bregst við skrifum Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra um næstu skref í málefnum kvikmyndagerðarinnar og segist fagna þeim megináherslum sem þar koma fram.

Grein Lilju má lesa hér.

Anton segir:

“Ég fagna grein ráðherra og þeim megináherslum sem þar fram koma. Þær eru í samræmi við þær tillögur sem við hjá SÍK höfum lagt fram á samstarfsfundum við ráðuneytið undanfarið ár. Við vorum langt á veg komin með þó nokkur af þessum áherslumálum og vonumst við innilega að unnt verði að klára þau sem fyrst á nýju ári.

Mikilvægasta málið á dagskrá hefur auðvitað verið, og er enn, efling Kvikmyndasjóðs og aukinn fyrirsjáanleiki með fjögurra ára samkomulagi í senn. Aukalega höfum við svo t.a.m. þróað áfram hugmyndir um hvernig endurgreiðslukerfið getur orðið sterkara fyrir íslensk verkefni og unnið betur með Kvikmyndasjóðnum.

Ljóst er að ef til lagðar lagabreytingar á endurgreiðslukerfinu ná fram að ganga þá munu þær hafa gífurlega jákvæð áhrif til framtíðar fyrir íslenska kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu, og hjálpa mikið til við að leiðrétta þá alvarlegu skekkju sem við stöndum nú frammi fyrir þessi árin þar sem styrkir frá Kvikmyndasjóði eru langt frá því að hækka í takt við launa- og verðlagsþróun í landinu.

Fagnaðarefni er svo einnig að ráðherra hefur nú þegar framkvæmt eina af þeim breytingum sem við hjá SÍK lögðum til gagnvart endurgreiðslukerfinu. Þann 1.desember næstkomandi verður öllum kleift að sækja um hluta endurgreiðslu á verkefni þegar 50% af kostnaði er fram kominn. Eins og gefur að skilja þá mun reglugerðarbreyting þessi létta verulega á fjárstreymisvanda fjölda verkefna og getur sparað mikinn vaxtakostnað til framtíðar.”

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR