The Act of Killing hefur verið mánuð í sýningum í Bíó Paradís, skilst mér, og margir hljóta þegar að hafa fjallað um hana. En ef þú ætlar bara að sjá eina mynd í ár. Eða ef þú ert búinn að missa trúna á kvikmyndamiðilinn. Eða hefur aldrei haft sérstakt álit á honum. Ekkert býr þig undir þessa mynd. Og hún er ein af þeim sem geta reynst sögulegt hreyfiafl. Þetta er heimildamynd og senan hér að ofan er heimildaefni: mennirnir á sviðinu voru beinir þátttakendur í fjöldamorðum eftir valdaránið í Indónesíu 1965. Leikstjóri heimildamyndarinnar fær þá til að segja sögu sína og sviðsetja athafnir sínar. Framleiðsla tók átta ár. Myndin er ógnvænleg, átakanleg, súrrealísk og stendur undir þeirri ábyrgð sem leikstjórinn tókst á hendur með gerð hennar.