Lestin um HVERNIG Á AÐ VERA KLASSA DRUSLA: Daðrað við fáránleika án þess að taka skrefið að fullu

„..óbeint innlegg í femíníska umræðu og ágæt áminning um tvöfalt siðgæði kynjanna, segir Gunnar Theodór Eggertsson gagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1 um Hvernig á að vera klassa drusla.

Gunnar Theodór skrifar:

Hvernig á að vera klassa drusla? er ný íslensk kvikmynd og frumraun leikstjórans Ólafar Birnu Torfadóttur í fullri lengd. Þar segir frá vinkonunum Karen og Tönju, leiknar af Ástu Júlíu Elíasardóttur og Ylfu Marín Haraldsdóttur, sem fara saman í sveit sem sumarstarfsmenn. Lífið á bænum snýst annars vegar um sveitastörfin, mjaltir, sauðburð og smölun, og hins vegar um félagslífið í hópi sumarstarfsmannanna, ástir, örlög og kynlíf, að ógleymdum undirbúningi fyrir hina árlegu rallýkeppni. Tanja er nýhætt með kærastanum sínum og þarf á upplyftingu að halda, borgarbarn sem hefur aldrei verið í sveit, er alls óviss um framtíðina og hefur tekið sér hlé frá námi. Karen virðist hins vegar vera fullkomin andstæða við vinkonu sína, sjálfsörugg og sátt við sitt, á sér marga elskhuga og stendur alfarið á sama hvað öðrum finnst. Hún býður Tönju með í sveitina svo hún geti gleymt kærastanum og lært að njóta lífsins. Eftir að Tanja gerir sig að fífli fyrir framan allan hópinn heimtar hún að Karen kenni henni að vera eins og hún – að standa á sama um allt, að læra að vera „klassa drusla“.

Titill myndarinnar, Hvernig á að vera klassa drusla, vekur upp tengingar við gagnrýna umræðu síðustu ára varðandi þetta tiltekna og gildishlaðna orð: drusla. Myndin vísar þannig í druslu-stimpilinn sem hefur markvisst verið endurskilgreindur og notaður sem baráttutákn til að breyta niðrandi merkingu orðsins, með slagorðinu „ég er drusla“, hugtakinu „drusluskömmun“ og reglulegri „druslugöngu“. Hin léttúðuga sveitapía Karen mun vera „drusla“ titilsins, þótt hún tali ekki þannig um sig sjálfa. Það orð er notað á niðrandi hátt af annarri persónu, sem er illa við hana vegna þess að þær eru að takast á um að sigra í bílarallýi. Hvernig á að vera klassa drusla gerir þó réttindabaráttu druslunnar ekki að meginþræði og lætur efnið frekar svífa um á jaðrinum. Myndin snýst meira um að upphefja líferni meintrar „druslu“ sem frjálst, skemmtilegt og umfram allt venjulegt, sem hluta af litrófi ástarinnar, nokkuð sem hin feimna og óörugga Tanja hefur gott af að prófa og þarf ekki að skammast sín fyrir: Að „læra að vera sama“, eins og það er orðað í myndinni. Dramatísk átök snúa að sambandi vinkvennanna, tilraunum Karenar til að gera Tönju sjálfsörugga sem kynveru (og að halda um leið sinni eigin ástsýki leyndri) og dramað heldur sig frá beittari hliðum drusluumræðu og kynjapólitíkur, stemningin er fyrst og fremst léttgeggjuð og hress. En auðvitað er myndin þannig óbeint innlegg í femíníska umræðu, einmitt með því að taka undir þessa normalíseringu á drusluhugtakinu með því að gera um það nokkuð hefðbundna rómantíska gamanmynd (eða „dramanmynd“, blöndu af grín og drama, sem á ensku er stundum kallað „dramedy“).

Strax í upphafi er staðalmyndum kynjanna stillt upp, þegar vinkonurnar stoppa á bensínstöð: þar er annars vegar bílaverkstæði og hins vegar saumastofa. Á verkstæðinu vinnur heitur gaur sem vekur undireins áhuga Karenar, en Tanja fer frekar inn á saumastofuna, þar sem undarleg kona saumar afskræmdar dúkkur og færir um leið skýr skilaboð til bæði áhorfenda og aðalpersóna: lífið er ekki klippt og skorið. Myndin leikur sér síðan fram og aftur með þessar kynjuðu staðalmyndir. Fer meðal annars aftur í heimsókn á sömu bensínstöð síðar meir og sýnir aðra hlið á bifvélavirkjanum og saumakonunni. Húmorinn snýst oft um hvað Karen er groddaleg týpa og hvernig hún hlutgerir karlmenn, sem er að vissu leyti frekar fyrirsjáanlegt grín en jafnframt vel við hæfi og alltaf ágæt áminning um hið tvöfalda siðgæði sem ríkir oft varðandi framsetningar kynjanna í kvikmyndum. Ekki er allt „klippt og skorið“ og það á ekki síður við um samband vinkvennanna. Hin töffaralega Karen getur líka verið ástsjúk og rómantísk inni við beinið, þótt hún geri sitt besta til að fela það, og einhvers staðar mitt á milli mætast vinkonurnar og læra hvor af annarri.

Handritið er frekar straumlínulagað og einfalt og myndin ójöfn á heildina litið, flæðir ekki alveg nógu vel á köflum og sum atriði og samtöl virka stirð og sviðsett. Leikkonurnar Ásta og Ylfa eru fínar í aðalhlutverkunum og eiga í góðu sambandi á tjaldinu, en fókusinn er svo mikill á þær tvær að aðrar persónur eiga til að lenda út undan. Tónninn flöktir líka dálítið á milli þess að vera raunsæislegur og ýkjukenndur. Myndin er dónaleg upp að vissu marki, en samt bjóst ég alltaf við að hún gengi lengra, sérstaklega miðað við hvernig hún daðrar stundum við fáránleikann án þess að taka skrefið að fullu: sem dæmi má nefna persónu sem virðist heltekinn af því að verða geimfari hjá NASA, en ég gat aldrei almennilega áttað mig á hvort hann væri veruleikafirrtur eða hvort ég ætti sem áhorfandi virkilega að taka hann alvarlega sem ástarviðfang aðalpersónunnar. Að sama skapi gengu sumir dónabrandarar ekki alveg nógu langt til að ná flugi, líkt og þegar Tanja býður óvart hálfri sveitinni að sofa hjá sér og eftirmálarnir falla einhvern veginn flatt miðað við þær væntingar sem aðstæðurnar byggja upp.

Hvernig á að vera klassa drusla er gaman-drama sem var þó hvorki nógu dramatísk né nógu fyndin til að heilla mig sérstaklega, þótt ágæta brandara sé vissulega að finna inni á milli. Karen á til dæmis margar snjallar línur, myndin notar lagið Nasty Boy með Trabant á eftirminnilegan hátt, og Ylfa Marín sýnir ýmsa góða takta í grínleiknum með nokkrum hressilegum ærslasenum.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR