Segir á vef RÚV:
Töluverð umræða skapaðist um fyrirkomulag á endurgreiðslum til sjónvarps- og kvikmynda í tengslum við sjónvarpsþáttaröðina True Detective sem tekin var upp hér á landi. Lögum um endurgreiðslur var breytt, meðal annars til að greiða götu verkefnisins en breytingin gerði það að verkum að heimilt var að endurgreiða 35 prósent af framleiðslukostnaði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þessi tímabundna breyting á að falla úr gildi í lok desember.
Alls nam endurgreiðslan vegna True Detective fjórum milljörðum; þættirnir hlutu einróma lof gagnrýnenda og Jodie Foster, sem lék aðalhlutverkið fékk bæði Emmy og Golden Globe verðlaun fyrir frammistöðu sína.
Endurgreiðslur aukist og áhuginn ekki dvínað
Endurgreiðslur til sjónvarps- og kvikmyndaverkefna hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár.
Þær voru rúmur milljarður fyrir tæpum tíu árum en nálægt sex milljörðum fyrir tveimur árum, sem mátti að stórum hluta rekja til áðurnefndrar þáttaraðar True Detective.
Þær drógust lítillega saman í fyrra en samkvæmt minnisblaði sem Spegillinn fékk afhent er gert ráð fyrir að endurgreiðslurnar nái nýju hæðum á þessu ári og verði sex milljarðar. Þar af eiga tveir milljarðar að renna til erlends verkefnis sem ekki er nafngreint í minnisblaðinu.
Áhugi á Íslandi virðist síður en svo hafa dvínað, nýverið flutti Morgunblaðið fréttir af því að Óskarsverðlaunahafinn Christopher Nolan væri væntanlegur hingað til lands með mörg hundruð manna lið til að taka upp atriði fyrir stórmyndina Ódysseifskviðu.
Þegar hagræðingarhópur stjórnvalda skilaði af sér tillögum í byrjun mars voru endurgreiðslur til sjónvarps- og kvikmyndaverkefna nefndar á nafn; að mati hópsins var tilefni til að setja þeim skýrari mörk því ekkert hámark væri á hvað þær gætu orðið háar ár hvert – Þegar fyrsta fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar var kynnt kom fram að fyrirkomulag endurgreiðslna yrði endurskoðað með það að markmiði að draga úr ófyrirséðum útgjaldavexti ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að breytingarnar taki gildi árið 2027.
Öll verkefni eiga rétt á endurgreiðslu og ekkert þak
Logi Einarsson menningarmálaráðherra segir í samtali við Spegilinn ekki tímabært að tjá sig frekar um þessar breytingar. Vinna sé hafin í ráðuneytinu. Skoða eigi hvernig kerfið nýtist íslenskri kvikmyndagerð sem best, fyrirsjáanleika fjármögnunar, samkeppnishæfni og skilvirkni.
Ef marka má minnisblöð sem Spegillinn fékk afhent í tengslum við stjórnarmyndunarviðræðurnar í desember hefur fjármálaráðuneytið haft efasemdir um þetta fyrirkomulag.
Í einu þeirra segir ráðuneytið að helsti veikleiki laganna sé að öll verkefni eigi rétt á endurgreiðslu og ekkert þak sé á endurgreiðslunni sem hvert verkefni geti fengið. Fresta hafi þurft útborgun endurgreiðslu þegar þær hafa farið fram úr heimildum og þær síðan gengið á stóran hluta fjárheimilda næsta árs þegar þær hafi verið greiddar út.
Sérfræðingar í ráðuneytinu ekki sannfærðir um ávinninginn
Starfsmenn ráðuneytisins virðast, ef marka má minnisblaðið, heldur ekki sannfærðir um hversu miklu þetta skili fyrir þjóðarbúið; því hafi verið haldið fram að nærri sjö krónur skili sér til baka í ríkissjóð með beinum, óbeinum og afleiddum hætti, meðal annars í skýrslu ráðgjafarfyrirtæksins Olsberg.
Sérfræðingar ráðuneytisins segjast í minnisblaðinu telja líkur á að þetta sé bæði ofmetið og óraunhæft. Frá efnahagslegu sjónarhorni sé aðeins skynsamlegt við mjög sérstakar aðstæður að ná í skatttekjur með því að endurgreiða kostnað vegna atvinnurekstrar.
Ráðuneytið viðurkennir aftur á móti að ef þessi iðnaður eigi að þrífast hér á landi þurfi Ísland að bjóða upp á ívilnun í einhverri mynd, enda sé töluverð samkeppni milli landa um að fá til sín stóru sjónvarps- og kvikmyndaverkefnin.
Tilefni sé hins vegar til að endurmeta og rýna hversu skilvirkur þessi stuðningur sé og hvaða kostnaður teljist falla til hér á landi.
Telja ríkið vera að borga með leikurum og listamönnum
Athygli vekur að þar nefnir ráðuneytið sérstaklega launagreiðslur og þá helst laun listamanna. Þeir telji oft fram sem verktakar og því sé aðeins tuttugu prósent skattur á tekjur til félags í þeirra eigu, sem geti oft verið háar fjárhæðir.
Ráðuneytið tekur dæmi af leikara sem fái greiddan hálfan milljarð fyrir hlutverk sitt í verkefni sem sé tekið upp hér á landi. Hann greiði 100 milljónir í skatt en með því að nýta sér endurgreiðsluleið stjórnvalda, til að mynda upp á þrjátíu og fimm prósent, fái hann 175 milljónir endurgreiddar úr ríkissjóði. Þetta dæmi um laun listamanna er endurtekið í öðru minnisblaði frá ráðuneytinu; þetta sé ekki kostnaður sem myndi margföldunaráhrif og því eitthvað sem mætti taka sérstaklega til skoðunar.
„Allur kvikmyndaiðnaðurinn í húfi“
Breytingar á endurgreiðslunum eiga þó eftir að mæta harðri andstöðu. „Það er allur kvikmyndaiðnaðurinn í húfi,“ segir Leifur Dagfinnsson, framkvæmdastjóri Truenorth, sem er eitt umsvifamesta fyrirtækið í þessum atvinnugeira. „Við gætum ekkert verið að sinna þessum iðnaði og búa til heilsársstörf nema þessi 35 prósent endurgreiðsla væri til staðar. Við erum í harðri samkeppni við önnur lönd og til þess að fá hingað verkefni í lengri tökur í lengri tíma og eyða þannig meiri gjaldeyri þarf þetta hlutfall að haldast óbreytt.“
Leifur hefur barist fyrir því að fá endurgreiðslur hækkaðar og ásamt RVK Studios byggt hér upp kvikmyndaver sem nýtast bæði erlendum og innlendum kvikmyndagerðamönnum.
Leifur minnir á að endurgreiðsla upp á 35 prósent nýtist ekki aðeins erlendum verkefnum heldur líka innlendum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. „Við færum aftur til fortíðar um tuttugu ár og þetta myndi grotna og deyja út. Og myndi kæfa þá miklu grósku sem hefur átt sér stað síðustu fimm til tíu árin.“
Leifi hugnast ekki þak á endurgreiðslurnar og bendir á að Norðmenn íhugi breytingar á sínu kerfi þar sem þeir hafi misst stór verkefni frá sér, einmitt af þeirri ástæðu. „Ég held að það sé mjög áhættusamt að gera það, bara til að fullnægja einhverjum bókhaldsaðferðum ríkisstjórnarinnar til að vera með einhvern fastan lið sem kostnaðarlið. Fólk þarf að muna að það fer enginn peningur útúr því excel-skjali nema hann hafi komið inn frá erlendum aðilum sem hafa fjárfest í íslensku hagkerfi og peningurinn hafi verið að vinna hér í sex til tólf mánuði.“