spot_img

Lilja skrifar um næstu skref varðandi kvikmyndagerðina

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráherra skrifar í Vísi um þau málefni kvikmyndagerðar sem hún vill leggja áherslu á, hljóti hún til þess brautargengi í komandi kosningum.

Lilja byrjar greinina á að fara yfir það sem hún hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu sem er að ljúka. Síðan ræðir hún megináherslur sínar næstu fjögur árin og segist vilja efla Kvikmyndasjóð með því gera samkomulag til fjögurra ára, fjármagna sjónvarpssjóðinn sem var lögfestur í vor en án fjárframlags, klára löggjöf um menningarframlag streymisveita, gera 35% endurgreiðslu aðgengilega öllum verkefnum, afnema að styrkir Kvikmyndasjóðs dragist frá stofni endurgreiðslunnar og hleypa stuttmyndum inn í endurgreiðslukerfið til að styðja við upprennandi kvikmyndagerðafólk.

Lilja skrifar:

Megináherslur næstu fjögur árin

Ef við í Framsókn hljótum til þess brautargengi í komandi Alþingiskosningum, þá viljum við meðal annars koma eftirfarandi aðgerðum til framkvæmda til að efla enn frekar kvikmyndagerð á Íslandi:

1) Efla Kvikmyndasjóð, sem komið var á laggirnar af Framsóknarflokknum árið 1978, með því að festa hækkun framlaga hans í sessi og tryggja jafnframt aukinn fyrirsjáanleika í vaxandi fjármögnun fyrir sjóðinn með fjögurra ára samkomulagi fyrir árin 2026-2030. Þá yrði nýr styrkjaflokkur, fjárfestingasjóður sjónvarpsefnis sem unnið hefur verið að á síðasta kjörtímabili, virkjaður. Hann mun efla sjóðinn enn fremur þar sem hann opnar möguleikann á að fjármagn skili sér aftur til sjóðsins þegar slík sjónvarpsverkefni skila ákveðnum hagnaði samkvæmt settum viðmiðum styrkjanna. Öflugur Kvikmyndasjóður mun geta veitt fleiri vilyrði til íslenskra verkefna sem aftur auðveldar þeim að sækja sér fjármögnun utan landssteinanna.

2) Klára löggjöf um menningarframlag streymisveitna sem skyldar erlendar streymisveitur sem starfa hér á landi til að veita fé í innlenda kvikmyndagerð í gegnum Kvikmyndasjóð, eða fjárfesta beint í innlendum kvikmyndaverkefnum. Málið var langt komið innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins en náði ekki að klárast í ljósi aðstæðna.

3) Sterkara endurgreiðslukerfi fyrir innlend verkefni með þremur breytingum.35% endurgreiðsluþrepið yrði eina endurgreiðsluþrepið. Sú breyting mun sérstaklega gagnast innlendum sjónvarps- og kvikmyndaverkefnum á sama tíma og samkeppnishæfni Íslands fyrir stór alþjóðleg verkefni er viðhaldið. Þá yrði afnumið að styrkir Kvikmyndasjóðs dragist frá stofni endurgreiðslunnar, líkt og tíðkast í öðrum ríkjum í Evrópu ásamt því stuttmyndir yrðu felldar undir endurgreiðslukerfið, meðal annars til að styðja við upprennandi kvikmyndagerðafólk.

Frá því að endurgreiðslukerfinu var komið á af Framsóknarflokknum árið 1999 hefur það stutt verulega við kvikmyndagerð og hvatt til aukinnar verðmætasköpunar hérlendis með endurgreiðslu á kostnaði sem fellur til innanlands. Endurgreiðslukerfið er góður mælikvarði á umsvif í greininni; séu umsvifin mikil, endurgreiðir ríkið eðlilega hærri krónutölu og öfugt. Kerfið þykir skilvirkt og fyrirsjáanlegt í alþjóðlegum samanburði. Við viljum standa vörð um það eins og kemur fram í kosningavita Viðskiptaráðs og sést á meðfylgjandi mynd sem sýnir afstöðu stjórnmálaflokka til fyrirkomulagsins.

Kosningaviti Viðskiptaráðs: Afstaða stjórnmálaflokka til þess hvort draga eigi úr kostnaði ríkissjóðs vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar.

4) Árið 2028 hefjist undirbúningur við mótun nýrrar kvikmyndastefnu fyrir Ísland fyrir árin 2030-2040. Við teljum brýnt að horfa til langrar framtíðar þegar kemur að því byggja upp kvikmyndagerð hér á landi sem enn öflugri atvinnuveg í góðri samvinnu við haghafa í greininni.

Hverjum treystir þú?

Á þessum fyrstu fjórum árum sem kvikmyndastefna hefur verið í gildi höfum við unnið ötullega að því með kvikmyndageiranum að efla þessa mögnuðu list- og atvinnugrein. Verkin tala. Nú eru sex ár eftir af gildistíma stefnunnar og við viljum halda áfram. Við höfum skýra framtíðarsýn fyrir greinina; viljum auka verðmætasköpun í henni og skapa fleiri störf, en síðast en ekki síst efla íslenska menningu og tungu.

Það er viðvarandi verkefni að sækja fram í þágu menningarmála og ég er stolt af þeim árangri sem náðst hefur á undanförnum árum. Afstaða mín og okkar í Framsókn er skýr; við stöndum með menningu og skapandi greinum. Því viljum við koma ofangreindum aðgerðum til framkvæmda í þágu íslenskrar kvikmyndagerðar á Íslandi, verðum við í aðstöðu til þess.

Greinina í heild má lesa hér.

HEIMILDVísir
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR