spot_img

Sjö íslenskar heimilda- og stuttmyndir valdar á Nordisk Panorama 2024

Nordisk Panorama fer fram í Malmö dagana 19.-24. september næstkomandi. Sjö íslenskar stutt- og heimildamyndir taka þátt að þessu sinni.

Í keppni um bestu norrænu heimildamyndina taka þátt The Day Iceland Stood Still eftir Pamelu Hogan, Göngin eftir Hall Örn Árnason og Björgvin Sigurðarson og Belonging eftir Sævar Guðmundsson og Kreshnik Jonuzi. Sú fyrstnefnda var frumsýnd á RIFF í fyrra og var einnig sýnd á Hot Docs í vor. Göngin var sýnd á Skjaldborg í vor. Belonging fjallar um hinn 22 ára Mikel sem er vísað frá Bandaríkjunum eftir að hafa alist þar upp og sendur aftur til Albaníu. Á sama tíma þarf systir hans Angela, sem er fædd í Bandaríkjunum, að gera upp við sig hvort hún verði eftir eða fylgi bróður sínum.

Allt um kring eftir Birnu Ketilsdóttur Schram og Brot af atvikinu eftir Steina Kristinsson keppa í flokknum Besta norræna stuttmyndin. Sú fyrri var frumsýnd á RIFF í fyrra en hin á Stockfish í vor.

Þá verður Sjoppa eftir Ísak Hinriksson í flokknum Nýjar norrænar raddir og Þið kannist við… eftir Guðna Líndal Benediktsson tekur þátt í flokknum Ung norræn þar sem áherslan er á myndir fyrir börn. Fyrri myndin var frumsýnd á RIFF í fyrra en sú síðarnefnda var sýnd á RÚV um jólin og hlaut tilnefningu til Edduverðlauna.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR