Allt að 40 nemendur í kvikmyndadeild LHÍ frá 2022, 500 milljóna króna framlag til 2026

Í samkomulagi ráðuneytis og Listaháskóla Íslands um kvikmyndanám er gert ráð fyrir að boðið verði uppá námsbrautir í leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku og klippingu og er miðað við að fjöldi nemenda verði allt að 40 á ári.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu:

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Listaháskóla Íslands að annast kvikmyndanám á háskólastigi frá og með haustinu 2022. Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, undirrituðu samning þess efnis að loknum sumarfundi ríkisstjórnarinnar í gær.

Samkvæmt samningnum mun Listaháskólinn bjóða upp á námsbrautir til BA prófs í leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku og klippingu og er miðað við að fjöldi nemenda verði allt að 40 á ári.

Á síðasta vetri kynnti ráðherra kvikmyndastefnu til ársins 2030, þar sem fjölmargar aðgerðir voru boðaðar til að efla íslenska kvikmyndagerð. Sumar aðgerðirnar eru þegar komnar í framkvæmd, t.d. stórauknar fjárveitingar til kvikmyndaverkefna. Í stefnunni var einnig boðað háskólanám í kvikmyndagerð og með undirritun samningsins við LHÍ er tryggt að slíkt nám verði í boði frá og með haustinu 2022.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Þetta er frábært skref sem mun efla íslenska kvikmyndagerð til allrar framtíðar. Námið mun auka listrænt sjálfstæði greinarinnar, auka faglega umræðu og stuðla að kröftugri nýliðun. Kvikmyndanám er spennandi kostur og mjög í anda þeirrar stefnu stjórnvalda að ýta undir verðmætamyndun sem byggir á sköpun og hugviti. Slíkar greinar ráða sífellt meiru um lífskjör og hagsæld þjóða.“

Framlag ríkisins vegna stofnkostnaðar við verkefnið nemur rúmum 100 milljónum kr. en framlag til skólans vegna kennslu, rannsókna og húsnæðis nemur alls tæpum 500 milljónum kr. á gildistíma samningsins, á árunum 2022-2026.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR