Minning: Peter O’Toole 1932-2013

Peter O’Toole er án efa einn merkasti kvikmyndaleikari á seinnihluta tuttugustu aldar. Reyndar meira en það, hann var stjarna – það var með hann eins og marga aðra stóra persónuleika að það sem maður fékk var fyrst hann sjálfur, svo hlutverkið. Góður eða slæmur, það var yfirleitt gaman að horfa á hann, svipað má segja um samtíðarmenn hans eins og t.d. Richard Burton, Richard Harris, Sean Connery eða Michael Caine. Allir afar mistækir en höfðu (hafa) eitthvað alveg sérstakt fram að færa.

Eða eins og David Thomson segir um hann í The Biographical Dictionary of Film:

“He could look and behave as his own ghost. He could overact, he could be ridiculous. But he was never dull and often riveting.”

O’Toole sló í gegn í þeirri mögnuðu stórmynd David Lean, Lawrence of Arabia frá 1962. Myndin er enn í dag viðmiðið þegar kemur að sögulegum kvikmyndum og túlkun O’Toole á Lawrence er með endemum áhugaverð; þrátt fyrir margendurtekið áhorf er hún enn uppspretta uppgötvana og vangaveltna. Hér er sýnishorn sem meðal annars inniheldur frægasta klipp kvikmyndasögunnar (úr logandi eldspýtu í sólarupprás):

O’Toole lék annan náunga með vott af mikilmennskubrjálæði í mynd Richard Rush, The Stunt Man frá 1980, ein af bestu bandarísku kvikmyndunum um kvikmyndir og kvikmyndagerð. Mæli eindregið með henni:

Undir lok ferilsins lék hann kvikmyndastjörnu á fallanda fæti sem verður skotin í ungri stúlku í Venus eftir Roger Michell frá 2006. Uppleggið er skemmtilega perverskt en myndin er það síður en svo, þetta er hjartnæmt og húmorískt portrett þar sem O’ Toole tekst meðal annars að henda gaman að aðstæðum sínum. Sem fölnuð stjarna er hann fastur í deyjandi patríarkarullum og dauðleiður á því. Ári síðar birtist hann í kvikmyndinni Stardust þar sem hann lék einmitt þannig týpu.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR